7.1.2009 | 11:05
Tíu fyrir verð einnar?
Ég hef talað um það áður að íslenskar kvikmyndir eru of dýrar. Auðvitað er í lagi að gera eina og eina stórmynd ef sagan er sterk og líkur á að hún standi undir sér. Það getur ekki verið góðs viti ef allar íslenskar myndir eru fyrirfram dæmdar til að tapa peningum. Af fréttinni að dæma er það þó sigur ef myndir standa undir sér. 100 milljóna mynd þarf 100.000 gesti, og þá hef ég ekki tekið kostnað kvikmyndahúss inn í dæmið. Það er því afar ólíklegt að sú mynd muni skila hagnaði, nema hún sé stórkostlega vinsæl.
Kosti mynd 10 milljónir, þarf ekki nema 10.000 gesti. Það á ekki að vera svo mikið mál. Kannski 20.000 til að dekka allan kostnað allra aðila og skila hagnaði sem notaður yrði í næstu mynd. En hvernig er hægt að skera kostnaðinn niður um 90%?
Það þarf að byrja á handritinu. Engar hópsenur, engar risastórar leikmyndir sem þarf að byggja. Ekki mikið um sprengingar og klessta bíla. Handritið myndi byggja á sögum af fólki, yfirleitt í nútímanum. Ég hef ekki séð Blóðbönd, en sú saga er um mann sem kemst að því að tíu ára sonurinn er ekki hans. Myndin fylgir svo fjölskyldunni gegn um það erfiða tímabil sem kemur í kjölfarið. Ég veit ekki hvað hún kostaði, en svona mynd er hægt að gera fyrir lítið. Fólk hefur áhuga á fólki, svo það er endalaust hægt að finna leiðir til að gera einfaldar, en spennandi myndir. Með stafrænni tækni er hægt að spara milljónir við hverja mynd. Filmukostnaður er strokaður út og hægt er að klippa myndina á góðri ferðatölvu.
Eitt vandamálið við gerð ódýrra mynda er að Kvikmyndamiðstöðin veitir ekki styrki til kvikmynda sem kosta innan við 50 milljónir. Það þarf sjóð sem styrkir myndir sem kosta minna. Án þess munum við halda áfram að gera dýrar myndir sem geta engan vegin staðið undir sér. Eru það ekki leifar töffaraskapsins sem kom okkur í vandræði í fyrra? Við viljum vera stærri, flottari og betri en við erum?
Sumir eru kannski hræddir um að með lægri framleiðslukostnaði muni markaðurinn fyllast af lélegum myndum, en ég efast um það. Framleiðandi mun, eftir sem áður, vilja ná inn hagnaði og mun varla fara út í gerð lélegrar myndar. Kvikmyndagerðarmenn vilja fá tækifæri til að gera mynd eftir þessa. Slæm mynd mun sjálfsagt skila tapi og fólk mun síður fara að sjá aðrar myndir framleiðandans og leikstjórans. Íslendingar gefa út hundruð bóka á ári. Eru kvikmyndir eitthvað öðru vísi?
![]() |
Þegar kvikmyndir fara í þrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |