15.12.2007 | 16:18
Tvær vikur á netinu
Stuttmyndin Svartur Sandur hefur nú verið tvær vikur á netinu. Eins og lesendur fyrri færsla vita var þetta tilraun til að sjá hvort það væri hægt að setja efni á netið og biðja fólk fallega um að greiða fyrir.
Við lifum í heimi kaupsýslu þar sem ekkert fæst fyrir ekkert og allt er til sölu. Þegar viss hagsmunasamtök lokuðu á vissa heimasíðu sem miðlaði skemmtiefni og forritum reis fólk upp og hrópaði óréttlæti. Það myndi greiða fyrir ef verðið væri ekki svona hátt og benti á, með réttu, að 2000 kr. og meira er ansi mikið fyrir kvikmynd á DVD diski.
Svartur Sandur hefur verið sóttur 799 sinnum síðan hann var settur á netið, 1. desember. Þetta er fínn árangur og meira en ég bjóst við. Mest var um niðurhal fyrstu dagana. Þess má geta að talan var 797 í gær, svo fokviðrið er farið hjá. Það má segja að myndin hafi fengið mikla dreifingu miðað við að flestir sem að henni komu eru óþekkt nöfn. Hins vegar er auðvelt að gera sér upp vinsældir þegar ekki þarf að greiða fyrir.
Af þessum 799 hafa tíu greitt fyrir myndina. Samkvæmt könnun hér til hliðar hefðu fleiri gert það ef birt hefði verið íslenskt bankareikningsnúmer. Ég er að reyna, en það er erfitt þar sem ég er í Hollandi. Getur einhver sagt mér hvað það kostað að millifæra til Hollands? Kannski að það sé lausnin.
Tíu greiðslur erum 1.2% sækjenda. Ef ég margfalda dæmið með fimm, samanber könnunina, yrðu það fimmtíu greiðslur fyrir 799 niðurhöl, um 6%. Gott eða slæmt? Dæmi hver sem vill.
Smá reikningsdæmi. Myndin kostaði um 350.000 kr. Sé þeirri upphæð skipt milli 799 manns, er útkoman 438 krónur. Það þarf ekki mikla kynningu til að koma niðurhölum í 3500. Þá þyrfti hver að greiða 100 krónur til að myndin stæði undir sér.
Ég er óendanlega þakklátur öllum þeim sem hafa, og munu, leggja eitthvað til hliðar fyrir myndina. Þó er ég ekki viss um að þetta sé dreifingaraðferð framtíðarinnar. Er ekki iTunes dæmið það sniðugasta? Borga 200 kall og þú færð þáttinn eða stuttmyndina. Fá marga til að borga lítið? Þannig munar fólki ekki um greiðsluna, margir sjá myndina og hægt er að fjárfesta í næstu mynd.
Tvær vikur eru stuttur tími, jólaönnin og útlát að drekkja fólki, svo kannski er ekki alveg að marka dæmið enn sem komið er. Við sjáum til.