Færsluflokkur: Dægurmál

Aðfaraflokkurinn

Það má vera að maður sé orðinn of seinn að ná sér í vinnu eftir þessar kosningar, en það eru aðrar eftir ár og þar eru sennilega betri störf í boði. Ég hef því ákveðið að stofna flokk. Eftir mikil heilabrot datt ég niður á nafnið Aðfaraflokkurinn. Nafnið er byrjun og nú skal velta fyrir sér hvaða málefni maður hefur áhuga á og hver afstaða manns er.

Eins og alþjóð veit hef ég verið búsettur erlendir um árabil. Það liggur því ljóst fyrir að ég á erindi á Alþingi því glöggt er gests augað. Einnig er ég að komast á þann aldur að ég líti trúverðuglega út í jakkafötum, nú og svo það að aðra vinnu er ekki að fá á þessum aldri. Ég virðist ekki vera að missa hárið og fitan er ekkert of áberandi ef fötin eru vel hönnuð. Þetta kemur sér allt vel í kosningabaráttunni þegar maður þarf að sjarmera sjónvarpsáhorfendur.

Ég tel sjálfan mig nokkuð skemmtilegan en á það til að láta ekki á því bera á almannafæri. Ég er vel lesinn, veit töluvert mikið og get sennilega staðið mig þokkalega í kappræðum svo lengi sem mótmælandinn fer ekki of mikið í taugarnar á mér. Þá á ég til með að móðga og blóta. Þetta gerist þó ekki mjög oft svo ég sé þetta ekki sem neitt sérstakt vandamál.

Það held ég. Við erum komin með flokk og formann. Nú er bara að búa til stefnumál. Ég trúi á lýðræði og bið ég lesendur því að koma með uppástungur. Ég vil líka taka það fram á ég á afmæli í dag og þætti mér það leiðinlegt með eindæmum ef engin svör fengjust.


Klepra?

Af hverju gerum við hluti sem við viljum ekki gera? Nú er ég ekki að tala um glæpi eða kúkát í sjónvarpi heldur hversdagslega hluti. Það þarf að vaska upp og þvo fötin sín af og til, að minnsta kosti er það æskilegt. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvers vegna sitjum við í búri þó að við séum sjálf með lykilinn?

Ég sit hér inni á loftræstri skrifstofu í Amsterdam og horfi út um gluggann. Ekki mikið að sjá svo sem, grá gata og grá hús í ljótu skrifstofuhverfi. Ég var úti rétt áðan og það er steikjandi hiti. Nú sit ég hér og hugsa, ekki um IBM tölvur eða "lausnir" eins og ætti að vera að gera, heldur hvað í ósköpunum ég sé að gera hérna. Ég er að byggja up kvikmynda framleiðslu, ég er að undirbúa stuttmynd. Það er allt voða skemmtilegt, en ég er samt að vinna á þessari skrifstofu. Það borgar reikningana, er traust innkoma, ég fer ekki á hausinn meðan ég "má" koma í vinnuna. Samt spyr ég mig, við hvað er ég hræddur? Hvað gerist ef ég fer bara og er alfarinn? Fer ég á hausinn, finn ég aðra og skemmtilegri vinnu eða dey ég kannski úr vannæringu útá gangstétt? Hrekst ég kannski aftur til Íslands?

Það sárfyndnasta við þetta er að þjóðfélagið byggir á þessari hræðslu við að gera það sem mann langar til. Það er alltaf sagt, "fylgdu draumnum þínum", "þú er sérst(ök(akur))", "lífið er til að njóta þess". Bla bla bla. Af hverju er þjóðfélagið þá byggt upp frá grunni með það í huga að fá sem flesta vinnumaurana til að vinna, hugsa ekki "out of the box" of vera ekki með einhverja vitleysu eða stæla? Þetta er svona "þegiðu og haltu áfram að vinna" nema að við erum orðin svo sniðug að við látum fólk halda að það vilji þetta sjálft.


Vinstri Grænir eru hlægilegir!

Vistri (kommar) Grænir (hippar eða viðvaningar). Það er allavega það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá þetta fyrirbæri í útlandinu fyrir mörgum árum. Ég hafði auðvitað rangt fyrir mér. Ég var hinn sauðsvarti almúgi sem búið var að heilaþvo. Það er nefnilega svo auðvelt að vinna stig með því að gera andstæðinginn hlægilega. Á meðan andstæðingurinn er tréfaðmari (treehugger) g nýaldar skýjaglóður getur maður sjálfur verið alvörugefinn og mark takandi á manni. Þetta er aldagömul aðferð og hún virkar enn.

 Þegar maður fer að sjá í gegn um spinnið koma skemmtilegust hlutir í ljós. Auðvitað þurfum við virkjanir og álver! Ekki lifum við á grasi og fallegu útsýni! Það er eins og alvöru kommarnir, þeir sem vilja byggja upp iðnaðarsamfélag í anda Stalins og vina, séu á miðjunni og til hægri. Það skiptir ekki máli hvað verður um landið, svo lengi sem "við" sjáum heilsusamlegt peningaflæði.

 Ég sá nýlegt dæmi um hlátursmeðferð. Þ.e.a.s. gera einhvern svo fáránlegat og ótrúverðugan að fólk tekur hann ekki alvarlega. 11. september var mikill sorgrdagur. Hvað gerðist í alvöru, enginn veit. Sagan eins og hún er sögð af Hvíta Húsinu gengur ekki upp. Það er svo margt sem stangast á við náttúrulögmál og annað að maður veit ekki hverju skal trúa. Samt er maður ekkert að tala um það opinberlega ef nafn manns er þekkt. Ástæðan er einföld. Maður verður tekinn í gegn og kjöldreginn. Sjáum til dæmis Charlie Sheen. Hann kom fram í sjónvarpi og krafðist þess að Washington kæmi út úr skápnum og segði söguna eins og hún hefði gerst. Hvað gerist? Viku seinna er hann sakaður um að hafa beitt fyrrverandi konuna ofbeldi. Tilviljun? Kannski, kannski ekki. Betra að gera hann hlægilegan en að svara spurningunni?

Svona er þetta með svo margt. Í stað þess að svara spurningunni er fólk gert ótrúverðugt meðan þeir sem vandamálið snýst um gerast alvöruþrungnir og "traustsins virði". 


Er ég svona vitlaus?

Ég skil ekki hvað er í gangi. Maður les fréttir um álver og flugvelli. Þetta er allt voða dýrt, kostar milljarða en er bráðnauðsynlegt. Annars förum við á hausinn. Herinn er að fara svo að við verðum að passa okkur. Annars förum við á hausinn.

Það hefur verið mikið rætt um álver og ætla ég ekkert að segja neitt meir um það, ekki núna. Löngusker. Það er eitthvað sem ég skil ekki. Af hverju er expé að tala um flugvöll á Lönguskerjum? Af hverju ekki að nota Keflavík? Það tekur 20 mínútur að keyra þetta og völlurinn er vannýttur nema snemma á morgnanna og um kaffileytið.

Hvar eru Löngusker anyway og hvað gerir þau betri en Keflavík? Hvað mun nýr flugvöllur kosta og er betra að eyða því fé í samgöngur til Keflavíkur? Af hverju þarf suðvesturhornið tvo stóra flugvelli?

Ef við erum að byggja stíflur og álver út um allt til að fara ekki á hausinn, af hverju erum við þá svona æst í að borga rekstur tveggja flugvalla? Er þetta bara Framsókn (exbé, sorrí) eða er ég svona gjörsamlega úr takt við þjóðina?


Voru Nasistarnir svo slæmir?

 Ég held ég hafi móðgað Hollending í gær. Eins og alþjóð ekki veit er ég búsettur í Hollandi. Sumardagurinn fyrsti er því tilgangslaus og 17 júní er ekkert merkilegri en 16. eða 18. Aðfangadagur er meira að segja merkingarlaus. Fimmti maí er merkilegur, virðist allavega vera það við fyrstu sýn, þannig lagað, en þó ekki.

 Holland var hernumið af Þjóðverjum sama dag og Ísland var hernumið af Bretum. Fimm árum seinna, þann fimmta maí 1945 var Holland frelsað af Bandamönnum. Það var auðvitað mikið um gleði og dýrðir. Frjáls þjóð í eigin landi. Skítt með það að drottningin væri gift nasistaforingja. Það eru smáatriði sem koma bláblóðungum ekki við.

 Fimmti maí, frelsisdagurinn. Daginn áður eru fánar dregnir í hálfa stöng til að minnast fallinna hermanna. Þeir sem nenna fara í kirkju um kvöldið, aðrir fá sér bjór og horfa á sjónvarpið. Á frelsisdaginn eru fánar dregnir að húni til að halda upp á frelsið. Svo fær maður frí, fimmta hvert ár. Ekki veit ég af hverju það er ekki haldið upp á þetta árlega. Kannski af því að það skiptir svo sem engu máli? Það er sennilega ekki ástæðan. Kannski er þetta stríðshermir. Maður fær að finna innilokunarkendina með því að sitja inni á skrifstofu í steikjandi hita meðan sólin skín úti. Svo finnur maður frelsið eftir fimm ár eins og fólkið í stríðinu.

 Kannski það, en svona virkar það ekki. Ég held ég hafi móðgað Hollending í gær. Hann spurði hvort við værum opin á Föstudag. Að sjálfsögðu, af hverju ætti að vera lokað? Frelsisdagurinn, sagði hann. Ef Hollendingar nenna akki að halda upp á hann geri ég það ekki heldur, sagði ég.

 Góð taktík? Ég veit það ekki. Hann kom við í morgun en kollegi minn talaði við hann. Það var ekkert minnst á frelsisdaginn.


Nárapúkar

Álfakonungur leit um öxl. Það hefði kannski mátt reyna meira, en þetta var bara of mikið. Honum varð hugsað til Frakka sem ekkert gátu gert til að stöðva Blitzkrieg Adolfs um árið. Þeir höfðu reynt en það tafði hið óumflýjanlega bara um nokkra daga. Margir Frakkar dóu og allt sem þeir fengu í staðinn var kannski einnar viku frelsi. Nei, þetta stríð var tapað, en það þýðir auðvitað ekkert að álfur gefist upp. Ó nei, viva la restistance! Var það ekki það sem þeir sögðu alltaf? Hann var ekki viss. Það gat verið erfitt að ná í bækur mannanna og svona lagað fann maður aldrei í álfabókum.

Nú voru erfiðir tímar í nánd. Það átti að sökkva heilli borg! Það var ekki eins og þetta væri einhver vesæll álfhóll í nýju borgarhverfi sem börn voru að dunda sér við að grafa upp. Hann hafði svo sem nógu oft sagt á ráðstefnum að álfar ættu að koma sér frá borginni. Þetta var fyrirsjánlegt. Þeir álfar sem þrjóskuðust við og neituðu að fara lentu í vandræðum. Álfakonungur vissi betur, allavega hafði hann haldið það. Kannski var hann bara að verða of gamall.

Hann hafði séð borgina vaxa og ákvað að gera hið sama. Þetta var svo sem ekkert vitlaus hugmynd hjá mannfólkinu. Borg. Álfaborg! Þetta hafði aldrei verið reynt á Íslandi. Hundraðogfimmtíuþúsund álfar í einni borg. Hugsa sér allt það sem álfar gætu gert ef þeir ynnu saman á skipulagðan hátt. Eitt þurfti þó að komast á hreint áður en byrjað yrði að byggja. Staðsetning. Hann hafði staðið fast á sínu. Sem lengst frá mannabyggðum. Einn og einn álfhóll étinn upp af steinsteypu og malbiki var nógu slæmt. Álfaborgin skyldi fá að standa um aldir!

Álfakonungur leit um öxl. Það var betra en að horfa í augu álfanna sem gengu yfir heiðina með honum. Þau gengu þó allavega með honum.

Álfarnir höfðu gengið yfir fjöll og heiðar. Það var komið rökkur og tími til að búa sig fyrir nóttina. Álfakonungur opnaði skjóðuna varlega. Hann tók upp ljósmynd af gráu hlöðnu húsi með kopar níu á þakinu og hugsaði til nárapúkanna. Hann hafði sent þá beint í gin óvinarins. Þeir vissu jafn vel og hann að þeir kæmu kannski aldrei til baka, en þeir vissu hvað var í húfi. Enginn vildi sjá hina nýju, glæsilegu Álfaborg hverfa undir vatn. Nárapúkarnir voru tilbúnir til að fara og gera það sem þeir voru bestir í.


Mansal og fótbolti?

Vegna fréttar á MBL.is - http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1199566

Ég man eftir að hafa lesið frétt á netinu fyrir einhverju síðan sem sagði frá undirbúning HM í Þýskalandi. Mig minnir að þetta hafi verið Hollensk síða. Það þurfti að brugga milljón tonn af bjór, baka sex miljarða berlínarbolla, slátra fimmtán milljónum kúa og mala í bratwurst og flytja inn nokkra tugi þúsunda austur evrópskra kvenna.Málið var nefnilega að flestir fótboltaáhugamenn eru menn og þeir vilja fótbolta, bjór, pylsur og konur. Það er auðvitað hellingur af Rússneskum, Úkraínskum, Rúmenskum stelpum í vestur Evrópu seljandi sig en þetta er ekki nóg fyrir HM. Þjóðverjarnir voru víst smeykir við að ef menn gætu ekki losað um þrýstinginn brytust út allsherjar óeyrðir. Það yrði voðalegt að sjá allar þessar testosterone bombur ryðjast um götur ráðast á allt og alla. Þetta er sem sagt hið besta mál. Ríkið nær sér í tekjur því þetta verður auðvitað alls skattlagt og borgin verður ekki lögð í rúst þar sem allir ganga um með bros á vör. Perfect!

Það var eins og ungu konurnar (margar bara táningar) skiptu engu máli. Þetta var bara fín lausn og ekkert múður. Mansal er risavaxið vandamál í Evrópu. Ég bý rétt utan við Amsterdam, borgina þar sem þetta vandamál er mjög áberandi. Ég efast um að Amsterdam sé verri en hver önnur borg í vestur Evrópu, en Rauða Hverfið sér til þess að auðvelt er að sjá vændi. Maður gengur eftir strætunum, fram hjá rauðlýstum gluggum með fáklæddum dömum reynandi að ná athygli manns. Þetta eru oft gullfallegar stelpur. "Það væri fyndið að prófa þetta" væri hægt að segja, en þá er maður bara að bæta á vandann því meðan þetta borgar sig heldur þetta áfram. Ég geri ráð fyrir að flestar stelpurnar, sem yfirleitt eru í kring um tvítugt, þó margar langt þar undir, séu ekki að þessu af því að þær hafi svo gaman af bólförum með sem flestum. Flestar hafa annað hvort tekið þetta sem eina kostinn í vonlausri lífsbaráttu eða hreinlega verið þvingaðar út í þetta. Spurningin er þá, er þetta nauðgun? Ef vændiskonan var þvinguð út í vændi, er viðskiptavinurinn þá nauðgari?

Þetta eru erfiðar spurningar og því meira sem maður skoðar þetta mál, því svartsýnni verður maður á að mannkynið spjari sig. Maður getur reynt að setja sig í spor ungrar stelpu frá ónefndu austantjaldslandi sem verður stödd í Þýskalandi í sumar. Hvað varð til þess að hún er komin hingað? Hvernig verður vinnan? Það verður örugglega nóg að gera í kring um HM. Hvernig kemur hún út úr því. Hvað svo, þegar flestir viðskipta"vinirnir" eru farnir? Verður hún send til baka eins og bjórdós sem búið er að nota? Kannski endar fyrir henni eins og fjórtán ára stelpunni í Lilja 4-Ever. Kannski nær hún sér í nógu mikið af evrum til að setja á stofn lítið fyrirtæki ef skatturinn og dólgurinn tekur ekki meiripartinn.

Ég veit það ekki. Þetta er sennilega dekksta hlið HM. Það er auðvitað ekki gott þegar svona hlutir gerast undir yfirborðinu, en maður spyr sig hvað gerist þegar ríkið er farið að taka þátt í að flytja inn stelpur í stórum stíl til að pirra ekki fótboltaáhugamenn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband