Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
11.3.2014 | 17:00
Planið
Ég held ég sé búinn að fatta plottið. Af hverju hlusta ráðherrar ekki á þjóðina? Af hverju liggur svona mikið á að losa sig við ESB? Og hvað með allar allar lygarnar?
Þetta snýst um það sama og flest önnur spilling á Íslandi. Stíflur. Virkjanir.
Kaupfélagsstjórinn er búinn að eigna sér nær allar jarðir með vatnsréttindi í Skagafirði og nágrenni. Hefur dundað sér við að kaupa þær á síðustu 15 árum eða svo. Þar skal koma virkjun. Nokkrir hlutir þurfa að gerast til að hún verði að möguleika. Planið fæðist.
1. Koma í veg fyrir að stjórnarskrármálið sé klárað, svo að þjóðin sé ekki að skipta sér af.
2. Koma sínu fólki í ríkisstjórn, með hvaða aðferðum sem er. Nytsömum sakleysingjum í ráðherrastóla. Stjórnarandstaða kemur ekki til greina. Ef nauðsynlegt er að ljúga upp í opið geðið á þjóðinni, þá verður bara að hafa það. Þótt það kosti flokkinn næstu kosningar, skiptir það ekki máli. Eitt kjörtímabil er nóg.
3. Kominn í stjórn. Koma náttúruverndarlögunum fyrir kattarnef svo hægt sé að virkja þar sem þarf.
4. Losa sig við ESB strax. Það má ekki dragast, því ef sambandið fer að skipta sér af innanríkismálum getur það gert athugasemdir við hugsanleg náttúruspjöll og spillingu. Það er nefninlega þannig að sandkassaleikurinn á Íslandi er illa séður í útlandinu.
5. Koma virkjunaráformunum í jarðveg eins hratt og auðið er. Á kjörtímabilinu, svo næsta stjórn geti ekki snúið ferlinu við.
6. Njóta ávaxtanna á meðan þjóðin étur mylsnuna sem fellur af borðinu.
Það er viðbúið að flokkurinn gjörtapi næstu kosningum, en það skiptir ekki máli. 1-2 kjörtímabil utan ríkisstjórnar er fórnarkosnaður sem hægt er að sætta sig við, ef planið virkar. Því peningarnir munu streyma. Þar fyrir utan, eru okkar menn í öllum stofnunum og geta gert framtíðarstjórn erfitt fyrir, svo að hún muni ekki getað virkað almennilega, og tapar því þarnæstu kosningum.
6.10.2013 | 09:16
Íslendingana Heim
Það er gott mál ef Ísland er að ná til sín hátæknifyrirtækjum. Þjóðin er vel menntuð og á að geta verið brautryðjandi í flestu sem henni dettur í hug að taka sér fyrir hendur.
Fólksflótti eftir hrun getur þó sett strik í reikninginn. Fólk sem flytur að heiman virðist yfirleitt vera vel menntað, fólk sem kemst tiltölulega auðveldlega í góð störf í nágrannalöndunum. Þessu fólki þarf að ná til baka.
Ég hjó eftir þessu í fréttinni: "...meðal annars var Alvogen veittur frestur til þriggja ára á greiðslu gatnagerðargjöldum í Reykjavík."
Væri það ekki hugmynd að gera svipað fyrir íslendinga sem vilja koma heim? Gefa fólki sem átt hefur lögheimili erlendis í fimm ár eða lengur skattaafslátt, fella niður gatnagerðagjöld eða eitthvað svipað fyrstu 1-3 árin?
Málið er nefninlega að þjóðin er verðmætasta auðlind okkar, og ef við látum það óafskipt að best menntaða fólkið fari úr landi og komi ekki aftur, erum við í vanda. Framsækin fyrirtæki með vel menntað fólk innanborðs er sennilega besta tekjulind sem til er.
Svo er það auðvitað bónus að fá fólk heim sem kynnst hefur öðrum samfélögum, því víðsýni hlýtur að vera af hinu góða.
Stórt heilbrigðisfyrirtæki skoðar Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.2.2012 | 16:12
Glópagull
Efnahagskerfi heimsins hrundi haustið 2008. Ísland og fleiri ríki fundu fyrir því af hörku á meðan sum sluppu tiltölulega vel. En þetta er ekki búið. Dollarinn er veikur, evran riðar til falls. Báðir gjaldmiðlarnir hafa fallið um allavega fjórðung á liðnu ári. Kreppan er ekki búin, því það er ekki verið að ráðast á rót hennar. Ríki heimsins hafa aldrei verið skuldugri en einmitt núna og það sér ekki fyrir endann á lántökunum. Kreppan er rétt að byrja, nema við stokkum kerfið upp. Það er ekki að gerast.
Erlendir kaupmenn reyna að hafa eðalmálma af íslendingum. Hér úti í heimi er þetta ekkert öðruvísi. Við höfum fengið sömu auglýsinguna inn um bréfalúguna af og til síðasta árið. Eigið þið gull sem þið viljið selja? Við greiðum hæstu verðin! Gullverð er í hæstu hæðum, en þó vilja þeir sem vitið hafa á þessum málmum ólmir kaupa það. Og borga vel fyrir. Merkileg tímasetning.
Þeir vita nefninlega að ef allt fer sem horfir, verða peningar eins og við þekkjum þá verðlitlir eftir einhver misseri. Þegar stærstu gjaldmiðlar heims riða til falls og ríkisskuldabréf og verðbréf eru of áhættusöm, er öruggast að fjárfesta í alvöru hlutum. Ekki peningunum sem eru bara tölur í tölvu og hafa enga eiginlega merkingu, ekki hlutabréfum sem geta fallið um tugi prósenta á örskömmum tíma. Nei, fasteignir og eðalmálmar eru öruggasta fjárfestingin. Eðalmálmarnir eru bestir, því þeir eru færanlegir.
Það er ekki gott ef menningarverðmæti eru að hverfa úr landi og eru eyðilögð í einhverri bræðslu. En burtséð frá því, er gott að hugsa málið til enda. Ef þeir sem vit hafa á eðalmálmum vilja ólmir kaupa þá þegar verð er í hámarki, ættu viðvörunarbjöllur að hljóma í hausnum á okkur.
Skart stöðvað á leið úr landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2012 | 16:11
Hryðjuverk?
Arion Banki ber fyrir sig hryðjuverkum. Að fái hann ekki að njósna um landsmenn, geti þeir stutt við bakið á hryðjuverkastarfsemi.
Mér hefur sýnst á undanförnum árum að bankarnir, ekki síst þessi, séu að fremja stærsta hryðjuverk sem íslendingar hafa orðið fyrir. Bankarnir tóku stöðu gegn krónunni. Þeir spiluðu fjárhættuspil með fé landsmanna. Þeir settu þjóðina á hausinn og græða nú á tá og fingri.
Maður þarf ekki að sprengja eitthvað í loft upp til að eyðileggja samfélag.
Hafi ég rangt fyrir mér, vil ég endilega heyra það.
Setur dagsektir á Arion banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2012 | 07:52
Fari IMF og spillingarpakkið fjandans til!
Það mátti loka Þjóðleikhúsinu og öðrum menningarstofnunum, en bankarnir skyldu fá sitt? Ef þetta sýnir ekki geðveikina, að peningamafían er á annarri plánetu en við hin, þá veit ég ekki hvað ætti að gera það. Íslendingar byggðu upp menningarlíf sem fáar þjóðir geta státað af. Íslenskar bókmenntir, leiklist, myndlist, tónlist. Er þetta minna virði en peningar?
Pabbastrákarnir fóru í útrás í boði spillingarhunda í embættismannakerfinu. Þeir spiluðu af sér og töpuðu öllu, eins og þeir væru dauðadrukknir unglingar á sóðabar i rauðu hverfi í einhverri hafnarborginni. Svo koma dólgarnir sem notfærðu sér heimsku pabbastrákanna og vaða um allt á skítugum skónum.
Svo heyrum við endalausar fréttir af því hvað IMF (ég segi enn IMF, neita að íslenska nafnið á þessum glæpasamtökum) finnst þjóðir heims eigi að gera. Herða sultarólina. Borga meiri skatta. Skera niður þjónustu. Drepa gamalmenni með því að leyfa því að frjósa í hel, afskiptalaust. Segja okkur að kyngja því að nú er kreppa og að hún er pínulítið okkur að kenna en að feitu grísirnir með bindin séu nú alveg að reyna að bjarga okkur. En taka þeir sjálfir nokkurn tíma ábyrgð? Nei, auðvitað ekki. Þeir setja allt á hausinn, koma svo og sópa allt til sín.
Er ekki komið nóg af arðráni og spillingu. Eins og einhver ímynduð tala á einhverjum bankareikningi, sem eiginlega er ekki til ef maður spáir í það, sé mikilvægari en leikhús, söfn, listir og menning? Þvílík sturlun!
Ég þakka núverandi stjórnvöldum fyrir að hafa þó haldið skítugum IMF krumlunum frá menningarstofnununum sem þjóðin hefur byggt upp á áratugum. Hún má þó eiga það.
AGS vildi loka Þjóðleikhúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2012 | 09:26
Væluskjóður!
Skemmtanaiðnaðurinn hefur verið duglegur að barma sér og hágráta yfir því hvað heimurinn er vondur. Við erum öll þjófar, aumingjar sem viljum allt fyrir ekkert. Stelum öllu steini léttara, svo að tónlistarmenn þurfa að éta það sem úti frýs. Og þeir sjá það sem úti frýs, því þeir eru neyddir til að fara út á götu og glamra á gítarinn í frostinu með hor í nös, vonandi að vegfarendur hendi í þá tíkalli af og til. En við erum þjófar, svo líkurnar á því eru hverfandi. Listamenn eru dæmdir til að deyja úr kulda og hor í þakherbergi, einir og yfirgefnir.
Nú er heimurinn að taka upp ACTA lögin sem leyfa þessum fórnarlömbum þjófanna að fangelsa fólk fyrir að dánlóda myndum, tónlist og hverju sem hugsanlega var skapað af öðru fólki. Það er lögbrot að birta brot úr lagatextum í tölvupóstum og á bloggum. "Imagine no possessions, I wonder if you can" Þar hafiði það. Það eru harðari viðurlög við því að ná sér í eitt lag á netinu án endurgjalds, en að nauðga 13 ára dóttur nágrannans. Hvaða skilaboð er verið að senda? Er heimurinn að verða algerlega sturlaður?
Svo heyrði ég dæmi um að aðstandendur hafi þurft að borga STEFi fyrir að mega góðfúslega spila lög eftir listamanninn látna. Hvert fara þeir peningar? Og ef ég er að klippa myndbönd sem ég tók sjálfur og þarf harðan disk, fer hluti verðsins til STEFs sem makarr fyrst krókinn sjálft og útdeilir afganginum á aumu listamennina sem ekkert höfðu með verkefnið mitt að gera.
En bíddu. Eru listamenn að fara á hausinn? Verður heimurinn tónlistarlaus innan skamms? Svarið virðist vera nei. Meiri tónlist er gefin út nú en nokkru sinni fyrr. Hagnaður er meiri en nokkru sinni. En samt á að taka okkur kverkataki og stinga í steininn. Ég hef ákveðið að verði ACTA að lögum, mun ég hætta að kaupa tónlist og kvikmyndir. Hér er athyglisverð mynd sem sýnir þróunina undanfarin ár. Smellið þar til lesanleg stærð fæst.
Þess má geta að ég hætti að næla mér í forrit þegar Apple setti upp App Store fyrir tölvur. Pages, sem er svipað og Word, kostar 16 evrur. Final Cut Pro, sem áður var 1000 evrur, kostar nú 240. Þetta er málið. Það tekur því ekki að stela þessum forritum, og salan eykst.
Hakkarar réðust á vef ráðuneytis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2012 | 19:50
Spurning um spillingu?
Ein spurning brennur á mér. Í stjórn félagsins Greið Leið ehf situr Kristján nokkur Möller. Hann er þingmaður og mun því væntanlega fá að greiða atkvæði um það hvort skattpeningar verða notaðir í þetta verkefni. Hann situr því beggja megin borðsins. Hvernig getur þetta mál flækst um alla fjölmiðla landsins, þing og nefndir, án þess að nokkur geri athugasemd við það? Er þetta ekki gamla Ísland, spillingarlandið í hnotskurn?
Það er lítil hætta á öðru en að hann muni sitja áfram eftir kosningar og greiða atkvæði um þetta mál, því þetta er kjördæmapot af verstu gerð.
Svo eru aðrar spurningar eins og, hvernig á þetta að standa undir sér? Ef þetta er arðbært, af hverju fer ekki einhver einkaaðili í þetta, í stað þess að ríkið sé að eyrnamerkja pening sem það á ekki?
En aðal spurningin er, höfum við ekkert lært? Ætlum við að leyfa þingmönnum að vaða um allt á skítugum skónum? Er ekki kominn tími á lög sem banna þingmönnum að vera í viðskiptum, til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra?
Vilja Vaðlaheiðargöng á áætlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2012 | 10:26
Dýr og Tré
Íslenskt samfélag er helsjúkt. Það er helsjúkt eins og barn í þriðjaheims ríki. Lækningin er til, en ekki til staðar.
Við lifum í réttarríki. Öll dýrin eru jöfn. Það á þó til að vera ekki alveg svona einfalt í raunveruleikanum. Stundum eru dýrin sem setja reglurnar jafnari en önnur. Þau geta brotið af sér, en enginn getur snert þau. Þau geta sópað til sín auðlindir og fjármagn, löglega og ólöglega, en þau eru yfir lögin hafin. Ekki formlega. Öll dýr eru jöfn. Það getur bara verið svo erfitt fyrir embættismenn innan dómsvaldsins að slá á höndina sem réttir þeim bitlinga í formi utanlandsferða, fjárframlaga og fleira. Það er kannski ekki við stjórnmálamenn og aðra embættismenn að sakast. Kannski er þetta bara mannlegt eðli. Við erum alltaf hrædd við að eiga ekki nóg, að verða blönk á einhverjum tímapunkti. Best að safna í sarpinn. Svo er svo erfitt að pirrast út í þá sem fjármagna kosningabaráttuna og annað sem nauðsynlegt er. Eins og hundurinn, passa þeir upp á þann sem gefur þeim að éta.
Kjósendur verða bara að sjá um sig sjálfir. Redda sér. Enda hafa þeir ekkert fjármagn til að kaupa sér velvild þeirra sem setja lögin. Verðtryggingin er að sliga þjóðina. 40.000 heimili skulda meira en þau eiga. Yfir hundrað þúsund manneskjur, þriðjungur þjóðarinnar eða meira, er í svo til vonlausri stöðu. Sum þeirra geta sjálfum sér um kennt. Þau eyddu um efni fram. En flestir sem ég þekki lifðu lífinu eins og hvert annað meðaldýr. Unnu allan daginn og vonuðu að þetta slyppi um mánaðamótin. Þau keyptu sér hús og bíl og fóru til útlanda á 2-3 ára festi. Lifðu ósköp venjulegu lífi. Þau eru ekki fórnarlömb eigin mistaka, heldur voru þau í röngu landi á röngum tíma. Kerfið hrundi og ákvað að heimilin skyldu bæta það sem miður fór.
Hið svokallaða hrun, eins og sumir eru farnir að kalla það, er langt í frá orðinn fjarlægur kafli í íslandssögunni. Það er enn í fullum gangi. Á meðan verðtryggingin er við lýði, á meðan bankamennirnir sem spiluðu með þjóðina, viðskiptaséníin sem keyptu og seldu stórfyrirtæki og bjuggu til falskt góðæri og stjórnmálamennirnir sem sáu hvert stefndi en gerðu ekkert... á meðan þetta fólk er ekki látið svara fyrir sig, á meðan hrunið er ekki gert upp, á meðan fólk er borið út af heimilum í nafni bankanna, mun þetta svöðusár á þjóðarsálinni ekki gróa. Á meðan löggjafavaldið tekur fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu, getum við ekki sagt að við búum við réttarríki. Á meðan stjórnmálamenn leyfa kaupsýslumönnum að segja sér fyrir verkum, búum við ekki við lýðræði.
Af hverju gerist ekkert ef þriðjungur þjóðarinnar er á hausnum og þúsundir flytja ár hvert af landi? Af hverju mætir einn þúsundasti þjóðarinnar á fund um verðtrygginguna? 0.3% þeirra sem eru í vanda vegna hennar. Sömu hræðurnar og voru þarna síðast? Hvernig getur fámennur hópur haldið heilli þjóð í gíslingu? Svarið er einfalt. Við sjáum ekki trén fyrir skóginum. Vandamálin eru svo stór að við skiljum þau ekki eða gefumst upp á þeim. Við tuðum yfir stráka- og stelpuís. Við rífumst um það hvort konur eigi að raka sig eða ekki. Við missum okkur í smámálum sem skipta engu máli því við skiljum þau. Á meðan erum við heilaþvegin af öflum sem vilja halda í völdin, sama hvernig farið er að því. Við flytjum úr landi, dragandi skuldahalann á eftir okkur, eða rífumst um ís, trúandi því að þetta hrun hafi kannski aldrei orðið.
Við munum kjósa fólk á þing innan árs. Eigum við ekki að vanda okkur svolítið?
Unga fólkið flytur út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.1.2012 | 22:26
Er einhver áhugi á uppgjöri?
Það er þá komið á hreint. Meirihluti þingheims hefur ekki áhuga á að gera upp hrunið. Það er rausað um að ljótt sé að kenna einum manni um það sem miður fór. Ég get ekki séð að nokkur maður sé að gera það. Málið snýst alls ekki um Geir H. Haarde.
Fleiri tóku þátt í fylleríinu. Auðmenn, bankamenn, útrásarvíkingar, stjórnmálamenn. Hrunið byrjaði um svipað leyti og uppsveiflan. Bankar voru seldir vinum fyrir lánsfé úr hinum bönkunum. Viðskiptalífið sveik, svindlaði og stakk undan á meðan embættismenn horfðu í hina áttina, fullir á freyðivíni í boði útrásarinnar. Geir var ekki einn um að gera ekkert. Allt kerfið var sjúkt.
Kosið var um hvort lögsækja ætti fjóra þingmenn. Á endanum var einn valinn, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005 og forsætisráðherra til 2009. Það var fullkomið pólitískt klúður að sleppa hinum þremur, en það gerir Geir ekki stikkfrí. Ekki frekar en maður sleppti einum af því hinir þrír sem tóku þátt í ráninu (nauðguninni eða hvaða glæp sem framinn hefði verið) komust undan á hlaupum. Geir var í hringiðunni sem fjármála- og forsætisráðherra og hlýtur að bera einhverja ábyrgð. Hversu mikil hún er, veit maður ekki og það kemur ekki í ljós ef málið verður látið niður falla.
Hlutverk Landsdóms er ekki að hengja Geir. Ég hef engan sérstakan áhuga á að sjá hann í litlum klefa á Litla Hrauni. Efast um að margir hafi áhuga á því. Það sem ég vil sjá er uppgjör á áratugnum fyrir fall bankanna. Opið, hreinskilið og ýtarlegt. Það varð alsherjarhrun og við sjáum ekki fyrir endann á afleiðingunum. Ef við ræðum ekki málin, veltum steinum og skoðum ormana sem leynast undir þeim, komumst við aldrei upp úr þessu kviksyndi. Þjóðin á það skilið að vita hvað gekk á. Vita hvaða reikninga hún er að borga og af hverju.
Það er gott að halda til haga hvaða þingmenn kusu um málið og hvernig. Gæti hjálpað í næstu kosningum. Ég veit að enginn í "nei" hópnum fær mitt atkvæði.
já:
Arna Lára Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús M. Norðdahl, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman
nei:
Atli Gíslason, Árni Páll Árnason, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Kristján L. Möller, Lilja Mósesdóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson
fjarvist:
Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson
fjarverandi:
Björgvin G. Sigurðsson
Frávísun felld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2011 | 07:21
Einhverskonar heimsendir
Mannkynið er á tímamótum. Eftirstríðsárin eru að renna sitt skeið. Árin 1945-2012 verða sennilega dásömuð í framtíðinni. Þegar fólk átti nóg af öllu, nóg var til af olíu og vatni. Nýtt tímabil er að renna upp. Betra eða verra? Erfitt að segja til um það.
Það er svolítið spaugilegt að fylgjast með stjórnmálamönnum tala um lausnir. Núverandi kerfi virkar ekki og á meðan við búum við það, munu engar lausnir finnast. Flest lönd heimsins eru að sligast undan skuldaklafa, en þó virðist enginn eiga skuldirnar. Hvernig getum við öll skuldað? Einfalt. Tökum bandaríska kerfið sem dæmi. Flest peningakerfi heimsins eru byggð á sömu hugmynd.
Segjum að ríkinu vanti 100 krónur. Það fær krónurnar lánaðar hjá seðlabankanum. Þessar krónur fara í umferð, við fáum þær í laun, eyðum þeim í verslunum og borgum skatta. Eftir ár vill ríkið endurgreiða lánið sem það tók hjá seðlabankanum. 100 krónur og 3% vextir. 103 krónur. Hvaðan koma krónurnar þrjár? Þær eru ekki til, því ríkið gaf þær aldrei út. Ríkið þarf því að taka annað lán til að borga vextina. Nú eru 103 krónur í umferð, svo þær eru 3% minna virði en í fyrra og við skuldum vextina. Verðbólga. Leyfum þessu að gerjast í 100 ár og útkoman er sú að flest lönd jarðar eru að drukkna í skuldum. Það ætti að vera augljóst að við getum aldrei borgað niður skuldirnar, því við verðum að taka lán til að borga vextina.
Allt tal um að kreppunni sé að ljúka var því bull og gat aldrei staðist. Þetta vissu fjármála- og forsætisráðherrarnir sem nú tala hissa um að við séum að taka aðra dýfu. Annaðhvort vissu þeir að dýfan kæmi, eða þeir eru ekki starfi sínu vaxnir.
Þrjú prósent virkar kannski ekki mikið, og stundum eru vextirnir lægri. Hvað er vandamálið? Málið er að vextirnir bætast ofan á vextina. Þrjú prósent í dag eru töluvert hærri tala en þau voru fyrir 10 árum.
Hér er lítil saga sem sýnir hvernig ríkisskuld hefur þróast. Segjum að þú sért með tvö glös og poka af salti. Þú setur eitt saltkorn í glasið á fyrsta degi. Tvö á öðrum degi, fjögur, svo átta. Eftir 27 daga er glasið kvartfullt. Á 28 degi er það hálft. Dagur 29 og glasið er fullt. Á þrítugasta degi eru glösin bæði full. Svo eru það fjögur glös, átta glös.
Skuld sem virðist lítil í upphafi endar sem risavandamál. Það kemur að því að kerfið ræður ekki við meiri skuld og þá hrynur það. Við erum komin að þeim punkti. Á meðan valdhafar setja plástur á beinbrotið og segja sjúklingnum að ganga, grær brotið ekki. Það er ekki nóg að auka við skuldum í formi styrkja, "bailout" eða hvað þetta heitir. Við erum að berjast við eld með eldi. Auka við skuldabirgðina.
Við verðum að hugsa dæmið upp á nýtt. Draga djúpt andann. Við getum ekki borgað okkur út úr þessum vanda. Við verðum að finna upp nýtt kerfi. Við erum á tímamótum, erum að upplifa einhverskonar heimsendi. Komandi mánuðir verða erfiðir, en það er undir okkur sjálfum komið hvað bíður okkar handan við þrengingarnar.
Heimurinn á barmi nýrrar kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 07:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)