Færsluflokkur: Sjónvarp

Sagan um Myndina - fyrsti bútur

Tökur eru hafnar. Myndin er farin af stað. Þetta er mikil vinna og mikið að gera en þetta er rosalega gaman. Það get ég þakkað fólkinu sem er að gera þetta með mér.

Ég kom til landsins fyrir rúmri viku og hitti hópinn. Ég efast um að ég hefði fengið betra fólk til að vinna með þó ég hefði haft fjárlög á við Dirty Harry himself.

Við vorum með æfingar á föstudag og ég vissi strax að ég var heppinn með hópinn. Anna Brynja og Jóel lifðu sig inn í hlutverkin og það var ekki hægt að heyra að þau voru að fara með línur sem höfðu verið skrifaðar einhverjum mánuðum fyrr. Kiddi var líka með tæknimálin á hreinu og það léttir mitt verk mikið. Ég vil þakka Erlingi Gíslasyni og Brynju konu hans fyrir aðstöðuna.

Tökur hófust á laugardag við Eiríksstaði í Haukadal. Eiríkur Rauði byggði bæinn upphaflega en hann var endurbyggður á aldamótaárinu 2000. Hann er mjög vel gerður og kemur mjög vel út á mynd. Það eina sem ég sé eftir er að lyktin í bænum kemst ekki til skila til áhorfenda.

Laugardagurinn var flóknasti dagurinn að mörgu leyti. Anna Brynja og Jóel þurftu að vera ung og gömul. Það fór því mikill tími í förðun, en Sonja sannaði að hún getur gert kraftaverk. Við vorum líka með tvo aukaleikara, Oddný sem lék ömmuna og Kristín Viðja var yngri útgáfa af Önnu Brynju. Þær stóðu sig báðar frábærlega. Hver veit, kannski sjáum við meira af Viðju. Hæfileikarnir eru fyrir hendi. Kiddi var ómissandi, eins og ég hafði búist við. Ef hann var ekki að aðstoða við tökur, var hann hlaupandi um allt takandi myndir. Þetta var líka löng keyrsla. Þetta var því langur og erfiður dagur en það var ekki að sjá á fólkinu. Ég veit að þessi hópur á eftir að skila af sér góðri mynd. 

Meira seinna... þetta er bara rétt farið af stað.


Að smíða kvikmynd

Þá er komið að því. Síðasti dagurinn í vinnunni í dag og flugið í fyrramálið. Ferðin byrjar með langþráðum endurfundum en vinnan byrjar fljótlega eftir það.

Ég var að klára að setja saman endanlegt plan fyrir tökur. Fundir með leikurum og tökuliði strax eftir helgi og svo hefjast tökur fyrir næstu helgi. Síðustu atriðin verða svo tekin upp þriðjudaginn 22 ágúst. Þetta eru sem sagt um tvær vikur sem fara í þetta. Þess á milli get ég bara verið í mínu eigin landi innan um fjölskylduna.

Hugmyndin er að blogga eitthvað hérna á komandi vikum, en ég hef sennilega minni tíma til þess en hingað til. Það væri þó gaman að koma einhverjum myndum og sögum á netið. Spurning með að uppfæra heimasíðuna líka. Kominn tími á það. Kannski ég vinni í því í flugvélinni á morgun.

Að gera kvikmynd er mikið verk og það getur svo margt farið úrskeiðis. Þá á ég ekki bara við fótbrot og aðra hluti sem koma í veg fyrir að verkið verði klárað, heldur litla hluti sem gera myndina ekki eins góða og ætlunin var. Þetta var vandamálið í fyrra. Ég skrifaði handrit og leikstýrði mynd, The Small Hours. Sagan var ekki svo slæm, en það var enginn tími til neins. Ég gubbaði út handritinu, sem var svo endalaust í vinnslu, þar á meðal eftir að tökur hófust. Þær hófust reyndar um viku eftir að ég gubbaði upp hugmyndinni. Það var því enginn tími til að gera neitt, plana neitt. Myndin var gerð og margir segja að hún sé góð, en ég var aldrei sáttur. Sagan eins og ég sá hana komst ekki nógu vel til skila og leikurinn rétt náði að vera þokkalegur. Þetta var auðvitað allt mitt, allir sem að myndinni komu stóðu sig sem hetjur. Það var bara enginn tími til að vanda til verks.

Það verður svo sannarlega annað uppá peningnum í þetta skiptið. Við tökum okkur nægan tíma í að ná hverju atriði eins og það á að vera. Ég hef valið leikara með reynslu og tökustaði sem krydda söguna. Þar fyrir utan hefur þessi saga verið skrifuð, endurskrifuð, legið í tunnu og svo tekin upp aftur, yfirfarin og endurskrifuð aftur. Ég hef sem sagt gert allt sem ég get til að þessi mynd heppnist sem best. Nú er bara að nota tökudagana og gera sitt allra besta og vona að svona óvenjuleg saga höfði til einhverra.

Allavega, hlakka til að komast heim. Meira seinna.


Carnivale

Ég var að klára að horfa á Carnivale. Þetta eru þættir sem gerast 1934 í sandfoki suðvestur hluta Bandaríkjanna.

Ég ætla nú ekki að segja neitt mikið um þessa þætti, nema að þeir eru ótrúlega góðir. Þeir sem hafa gaman af David Lynch finna sig í þessu. Söguþráðurinn er sterkur, það er ekkert verið að flýta sér allt of mikið, heldur er séð til þess að maður njóti hvers atriðis til hins ýtrasta.

Það er líka skondið að hafi maður ekki lesið sér til um þættina fyrir fram, hefur maður ekki hugmynd um hvað er í gangi. Það skýrist allt, en það er skemmtilegt að vera jafn glórulaus og persónurnar.

Allavega, ég mæli með þessum þáttum, 110%. 


Búningar og skotlistar

Það var mikið að gera um helgina. Mér líður eins og ég sé að gera stórmynd. Ég hef verið að búa til shotlist undanfarið, þá er hvert einasta atriði skorið niður í smá búta. Hver klipping er plönuð áður en nokkuð er tekið upp. Það heftir klipparann kannski en ég veit af fyrri reynslu að maður verður að vita hvað á að gera þegar komið er á vettvang. Það þýðir ekki að mæta á staðinn, skoða sig um og segja "ókei, hvernig gerum við þetta?". Ég hef verið viðriðinn svoleiðis framleiðslu og veit að það gengur ekki nema maður hafi yfirdrifið mikinn tíma. Ég man eftir rökræðum, hálftímar og klukkutímar liðu án þess að nokkuð væri tekið upp. Ég er sem sagt að plana hvert einasta myndskeið (hvað heiti shot á íslensku?).

Svo eru það búningarnir. Myndin flakkar um aldirnar og það þarf búning fyrir hvert tímabil. Þar efr smá vandamál í gangi. Á Íslandi er ég ekki í neinum samböndum og þekki engan sem eitthvað hefur með búning að gera. Í Hollandi get ég reddað ýmsu, en eru þetta þá réttu búningarnir? Hollensk hönnun og tíska var alltaf öðruvísi en íslensk. Mér finnst að fyrst maður er að gera íslenska mynd úr þessu er eins gott að fara alla leið og nota íslenskan klæðnað. Ef einhver veit hvert ég get snúið mér, vinsamlegast skiljið eftir athugasemd.

Íslensk mynd, það er ekkert nýtt? Átti þetta ekki alltaf að vera íslenskt? Nei, ég ætlaði alltaf að taka hana upp á Íslandi vegna þess að landslagið passar við söguna. Svo er hún lauslega byggð á atburðum sem gerðust á Íslandi. Restin hafði ekkert með Ísland að gera. Hún yrði á ensku og gerð fyrir erlendan markað. Nú lítur út fyrir að hún verði á íslensku, svo til allir sem koma að henni eru íslendingar. Ég mun samt sem áður reyna við erlendan markað þar sem ég hef lesið mikið að hryllingssögum um áhugaleysi íslenskra miðla á stuttmyndum. Við sjáum til.

Þetta var sem sagt mikilvæg helgi fyrir myndina. Kannski eins gott, því ég verð á landinu eftir örfáar vikur og það er enn nóg undirbúningsvinna eftir. Nú þarf ég hins vegar að hætta að skrifa því að hin vinnan bíður. Best að fara að þykjast fíla IBM tölvur, fyrir það ég fæ víst greitt.  


Kvikmyndahandrit

Ég hef skrifað voðalega lítið um myndina, ástæðuna fyrir því að ég byrjaði að blogga. Hér er ein kvikmyndafærsla til að bæta það upp.

Var að klára að útkrota handritið sem þýðir að ég þarf að pikka það upp á nýtt. Slatti af breytingum. Þetta var eitthvað sem þurfti að gerast, allavega eitthvað sem myndi gerast. Það er nebblega þannig að það er aldrei nein leið að hætta að vinna í verkefni. Allavega var það svoleiðis í fyrra þegar ég skrifaði The Small Hours. Ég kom með nýjustu útgáfuna af handritinu þegar tökur hófust og við vorum enn að breyta handritinu þegar tökur voru hálfnaðar. Það verður ekki svoleiðis í þetta skiptið. Onei, handritið verður tilbúið löngu áður en tökur hefjast. Annars virkar þetta bara svona. Á meðan tími er til stefnu en engin leið að hætta að breyta (og vonandi bæta).

Þetta eru allt litlir hlutir sem ég er að breyta núna, taka einhverjar setningar út og setja svipbrigði inn í staðinn, setja inn sjónarhorn til að aðstoða kvikmyndatökumanninn (muna að finna betra orð yfir kvikmyndatökumann) og svoleiðis smáatriði. Veit ekki hvort ég geti búið til "storyboard" þar sem ég er afleitur teiknari en ég er að búa til góðan "shotlist". Svo er verið að spá í lúkk, hvernig á myndin að lít út? Á 19. öldin að líta öðruvísi út en nútíminn? Sennilega... er að hugsa málið. Er að leika mér með hugmyndir...

Búningar. Þarf að fara að skoða það dæmi með öll þessi atriði aftur í aldir. Þarf að tala við vegagerðina, redda hóteli...

...meira seinna.


Hver drap rafbílinn?

Fyrst maður er á svona eco-trippi...

Who Killed The Electric Car? 


Colbert - valdamesti maður heims?

Ég hef gaman af því að horfa á The Daily Show þegar ég er í Bandaríkjunum. Fastur þáttur er The Colbert Report, fréttaskýringar sem líta út fyrir að vera alvara en er hárbeitt grín.

Það má segja að Stephen Colbert hafi náð hátindi ferils síns í lok apríl þegar honum var boðið að tala í árlegri veislu í Hvíta Húsinu sem haldin var til heiðurs fréttamönnum. Forsetinn sat undir ískaldri gagnrýni í hálftíma án þess að geta gert neitt í því. Hann brosti til að byrja með en var orðinn stjarfur undir lokin. Sennilega einn versti hálftími í forsetatíð W.

Þetta ættu allir að sjá: http://video.google.com/videoplay?docid=-869183917758574879 


Framtíðin...

Það hefur verið í tísku að spá fyrir um hemsenda síðan Biblían var sett saman á þriðju öld og opinberunarbókin náði almennri dreifingu. Heimsendir hefur reyndar verið vinsæll mikið lengur en það. Það var hins vegar opinberunarbókin og síðar Nostradamus sem gerðu heimsendi að stórstjörnu. Fólk flykktist í kirkju í lok árs 999, en ekkert gerðist. Við höfum misst af ótal heimsendum síðan, nú síðast fyrir sjö árum, árið 1999. Það breytir engu, það er komið nýr kandidat. Dagatal Maya endar árið 2012 svo að við vonum það besta.

Það er hægt að brosa við trúarlegum heimsendum sem aldrei koma. Er það ekki bara svo að mannskepnan skilur ekki óendanleika, skilur ekki að jörðin geti haldið áfram að þróast í milljónir ára? Kannski, en það er kaldhæðnislegt að þegar við erum að byrja að skilja heiminn og að heimsendir sé heimatilbúin saga og að Guð og Kölski komi sennilega alls ekki til jarðar til að útkljá sín mál, einmitt þá byrjum við að sýna tilþrif. Við þurfum engan Guð til að refsa okkur. Við getum það sjálf.

Heimsstyrjaldirnar tvær voru sönnun þess að við getum ekki bara eytt okkur sjálfum og öllu í kring um okkur, heldur líka að við erum tilbúin til þess. Ef málsstaðurinn er nógu góður sjáum við ekkert því til fyrirstöðu að sprengja mann og annan. Svo verður þetta hverfi og annað, borg, hérað, land, heimsálfa. Það er nefnilega þannig að "once you pop, you can't stop", það er engin leið að hætta. Þeir sem trúa því ekki geta prófað að sofa lítið og byrja að kvarta yfir óhreinu glasi sem skilið var eftir á stofuborðinu. Smámál sem engu máli skiptir, en ef jarðvegurinn er frjór verður það að stórrifrildi og endar jafnvel með skilnaði.

Hvað um það. Eitt af okkar heimatilbúnu vandamálum er umhverfið, mengun og gróðurhúsaáhrif. Sumir brosa og segja það vera hið besta mál að það hlýni um gráðu eða þrjár. En það er með þetta eins og annað, alltaf skal eitthvað skemma fyrir manni gamanið. Ef norðurpóllinn og stór hluti Grænlandsjökuls bráðnar fyllist Norður Atlantshafið af ísköldu ferskvatni. Þetta mun standa í vegi fyrir Golfstraumnum. Hann mun hörfa og sennilega fara beint yfir hafið í átt að Afríku í stað þess að fara norður í haf og ylja okkur. Þetta myndi gera Ísland óbyggjanlegt á örfáum misserum og norður Evrópu all hryssingslega. Nættúran færi úr skorðum og gríðarlegur flóttamannavandi yrði til. Þetta hljómar eins og vísindaskáldsaga um dómsdag, en Golfstraumurinn hefur hægt á sér um 30% á síðustu 40 árum. Hvað svo sem gerist er það þess virði að skoða þetta mál og taka það alvarlega.

Annars er það ekki eina vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Djúsinn er að klárast. Við getum sennilega haldið áfram að lifa áhyggjulaust í nokkur ár í viðbót, en það má segja að heimsendir sé í nánd. Þetta er ekki spádómur, þetta er raunveruleikinn. Olían er blóð iðnríkjanna og án hennar lifum við ekki. Við eigum einhverja áratugi eftir miðað við notkunina eins og hún er í dag. Við hefðum sennilega tíma til að þróa nýja tækni til að taka af versta fallið. Vandamalið er hins vegar að olíunotkun stendur ekki í stað. Gert er ráð fyrir að olíunotkun á vesturlöndum muni tvöfaldast á næstu 10 árum. Bætum svo við löndum eins og Kína og Indlandi sem vilja ná sömu lífsgæðum og við, þá er augljóst að við erum að sigla í strand. Spurning hvort maður nái áratugi áður en við lendum í vandræðum og olíuverð tvöfaldist eða meira. Spurning hvort að olían klárist hreinlega á næstu 20 árum.

Við erum sem sagt að nálgast heimsendi. Ekki í þeim skilningi að það muni rigna ösku og brennisteini og aðeins hinir hjartahreinu komist af. Það er líklegra að þessi heimsendir verði líkari falli Rómarveldis. Það mun taka einhvern tíma fyrir samfélagið að liðast í sundur. Það munu verða átök meðan lönd berjast um síðustu dropana (eins og sést nú þegar í Írak). Það mun sennilega koma til matarskorts. Frumskógarlögmálið mun ráða ríkjum. Eða hvað?

Það er auðvitað líka möguleiki að við tökum höndum saman, horfumst á augu við vandann í staðinn fyrir að stinga hausnum í sandinn. Við erum sennilega orðin of sein til að komast í gegn um þetta breytingaskeið án þess að finna fyrir því, en kannski höfum við enn tíma til að redda málunum án þess að fara aldir aftur í tímann. Það fer allt eftir því hvernig og hvort tekið er á málunum. Þetta er svipað og með krabbamein. Ef það greinist nógu snemma og er meðhöndlað er yfirleitt hægt að lækna það. Ef við lokum augunum í afneitun, hræðslu eða þröngsýni og gerum ekkert fyrr en vandamálið er farið að krefjast þess, þá erum við orðin of sein.

Eins og athugasemd Hafþórs H. Helgasonar í fyrradag: álið er ekki málið heldur vetni. Það er smá dropi í hafið, en betri er dropi en...  Og svo eins og minnst var á síðast, ef fólk vill vita meira mæli ég með tveim heimildamyndum, "If the Oil Runs Out" frá BBC og "End of Suburbia" og svo An Inconvenient Truth.


Hvað nú? Við erum bensínlaus...

Búinn að vera að grugga í stærsta vandamál okkar tíma. Við erum að verða bensínlaus. Það er talað um "peak", þegar olíuframleiðsla toppaði. Olíuframleiðsla er eins og kirkjuklukka í laginu, byrjar rólega en eykst hratt með vaxandi eftirspurn. Þegar bestu olíulindirnar hafa verið notaðar verður að finna olíu á erfiðari stöðum, svo sem í sjó og á heimskautasvæðunum. Þá er talað um toppinn, því sá tími kemur sem olíuframleiðsla byrjar að fara niður á við því nýju lindirnar eru of litlar, erfiðar eða dýrar.

Bandaríkin toppuðu árið 1971. Eigin framleiðsla hefur verið á niðurleið síðan. Stór olíuvinnslusvæði hafa verið að toppa síðan, nú síðast Saudi-Arabia í fyrra. Það að Arabía hefur toppað eru stórtíðindi. Það þýðir að heimurinn hefur toppað, olía verður dýrari og erfiðari að finna. Bensínverðin sem við sjáum nú eru komin til að vera. Það getur verið að bensínverð lækki eitthvað á næstu árum ef friður kemst á, en allar lækkanir héðan af eru tímabundnar. Bensínverð á eftir að hækka stöðugt á næstu árum.

Vísindamenn og aðrir sem virðast hafa vit á þessum málum búast við að olíuskortur komi til með að skapa stór vandamál á heimsvísu fyrr en síðar. Þeir gefa okkur 10-20 ár til að losa okkur við olíufíknina. Engin tækni í dag gefur nógu mikla orku af sér til að koma í staðinn fyrir olíu. Rannsóknir eru komnar of skammt á veg og það virðist vera takmarkaður áhugi á að sinna þessu vandamáli. Á meðan olían er að klárast er notað (og hent) meira plast en áður og bílarnir eru stærri því allir þurfa jeppa. Svo má auðvitað bæta Kína og Indlandi við, löndum sem vilja sömu lífsgæði og Evrópa og Norður-Ameríka hafa leyft sér frá stríðslokum.

Ég veit ekki hvort það verður gaman að sjá hvernig við komumst í gegn um þetta vandamál, en það verður athyglisvert. Það er auðvitað viðbúið að það verði árekstrar þegar fólk slæst um síðustu dropana, eins og maður sér nú þegar í Írak, en það er vonandi að það fari ekki úr böndunum.

Ef fólk vill vita meira mæli ég með tveim heimildamyndum, "If the Oil Runs Out" frá BBC og "End of Suburbia".  


An Inconvenient Truth

Er líf eftir tapaðar forsetakosningar? Það er ekki annað að sjá. Al Gore var aldrei í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér en það er ekki spurning að heimurinn væri í betri höndum undir hans leiðsögn. Varla hægt að bera hann saman við Texas-apann.

Þeir sem vilja vita hvað hann (ekki apinn) er að gera þessa dagana ættu að skoða þetta. Það ættu reyndar allir að sjá þetta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband