Færsluflokkur: Sjónvarp

Tungumál Myndarinnar? Skoðanakönnun!

Undirbúningur stuttmyndarinnar er kominn vel á veg. Þetta virðist allt líta vel út. Samt er ein efasemd að naga í mig. Ég samdi handritið á ensku. Þetta var engin spurning, ég er erlendis og mun markaðssetja myndina í Evrópu. Enska var því sjálfgefin. Ég valdi leikara sem menntaðir eru erlendis og reyndi að gera söguna eins hlutlausa og hægt er, hún ætti að geta gerst hvar sem er.

Svo var farið að hræra í hausnum á mér. Ég var að tala við hollenska konu um daginn og hún spurði af hverju ég tæki þetta ekki upp á íslensku. Þetta var svo furðuleg spurning, fannst mér, að ég spurði hvers vegna ég ætti að gera það. Henni fannst að myndin yrði meira spennandi, hún ætti meiri möguleika á að verða "cult" mynd á "útlendu" tungumáli. Svo sagði hún að hversu góð sem enskukunnátta leikaranna væri, yrði leikurinn sennilega betri og meira sannfærandi á móðurmálinu.

Rökin fyrir enskunni eru að það skilja hana flestir og mikið stærri hópur ætti að geta lifað sig inn í myndina.  Markaðssetning ætti að vera auðveldari, þó að markaður fyrir stuttmyndir sé að vísu mjög takmarkaður.

Ég er sem sagt alls ekki viss um hvað skal gera. Ég get snarað handritinu yfir á íslensku og notað það sem þegar er skrifað sem texta, en ég get líka bara haldið minu striki og gert enskumælandi mynd.

Það væri gaman að sjá hvað fólki finnst, svo endilega takið þátt í skoðanakönnuninni hér til vinstri. Kannski að það hjálpi til... 


Kvik3: Leikkona óskast!

Stuttmyndin er að koma til, handritið nokkurn vegin þar sem það á að vera og mannskapur mikið til ráðinn. Þó vantar í einhverjar stöður ennþá, þar á meðal er aðalleikkonan ófundin. Ég veit auðvitað ekki hvort upprennandi og áhugaleikkonur séu mikið að lesa moggabloggið en ef svo er, hér er atvinnuauglýsing.

Hlutverkið sem um ræðir er svohljóðandi:  Leikkonan skal vera um eða yfir tvítugt eða líta út fyrir að vera það. Helst skal hún hafa dökkt sítt (a.m.k. axlarsítt hár. Þar sem myndin gerist að hluta til fyrr á öldum þegar fólk hafði minna að éta er æskilegt að hún sé grannvaxin. Myndin verður tekin upp á ensku og er því mikilvægt að viðkomandi hafi góð tök á henni.

Myndin verður tekin upp seint í ágúst í Reykjavík og á Suðurlandinu.

Áhugasamar vinsamlega hafið samband. Öðrum sem vit og áhuga hafa á kvikmyndagerð er velkomið að vera í sambandi líka:

 


Aðfaraflokkurinn

Það má vera að maður sé orðinn of seinn að ná sér í vinnu eftir þessar kosningar, en það eru aðrar eftir ár og þar eru sennilega betri störf í boði. Ég hef því ákveðið að stofna flokk. Eftir mikil heilabrot datt ég niður á nafnið Aðfaraflokkurinn. Nafnið er byrjun og nú skal velta fyrir sér hvaða málefni maður hefur áhuga á og hver afstaða manns er.

Eins og alþjóð veit hef ég verið búsettur erlendir um árabil. Það liggur því ljóst fyrir að ég á erindi á Alþingi því glöggt er gests augað. Einnig er ég að komast á þann aldur að ég líti trúverðuglega út í jakkafötum, nú og svo það að aðra vinnu er ekki að fá á þessum aldri. Ég virðist ekki vera að missa hárið og fitan er ekkert of áberandi ef fötin eru vel hönnuð. Þetta kemur sér allt vel í kosningabaráttunni þegar maður þarf að sjarmera sjónvarpsáhorfendur.

Ég tel sjálfan mig nokkuð skemmtilegan en á það til að láta ekki á því bera á almannafæri. Ég er vel lesinn, veit töluvert mikið og get sennilega staðið mig þokkalega í kappræðum svo lengi sem mótmælandinn fer ekki of mikið í taugarnar á mér. Þá á ég til með að móðga og blóta. Þetta gerist þó ekki mjög oft svo ég sé þetta ekki sem neitt sérstakt vandamál.

Það held ég. Við erum komin með flokk og formann. Nú er bara að búa til stefnumál. Ég trúi á lýðræði og bið ég lesendur því að koma með uppástungur. Ég vil líka taka það fram á ég á afmæli í dag og þætti mér það leiðinlegt með eindæmum ef engin svör fengjust.


Kvikmyndagerð II - Frumsýning og undirbúningur

Þetta var góður dagur. Fór í heimsókn til kunningja míns að sjá heimildamyndina hans frumsýnda í sjónvarpi. Ég var búinn að sjá hana á sérstöku "screener" kvöldi þar sem ég hjálpaði aðeins til við gerð hennar. Við sátum þarna fjórir og horfðum á þetta. Gaman að sjá eigin verk sent út en maður finnur alltaf smá fiðring af og til. Þetta hefði mátt vera betra. Hljóðið þarna var ekki nógu gott. Innstungan á veggnum bak við viðmælandann er bjánaleg. Þetta eru þó sennilega hlutir sem aðrir sjá ekki.

Svo var rætt umframtíðina. Við verðum að vinna meira saman, setja kannski upp einhverskonar "collective". Það er alltaf gott að deila hugmyndum. Svo á einn góða kvikmyndatökuvél, annar góðar klippigræjur, einn semur tónlist og allt það.

Annars er stuttmyndin það sem ég er mest að hugsa um þessa dagana. Tökur fara fram eftir þrjá manuði og ég þarf að finna aðalleikkonu. Þetta reddast allt saman. Nóg af valkostum ef ég bara byrja að leita. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband