26.2.2007 | 22:12
Hver vill sjá myndina?
Eins og bloggvinum og öðrum er sennilega ljóst, er stuttmyndin Svartur Sandur um það bil tilbúin. Við erum ennþá að laga og bæta, en þetta eru smáhlutir sem pússast af með fínum sandpappír. Það eru ennþá smá vandamál með hljóð sem verða leyst í vikunni, örfáir staðir þar sem klippingin hefði mátt vera pínulítið öðruvísi.
Nú er spurningin einfaldlega, er eitthvað varið í ræmuna? Er þetta frábær mynd sem mun umbylta íslenskri kvikmyndagerð eða er þetta della, tímasóun fyrir alla sem komu að þessu? Hvorugt sennilega, en hvar á skalanum er hún? Ég get ekki dæmt um það. Ég samdi handritið, framleiddi og leikstýrði, hélt yfirleitt á kamerunni. Ég er svo samdauna myndinni að ég hef enga hugmynd um hvað fólki mun finnast um hana. Þannig að...
Ég var að spá í að fá vel valið fólk, sem þekkir mig og minn hugsanahátt sama og ekkert, til að horfa á myndina þegar hún er tilbúin. Hún er gerð á Íslandi, fyrir íslendinga. Ég hef hins vegar engan aðgang að íslendingum í mínu daglega lífi. Þessi síða er því staðurinn til að finna fólk sem maður þekkir lítið sem ekkert. Ef lesendur þessa bloggs vilja sjá myndina þegar þar að kemur, eftir 1-2 vikur, er um að gera að láta mig vita. Þetta er auðvitað endurgjaldslaust, en fólk verður að skrifa mér og segja mér hvað því fannst um myndina. Var hún vel gerð eða amatörsleg, spennandi eða leiðinleg, auðskiljanleg eða óskiljanleg? Skildi hún eitthvað eftir sig og þá hvað? Hvað hefði mátt vera öðruvísi? Það er sem sagt hægt að sjá myndina endurgjaldslaust, en það þarf að vinna fyrir því.
Látið mig endilega vita á info@oktoberfilms.com ef áhugi er fyrir hendi.
20.2.2007 | 10:25
Svartur Sandur í vinnslu
Við erum á fullu að klára myndina. Enski, íslenski og hollenski textinn er tilbúinn og ég er að klára DVD valmyndina, menuinn, whatever. Myndin sjálf ætti svo að vera tilbúin um helgina.
Hvað um það, mér datt í hug að henda inn smá óopinberu sýnishorni. Þetta er DVD Main Menu. Voða einfalt, en gefur kannski einhverja hugmynd.
Svo er bara að koma myndinni fyrir augu almennings, og ykkar sem hafið fylgst með hér á blogginu.
16.2.2007 | 17:25
SVARTUR SANDUR
Nú fer alveg að koma að því, myndin, sem hefur bara verið kölluð myndin fram að þessu, er svo gott sem tilbúin. Ég var að koma frá klipparanum þar sem við horfðum á hana og töluðum um hvað þarf enn að gerast.
Það þarf enn að leiðrétta örfá klippimistök og fínpússa hér og þar. Það þarf að velja stafagerð svo að allir titlar líti rétt út og leiðrétta pínulítið, þar sem ég virðist ekki geta pikkað án þess að pota í vitlausan takka. Mitt eigið nafn var meira að segja vitlaust stafað. Svo þarf ég að þýða myndina á hollensku og gera íslenska, enska og hollenska textann tilbúinn fyrir prufudiskinn. Við gerum ráð fyrir að þessi vinna verði búin í vikunni og að við getum gert prufudiska eftir viku.
Það sem gerist næst er að við sýnum völdu fólki myndina og heyrum hvað það hefur um hana að segja. Ef það sér mistök verða þau leiðrétt. Ef eitthvað er einstaklega hallærislegt verður það lagað ef hægt er en látið standa ef ekki.
Hvað finnst fólki svo um nafnið sem ég er loksins búinn að finna? SVARTUR SANDUR eða BLACK SAND eins og hún verður kölluð í erlandi?
Svo er bara spurningin, hvar á maður að sýna hana fyrst?
11.2.2007 | 09:38
Mats stækkar en myndin ekki
Fyrst er það Mats. Honum gengur vel að aðlagast heiminum. Stundum er hann ósáttur við okkur, sérstaklega þegar við tökum hann úr öllum fötunum, en hann er yfirleitt ljúfur sem lamb, eða kind eins og hollendingar kalla börn.
Svo var ég að horfa á myndina í gær. Hún er næstum því tilbúin. Það voru nokkrir smápunktar sem þurfti að lagfæra, en ég held við getum farið í litaleik um helgina og textun og DVD hönnun í næstu viku. Þetta er allt að koma. Ég held hún sé orðin eitthvað styttri en hún var. Er ekki viss.
Meira seinna. Ef einhver veit um tímastrekkingartæki vil ég endilega fá svoleiðis.
7.2.2007 | 12:02
Mats Kilian
Eins og þeir sem reynt hafa vita, tekur nýtt barn allan tíma frá þér. Vinna og barn, það er allt sem lífið snýst um. Það er samt allt í lagi þegar barnið er eins ljúft og Mats. Hann tekur lífinu með jafnaðargeði og er bara sáttur á meðan frumþörfunum þremur er sinnt, bleyjum, mjólk og svefni.
Amman í föðurætt kom í heimsókn og náði að taka fimmþúsund myndir. Ég held henni hafi bara litist vel á. Það var allavega nóg um Gucci, Gucci, Gucci hjá henni. Spurning hvort hún sé að lofa upp í ermina. Annars er þetta strákur og á að fá Boss eða Armani, ef maður er að fara út í eitthvað merkjabull.
Það er skrítið að verða pabbi. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem ég kalla mig það, 10 dögum seinna. Þetta er svo mikil breyting. Allt er breytt. Veit ekki hvernig á að lýsa þessu, en ef reynslumeiri pabbar lesa þetta, endilega skrifið athugasemdir svo ég geti lesið hvernig mér líður.
Meira seinna. Ætli sé ekki bleyja bíðandi. Og svo var ég að fá stuttmyndina frá klipparanum. Þarf að horfa á hana og sjá hvort hún sé tilbúin eða hvort ég þurfi að biðja um fínpússningu.