Færsluflokkur: Vefurinn

Ísland Grátið / Lowest Energy Prices !!

"Skemmtileg" tilviljun að meðan miklar rökræður fóru fram á þessu bloggi var fólk að flagga í hálfa stöng á hálendinu. Það er engin spurning að mikill hluti íslensku þjóðarinnar er á móti frekari stóriðju og stór hluti þeirra sem ekki eru á móti hafa ekki kynnt sér málið.

Ég fann bæklinginn "Lowest Energy Prices" á heimasíðu Draumalandsins. Ég mæli með því að allir lesi þennan bækling og endilega látið vita hvað ykkur finnst. Er verið að stuðla að hagvexti um alla framtíð eða selja Ísland og íslendinga fyrir lægsta verð?

Það verður ekki aftur snúið með Kárahnjúka, en getum við ekki látið hér staðar numið? 


mbl.is Flaggað í hálfa stöng á hálendinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað var Friðrik að segja...?

Eru þetta ekki aðal rökin þegar fólk spyr hvort all þetta ál sé nauðsynlegt? Er ekki alltaf minnst á þoturnar sem fólk notar til að komast til og frá landi? Það er ekki minnst á milljarða kókdósa sem enginn nennir að endurvinna, heldur virðist öll framleiðsla íslensku álveranna fara í farþegaþotur.

Þangað til sú saga er ekki nógu góð lengur því þotur verða ekki smíðaðar úr áli eftir nokkur ár. Nei, þá er sagt "Áhrifin á áliðnaðinn séu hins vegar lítil þar sem flugvélaframleiðsla skýri ekki nema lítinn hluta álframleiðslu í heiminum. Álframleiðendur á Íslandi framleiða ekkert fyrir flugvélaiðnaðinn svo áhrifin á íslenskan markað yrðu hverfandi."

Geta Alcan, Alcoa, Landsvirkjun og allir hinir sem eru svo álþurfi þá staðfest að Ísland er að framleiða ál í gosdósir, eða er sannleikurinn ennþá verri? 


mbl.is Óumflýjanlegt að hætta notkun áls í flugvélaframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Microsoft Windows át diskinn minn!

Það er mikið talað um að hugbúnaði sé stolið. Fólk er kallað þjófar við fyrsta tækifæri. Það skiptir ekki máli hvort þú stelur Windows af búðarhillu eða netinu. Að stela er að stela og synd er synd. Þetta er auðvitað það sem hugbúnaðarfyrirtæki segja okkur. Það skiptir þau engu máli hvernig hugbúnaði er stolið. Þau "missa af" sölu og það er það sem skiptir máli.

Ég man að um miðjan síðasta áratug fékk fólk geisladisk með Windows 95 þegar það keypti tölvu. Ef það vildi eða þurfti að setja Windows upp upp á nýtt vað það ekki svo erfitt. Activation var ekki komin til sögunnar svo að maður þurfti ekki að útskýra fyrir Microsoft ef maður skipti um grafískt kort.

Eftir því sem milljarðarnir stöfluðust upp í Redmond, jókst móðursíkin. Við gætum verið að missa af peningum. Það eru allir að stela frá okkur. Hvernig getum við stoppað þetta? CD-Key hefur verið þekkt fyrirbæri í langan tíma. Virkaði ágætlega en var auðvelt að svindla á því, sérstaklega eftir að allir voru komnir á netið.

Svo kom Windows XP og allt í einu þurfti að aktivera það. Það var ekki nóg að kaupa diskinn, heldur þurfti að fá leyfi Microsoft til að nota innihaldið. Ef fólk var ekki með nettengingu gat það verið vandasamt. Ef Windows var ekki aktiverað innan 30 daga (minnir mig) lokaðist bara á það, notandinn var timplaður þjófur. Fólk gat ekki notað tölvuna sína. Þetta var ekki einu sinni eitthvað sem maður gerði einu sinni, heldu í hvert skipti sem eitthvað var keypt í tölvuna. Ef maður hafði gaman af því að kaupa nýtt dót, grafískt kort, hljóðkort, stærri disk, þá gat Windows ákveðið að hætta að virka, activation eða ekki, og maður mátti hringja í Microsoft og biðja um leyfi til að nota tölvuna aftur.

Þeir eru ekki dottnir af baki og nú er komið eitthvað sem heitir Genuine Advantage. Þetta er forrit sem hefur samband við Microsoft á hverjum degi til að ganga úr skugga um að það sé ekki ennþá lögleg útgáfa. Ég skil nafnið ekki, nema þeir séu farnir að sjá Windows sem seljendavæna vöru frekar en notendavæna. Ef það er "genuine advantage" af því að vera með þetta forrit sett upp vil ég endilega heyra það. 

Þegar vara eins og Windows nær að eigna sér markaðinn fara skrítnir hlutir að gerast. Windows er notað á um 90% allra tölva á vesturlöndum. Það er því ákveðið að allir noti Windows. Ég hef unnið við að selja og þjónusta IBM tölvur síðastliðin fimm ár. IBM ThinkPad er vinsæl Linux vél en IBM selur ekki ThinkPad án Windows. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég hef oft verið spurður hvort ekki sé hægt að sleppa Windowsinu og fá einhvern pening endurgreiddan. Stutta svarið er nei. Langa svarið er nei, farðu og hættu að vera með þessa vitleysu. Það er nefnilega þannig að Windows er tekið alvarlega og önnur stýrikerfi ekki. Linux er fyrir forritara og nörda og Mac OS X er fyrir hönnuði og homma. Það var skylda um tíma að setja Windows á allar seldar tölvur (nema Apple) hér í Hollandi. Það var ekki hægt að fara í neina búð og kaupa gluggalausar tölvur. Tölvur sem voru settar saman á staðnum urðu að koma með Windows. Það var gengið út frá því að þú myndir nota Windows og svona var hægt að tryggja að þú borgaðir fyrir það.

Eins og ég minntist á hef ég unnið með IBM tölvur undanfarin ár. Sú var tíðin að kaupandinn fékk sérsmíðaðan Windows disk með tölvunni. Hann virkaði ekki á aðrar tölvur. Það hefði því mátt halda að lausnin væri komin. Windows diskur sem eingöngu er hægt að nota á tölvuna sem hann var hannaður fyrir. Ég get vottað að þessir diskar (kallaðir preload CDs) virka alls ekki á aðrar tölvur.

Þetta var samt ekki nóg fyrir Microsoft. Það var því komið með annað kerfi. Óuppsett Windows, preloadið, var sett á harða diskinn. Þetta virkar þannig að diskinum er skipt í tvennt. Segjum að hann sé 80GB. Þú sérð u.þ.b. 60GB þar sem Windows og önnur forrit eru. Þetta er C: drifið. Hvar eru hin 15-20 gígabætin? Þau eru falin og þú getur ekki notað þau. Þar eru Windows diskarnir þínir. IBM og Microsoft segja að þetta sé ekkert mál því ef þú þarft að setja upp Windows aftur potarðu bara í ThinkVantage takkann (F11 virkar líka) og þú getur sett upp Windows frá grunni. Það er ekkert minnst á að þér er seld tölva með 80GB en aðeins 60GB eru sjáanleg. Er það ekki að stela? Svo ef harði diskurinn deyr er Windows líka dáið. Þú getur keypt nýjan harðan disk en það er ekkert Windows á honum. Hvað nú? Hringja í IBM? Þeir hjálpa þér ekki. Þetta er Microsoft vandamál. Hringja í Microsoft? Þjónar engum tilgangi, þetta er OEM útgáfa, talaðu við IBM. Nú er tvennt sem hægt er að gera. Kaupa Windows aftur þrátt fyrir að hafa borgað fyrir það þegar tölvan var keypt, eða fara á netið og finna ólöglega útgáfu.

Ég var Windows notandi í rúm 10 ár og er reyndar enn þar sem ég er ennþá að vinna við þetta IBM dæmi. Ég notaði þetta af því að allir aðrir gerðu það. Ekki að maður sé endilega að elta fjöldann, heldur eð þetta bara það sem maður gerir. Þú borðar, sefur, vinnur og notar Windows.

Ég skil ekki lengur hvað er svo spennandi við Windows að fólk leggi á sig allt það vesen sem fylgir því þegar Linux útgáfur eins og Ubuntu og fyrirtæki eins og Apple eru til. Það er sennilega ekki af því að þetta er þeirra val, heldur er búið að velja fyrir okkur.


Disaster Looms...

Góð grein um stórslysið. 

 


Föt í Gammeldag

Stuttmyndin. Undirbúningur er í gangi. Íslenskir bloggarar hafa talað og tungumálið er að komast á hreint. Ég er búinn að ákveða mig á hvaða tungumáli hún verður, en ég þarf bara að sannfæra sjálfan mig áður en ég geri það opinbert.

Hitt er aftur annað mál og alvarlegra. Mikið af myndinni gerist fyrr á öldum. Það þýðir því ekki að mæta í gallabuxum með tyggjó. Ég er ekki að segja að fólk þurfi að vera í peysufötum, en 1850 þarf að líta út eins og 1850. Það er hér sem ég hef rekist á hvað getur verið erfitt að undirbúa kvikmynd án þess að vera á staðnum sjálfur. Netið hefur breytt heiminum en það hefur ekki komið í staðinn fyrir mannleg samskipti.

Brýnasta verkefni á næstu vikum er að sjá til þess að fólk, staðir og hlutir líti út eins og þeir hefðu gert á þeim tíma sem myndin gerist. Ég vona að lausn verði fundin áður en ég kem til landsins, og ef ekki, þá vona ég að mér takist að negla það á þeim dögum sem ég hef áður en einhver öskrar ACTION!


Gjaldfrjáls iPottabók á netinu...

Datt í hug að deila þessu með lýðnum. iPottar eru vinsælustu vasadiskóin nú til dags og eiga þá margir, eins og gefur að skilja þegar um svona vinsæla vöru er að ræða. Hér er hægt að niðurhala, eða dánlóda, 194 blaðsíðna bók um pottinn endurgjaldslaust.

Njótið. 


Hver drap rafbílinn?

Fyrst maður er á svona eco-trippi...

Who Killed The Electric Car? 


Colbert - valdamesti maður heims?

Ég hef gaman af því að horfa á The Daily Show þegar ég er í Bandaríkjunum. Fastur þáttur er The Colbert Report, fréttaskýringar sem líta út fyrir að vera alvara en er hárbeitt grín.

Það má segja að Stephen Colbert hafi náð hátindi ferils síns í lok apríl þegar honum var boðið að tala í árlegri veislu í Hvíta Húsinu sem haldin var til heiðurs fréttamönnum. Forsetinn sat undir ískaldri gagnrýni í hálftíma án þess að geta gert neitt í því. Hann brosti til að byrja með en var orðinn stjarfur undir lokin. Sennilega einn versti hálftími í forsetatíð W.

Þetta ættu allir að sjá: http://video.google.com/videoplay?docid=-869183917758574879 


2000 kall á Selfoss

Þreföldun besnínverðs yrði spennandi. Á Íslandi yrðu áhrifin takmörkuð, 1760 krónur að keyra á Selfoss miðað við 320 kr. á lítran og 10 lítra á hundraðið. Það myndi kosta hátt í hálfa milljón að fara hringinn.

En eins og ég sagði er þetta ekkert stórmál. Sum lönd nota olíu til húshitunar og þau eru í djúpum...

Það er bara að vona að Pinky and the Brain sjái að sér. 


mbl.is Stríð við Íran gæti þrefaldað olíuverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Íslandsvinir tímasóun?

Ég var að finna síðu Íslandsvina. Þetta er hópur sem lætur sér annt um náttúru Íslands. Hægt er að ná í lítinn bækling á síðunni þar sem sjónarmiðum þeirra er komið á framfæri. Þau koma með góð rök á móti stóriðju og mæli ég með að allir lesi þetta skjal, hvort sem þeir eru með eða á móti. Sé maður á móti frekari stóriðjuframkvæmdum styrkist mður í þeirri trú við lesturinn. Sé maður meðfylgjandi frekari framkvæmdum ætti maður að geta komið með mótrök. Ef svo er ekki, þá er kannski kominn tími til að hugsa málið.

Ég minntist á tímasóun í titlinum. Að berjast fyrir landi sínu er auðvitað hetjudáð, ekki tímasóun. Að vera annt um náttúru Íslands og jarðar yfirleitt ber vott um þroska. Svoleiðis sé ég það allavega. Þegar stjórnlaus græðgin tekur völd og öllu má fórna fyrir skyndigróðann ber það varla merki um þroska. Við erum að tala um skyndigróða því svo til öllum fyrirtækjum er stjórnað með skammtímasjónarmið í huga. Við verðum að græða í ár, segir frmkvæmdastjórinn, því annars missi ég vinnuna þegar fjárfestarnir pirrast. Það að stóriðja á Íslandi sé fjárfesting í framtíðinni er bull. Þesi fyrirtæki fara um leið og þau geta grætt meira annars staðar.

Hvað um það, tímasóun? Á síðu Íslandsvina er hægt að skrifa undir áskorun þar sem stjórnvöld eru beðin um að hætta frekari stóriðju og fara að einbeita sér að því að byggja upp þjóðina, gera Ísland samkeppnishæft á sviðum sem virkilega skila arði, að sjá til þess að íslendingur framtíðarinnar þurfi ekki endilega að vera verkamaður í verksmiðju. Það er auðvitað gott og gilt að standa að svoleiðis undirskriftasöfnun, en ég hef mínar efasemdir. Þó að 150.000 undirskriftir safnist, mun það skipta einhverju máli? Munu stjórnvöld snúa við blaðinu? Munu þau hætta við áform sem unnið hefur verið að áratugum saman eða verður þetta einfaldlega endurunnið og notað sem skeinibréf?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband