Íslenskar Stuttmyndir

Það vita sennilega flestir lesendur bloggsins að ég er að vinna við að gera stuttmynd. Eftirvinnsla er í fullum gangi og þetta lítur vel út. Það er því augljóst að ég hef áhuga á stuttmyndum. Það vita færri að ég lærði fjölmiðlun á árum áður og sú veira verður seint drepin. Bætum svo við að RÚV er að fara að setja mikið meiri pening í kaup á íslensku efni, og við gætum farið að sjá markað fyrir íslenskar stuttmyndir. Því var mér að detta svolítið í hug.

Erum við að fara að upplifa annað íslenskt kvikmyndavor? Kannski meira tengt sjónvarpsefni? Það er fullt af þekkingu á Íslandi. Margir sem vilja búa til kvikmyndir, en einhvers staðar þarf að byrja. Er ekki um að gera að gefa íslenskum stuttmyndum þá athygli sem þeim ber?

íslensk vefsíða sem fjallar um íslenskar stuttmyndir á að vera til.  Einn staður þar sem fólk getur komið og lesið um myndir, leikara, leikstjóra, hvað er á döfinni, hvað er hægt að sjá og hvar. Það væri jafnvel hægt að horfa á myndir á síðunni, allavega kynningarmyndir svo að fólk geti ákveðið hvað það vill sjá. Þetta getur svo undið upp á sig og orðið DVD útgáfa, þar sem samansafn bestu íslensku stuttmyndanna er hægt að kaupa.

Annað sem ég myndi vilja gera er að gefa út einhverskonar tímarit, sennilega á þriggja mánaða fresti, þar sem talað er við fólk og sagt frá því helsta sem er í gangi. Þetta yrði sennilega gefið út sem PDF skrá sem hægt væri að sækja og prenta út ef fólk vill.

businesscardbackÞetta eru stórar hugmyndir og munu kosta mig mikinn tíma, en ef áhugi er fyrir hendi getur þetta orðið mjög skemmtilegt og þess virði. Það veltur allt á því hvað maður hefur úr miklu efni að moða. Ég vil því biðja fólk að hafa samband ef það hefur eitthvað að segja. Einnig væri það vel þegið ef þú, lesandi góður, segðir vinum og kunningjum sem eru í kvikmyndahugleiðingum frá þessari hugmynd.

Ég er búinn að skrá netfang fyrir þessa síðu, Stuttmyndir.com, svo nú er bara að koma dæminu af stað. 


Bloggfærslur 5. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband