31.3.2008 | 08:58
Til Íslands? Knopfler líka.
Þeir hafa aldrei komið til Íslands. Er ekki kominn tími á það?
Annars fór ég að sjá Mark Knopfler í Heineken Music Hall í gær. Hann var frábær, eins og búast mátti við. Lagavalið var flott, fannst mér. Hann var ekkert að ofgera Dire Straits efninu, en þar sem sólóplöturnar eru ekkert síðri, jafnvel betri, var það ekkert vandamál. Þetta byrjaði með 6-7 lögum af síðustu fjóru plötunum, svo kom Romeo and Juliet. Þá fóru þeir í jassaða pöbbastemningu. Undir lokin fékk sauðsvartur almúginn sem hefur ekki verið að taka eftir síðustu árin það sem þau vildu. Telegraph Road, Brothers in Arms, So Far Away og fleiri klassíkera. Hann slúttaðu þessu með Local Hero.
Spilamennskan var auðvitað fyrsta flokks, enda valinn maður í hverju horni. Hann gerði reyndar lítið úr sjálfum sér því hann er sá eini sem spilar bara á eitt hljóðfæri. Það gerir svo sem ekkert til því hann hefur þokkaleg tök á því.
Ég fór baksviðs eftir hljómleikana og hitti Guy Fletcher, höfund tónlistarinnar í Svörtum Sandi. Við sátum og ræddum málin í klukkutíma. Ég vissi að þetta var öðlingur, en bjóst ekki við að vera tekið eins vel og raunin var. Trommarinn, Danny Cummings, lét sjá sig og dældi gin og tónik í þá og bjór í mig. Hann er stórskemmtilegur náungi. Þegar hann spurði Miriam, konuna mína, hvað hún ynni við svaraði hún, I'm in fashion. Hann svaraði um hæl, ah, oh well, I'm out of fashion, but then your're young. Hún sagði, I've been doing it for 12 years. Oh? You started when you were 2? You are 14, right? Hinir komu svo undir lokin og það er ekki spurning að þetta eru ekki bara frábærir tónlistarmenn, þetta er stórskemmtilegt fólk sem gaman er að vera með. Ég hefði alveg örugglega getað farið með þeim á rúntinn um Amsterdam um nóttina, en ég þurfti að fara heim og passa barnið. Ég náði þó að taka í höndina á meistaranum sjálfum og þakka fyrir mig. Við það tækifæri fékk ég að heyra að hann var heillaður af tónlistinni sem Guy samdi fyrir mig. Þeir voru eitthvað að tala um að kíkja á hana við tækifæri. Guy er með disk, hann sér um það.
Eitt af því sem við ræddum um voru tónleikar á Íslandi. Þegar við minntumst á þetta sagði Cummings, já en það búa bara 30 manns á Íslandi. Ég svaraði að þeir fengju alveg örugglega 29 af þeim til að mæta. Við ræddum þetta þó í alvöru og þeir voru til í að skoða málið, sérstaklega eftir að þeir fréttu að listamenn á þeirra kaliber væru að koma. Þegar ég sagði þeim að Dylan væri að koma í sumar vildu þeir heyra meira.
Ef einhver hljómsveitainnflytjandi les þetta, endilega hafðu samband. Hver veit, kannski kemur Mark Knopfler til Íslands? Ekkert af því að bæta einum hljómleikum við þetta 95 daga ferðalag?
![]() |
Stones-banni aflétt í Blackpool |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)