1.12.2008 | 09:34
Fullveldi áfram!
Claus hefur lög að mæla. Við höfum verið ansi upptekin við að stara á vandann, enda skyggir hann á allt annað. Það er erfitt að sjá lausnir þegar maður er í miðri hringiðunni. Þegar maður er villtur er gott að skoða kort svo maður fái yfirsýn yfir landið. Auðvitað kemur bankahrunið hvorki með korti né leiðbeiningum, en þá er gott að hafa fólk sem sér vandann utan frá og getur bent á hvar við getum byrjað að byggja upp.
Fullveldi Íslands er 90 ára í dag. Til hamingju! Þegar litið er til baka má segja að þessi 90 ár hafi verið bölvað basl. Frostaveturinn, spænska veikin, kreppan. Svo kom stríðið og við komumst inn í nútímann, en þó máttu margir sætta sig við að búa í hriplekum og óþéttum bröggum fram undir 1970. Við vöndumst óðaverðbólgu, hruni fiskistofna, höftum og einangrun. Það er í raun ekki nema á síðasta áratug eða svo sem við höfum haft það þokkalegt.
En nú er ég að lýsa fréttum á fullveldistímanum. Fréttir hljóma alltaf verr en raunveruleikinn, enda eru hamfarir, morð og spilling meira spennandi en daglegt líf. Það er varla til sú kvikmynd þar sem einhver er ekki drepinn, því það er það sem við viljum sjá. Ekki upplifa beint, heldur í bíó og sjónvarpi.
Flestir sem ég þekki hafa haft það ágætt gegn um tíðina, þrátt fyrir óðaverðbólgu og innflutningshöft. Reyndar er ég viss um að hamingja þjóðarinnar hafi ekki aukist þegar peningarnir fóru að streyma inn í landið á síðustu árum. Með velsæld missum við þörfina á að standa saman, við missum það sem tengir okkur saman sem eina þjóð.
Claus talar um að forsenda uppbyggingar sé að hafa sterkan leiðtoga sem við getum þjappað okkur á bak við. Þann leiðtoga munum við ekki fá í bráð, því stjórnin mun sitja sem fastast. Kannski er það ekki alslæmt, því kosningar of snemma myndu kalla á ringulreið. Flokkar yrðu kosnir, ekki vegna hæfni og getu, heldur vegna reiði á öðrum. Sagan hefur margsýnt að reið þjóð getur ekki kosið vel. Ég vil bjóða Claus velkominn til landsins, vonandi það að ríkisstjórnin bjóði honum heim. Fáum allt upp á borðið svo við getum valið rétt í vor eða sumar. Þangað til þjöppum við okkur saman sem þjóð. Við þurfum ekki leiðtoga. Við höfum okkur sjálf og landið okkar.
Til hamingju með 90 ára fullveldi. Sjáum til þess að við höldum því um ókomna tíð.
![]() |
Íslendingar einblína á vandann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.12.2008 | 00:32
mínSýn
Ég hef aldrei skilið af hverju sjónvapsefni og kvikmyndir þurfi að kosta svona mikið. Launaliðurinn er dýrastur, eins og sést á fréttinni. Hér á eftir kemur smá smtterí sem ég setti inn sem athugasemd hjá Ómari, þýtt og staðfært fyrir þessa síðu. Ekki endilega um Pál, heldur bara smá pælingar um RÚV.
Hefur einhvern tíma verið áhersla RÚV að sýna íslenskt efni af einhverju ráði? Dýr innanhúss framleiðsla ekki svo mikilvæg. Nóg er til að sjálfstæðu efni á Íslandi. Hvað eru framleiddar margar boðlegar stuttmyndir á íslandi ár hvert og hversu margar eru sýndar á RÚV?
Hafa allar betri sjálfstæðar heimildamyndir verið sýndar á RÚV? Væri gaman að heyra hvað Hjálmtýr hjá Seylunni segði um það.
Á Íslandi er starfandi kvikmyndaskóli. Það þarf enginn að segja mér að útskrifaðir nemendur séu allir starfandi hjá stærri fyrirtækjum. Þeir eru að framleiða eigið efni sem aldrei er sýnt, nema kannski á örfáum kvikmyndahátíðum erlendis.
Ég hef nokkrum sinnum skrifað um sjö milljón króna hugmynd mína. Ég taldi mig geta framleitt kvikmynd í fullri lengd fyrir þann pening og færði rök fyrir því. Málið er að efni þarf ekki að vera dýrt í framleiðslu. Það er voðalega gott og gaman að hafa ljósabíl sem lýsir upp risastóru leikmyndina svo að 35mm filmurnar fái nóg ljós, en það er hægt að gera hlutina öðruvísi. Ef David Lynch getur tekið upp kvikmyndina Inland Empire á Sony PD-150 (3CCD miniDV vél), og Danny Boyle 28 Days Later á Canon XL-1s (líka 3CCD miniDV), þurfum við ekki að vera að flottræflast með allt það dýrasta og fínasta. Ég á betri vél en þessar, sem tekur upp í HD og tölvu sem klippir það án þess að hiksta, svo ekki getur vélbúnaðurinn verið dýr.
Tæknin sem notuð er við tökur skiptir minnstu máli. Það er sagan og leikurinn sem skilur á milli góðra og lélegra mynda.
RÚV á að vera sjónvarp (og útvarp) allra landsmanna og leggja áherslu á íslenskt efni, enda er það nær okkur, sennilega ódýrara og fjárfesting í menningu og framtíð þjóðarinnari.
Ég skal taka við starfi útvarpsstjóra, skaffa minn eigin bíl og "sætta ming við" 700.000 á mánuði. Þannig sparast tæpar 14 milljónir á ári. Ég mun efla fréttadeildina og gera hana óháða og stórauka íslenskt efni í dagskránni. Ég hef það á tilfinningunni að Ómar yrði endurráðinn ef hann hefði áhuga.
Áhugasamir sendi samning til undirritunar á veffang vinstra megin á síðunni.
PS. Til Hamingju Ísland með 90 ár fullveldis!
![]() |
Árslaun útvarpsstjóra 18 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)