Árni, ekki gugna...

Það er búið að setja þjóðina á hausinn. Eftir langvarandi aðgerðaleysi var farið svo rosalega af stað að allt fellur um sjálft sig. Við, sótsvarti almúginn, vitum ekki meira en það sem sagt er í fréttum. Við vitum ekki hvað er verið að refsa okkur fyrir.

Það sem öllu skiptir þessa dagana er traust. Við verðum að geta treyst því að stjórnmálamenn og aðrir sem koma að þessu máli séu að vinna með okkar hag í huga. Undir venjulegum kringumstæðum ljúga þingmenn, þeir segja hálfan sannleikann og "tjá sig ekki um málið". Sá tími er liðinn. Við eigum rétt á að vita hvað fór fjármálaráðherrunum í milli. Þetta eru okkar krónur sem eru að brenna upp. Þetta er landið okkar sem verður sett up í fallna víxla bankamanna. Eigi að koma okkur öllum á hausinn, eigum við að minnsta kosti rétt á að vita hvernig stóð á því.

Hafi Árni talað af sér, sagt einhverja vitleysu, vil ég vita það. Ég mun dæma hann vægar fyrir mistök en yfirhylmingu. 

Þeir sem gera ekki hreint fyrir sínum dyrum geta gleymt því að ná endurkjöri. Ég trui ekki öðru.


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Láttu þér batna...

Það er eins og allt komi í hausinn á íslendingum þessa dagana. Ingibjörg Sólrún í aðgerð, ríkið á hausnum, allir bankarnir sokknir, við í milliríkjadeilum og nú þetta. Eins og þeir segja í útlandinu, it never rains, it pours. Fyrir þá sem eru ekki svellkaldir í enskunni, það rignir ekki, það er úrhelli.

Ég óska Ólafi Ragnari skjótum og fullum bata og vona að hann komist sem fyrst til starfa. Megi Ísland líka ná að koma sér á lappirnar áður en skaðinn verður varanlegur.


mbl.is Forseti Íslands á sjúkrahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerum árás á Gordon Brown

Landsbankinn fór í þrot. Bömmer, en svona er það. Kaupþing var snúið niður án þess að ástæða væri til. Eru bretar ekki bara farnir í stríð við Ísland? Þegar maður spáir í heift bretanna verður maður gráti næst. Gordon Brown er leiðinlegur og því óvinsæll. Hann sér sér leik á borði og hughreystir þjóðina. Ég, GB mun sjá til þess að þig fáið ykkar peninga aftur. Ég vil ykkur vel. Ég er góður. Kjósið mig næst.

Knésetning Kaupþings voru mistök. Nú geta bankamenn sest inn í sjónvarpssal hjá BBC os skýrt út fyrir bresku þjóðinni að forsætisráðherrann hafi verið að búa til óþarfa vandamál. Hann sé að dýpka kreppuna til að bjarga starfinu sínu. Það er auðvitað hámark sjálfselskunnar og jaðrar sjálfsagt við landráð. Þeir geta tekið hann pólitískt af lífi í beinni útsendingu ef þeir halda vel á spilunum?

Hryðjuverk? Elskan, við erum rétt að byrja. 


mbl.is Hryðjuverkalög gegn Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauða Pillan

Á undanförnum árum hef ég lesið eitthvað af samsæriskenningum. Þær eru yfirleitt skemmtilegar pælingar um það hvað valdafólk er að spá og hvernig við erum að þokast í áttina að alheimsstjórn og einhvers konar fasisma. Eins og ég segi, skemmtilegar pælingar, en svolítið út úr kortinu.

Eða hvað? Kreppan sem er að skella á okkur af fullum þunga á upptök sín í Bandaríkjunum, eins og þær flestar. Það má skrifa bók um það hvernig einkabankinn Federal Reserve hefur lagt grunninn að því sem nú er að gerast, en aðrir eru betri í því. Ég held mig við Ísland.

Seðlabanki Íslands hélt úti hávaxtastefnu sem gat ekki gengið til lengdar. Meira að segja ég sá það og ekki er ég hagfræðingur. Þegar spilaborgin fór að riða til falls í mars, gerðist ekkert. Það var ekki þörf á að ríkið skoðaði málin. Sumir segja að Geir og félagar hafi verið að vinna bak við tjöldin, en við þurfum að vita hvað er að gerast. Kreppur eru að stórum hluta það að fólk trúir ekki á markaðinn. Stjórnin hefði allavega getað stappað stálinu í okkur. Ekki sagt að engin þörf væri á aðgerðum þegar hvert mannsbarn sá að það var rugl. Þegar Glitnir var ríkisvæddur fór skriðan virkilega af stað. Sáu seðlabankastjórar það ekki fyrir? Hafði ríkisstjórnin ekkert að segja? Var þetta ákvörðun eins manns eða ekki?

Á mánudag var það augljóst að Landsbankinn væri næstur. Neyðarlögin voru afgreidd svo hratt að það gat ekkert annað verið í spilunum. Svona eru þessir menn orðnir gegnsæjir.

Davíð Oddsson gerði mistök á mistök ofan og toppaði sjálfan sig með yfirlýsingagleði í Kastljósi. Geir segir aldrei neitt, en fyrr má nú rota en dauðrota, Davíð. Að segja það kalt að bretar fái ekki krónu var auðvitað til að skvetta olíu á þennan eld sem hann á að vera að reyna að slökkva. Hann fékk Gordon Brown upp á móti sér og afleiðingarnar eru það sem gerðist í nótt. Kaupþing er hrunið. Hér í Hollandi er talað um lítið annað en Icesave. Það er allt í einu svolítið vandræðalegt að vera íslendingur erlendis. Davíð, hvað á ég að segja þeim?

En um samsæriskenningarnar. Sumir þekkja Bilderburgerhópinn. Þetta er hópur auðmanna og stjórnmálamanna sem hittist árlega til að ræða stefnu komandi árs. Davíð og Björn Bjarna eru meðlimir. Gordon Brown er það líka. Þetta eru vinir, sjálfsagt drykkjufélagar. Ég er ekki að saka neinn um fyllerí, bara svona kokkteilboð.

Hvernig má það vera að menn sem hafa talist góðir kunningjar og eru í sama einkasaumaklúbbi láti svona hluti gerast? Er þetta allt ákveðið fyrirfram? Átti Ísland að hrynja? Annað hvort er það málið, eða að allir sem koma að stjórnsýslunni heima eru að klúðra máli sem sennilega hefði mátt leysa mikið fyrr og á mikið sársaukaminni hátt.

Eru þessir menn að gera mistök á mistök ofan og þannig vanhæfir, eða eru þeir að framselja íslensku þjóðina, sem gerir þá að landráðamönnum?

Er ekki kominn tími til að menn komi fram og geri hreint fyrir sínum dyrum? Það er allavega kominn tími til að þjóðin gleypi rauðu pilluna og skoði málið frá öllum sjónarhornum, hversu langsótt sem þau kunna að sýnast. Við höfum ekki efni á að útiloka neitt.


mbl.is FME yfirtekur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband