Ruglukollar í hvítum sloppum ... burt með spillingarliðið

Leiðtogar töluðu og komust ekki að niðurstöðu um neitt nema að komast að niðurstöðu seinna. Hef ég heyrt þetta áður? Nei. Nei, ekki heyrt þetta áður.

Það á að draga lærdóm af. Lærdóm sem átti að draga af kreppunni upp úr 1929, hruninu 1987, netbólunni sem sprakk. Þð á alltaf að draga lærdóm, en á meðan græðgin er óheft lærum við ekkert.

Og þó. Kannski var einhver tilraun í gangi og við erum rotturnar.

Leiðtogarnir vilja auðvitað standa saman svo að allt fari ekki til gauksins með klær og hala. Allir standa saman á meðan ekki er étin sneið úr þeirra köku. Allir standa saman og gleyma litlu fíflunum á stóru bílunum á litlu eyjunni langt, langt í burtu.

Því enginn vill tapa spæninum úr sínum aski, hvað sem það kostar hina. 


mbl.is Gripið til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það besta sem væri hægt að gera til að draga lærdóm af íslenska hruninu 2008, væri einmitt að breyta því í einskonar hagfræðitilraun af áður óþekktu umfangi.

Hagfræðin sem fræðigrein nýtur takmarkaðrar virðingar af hálfu raunvísindamanna vegna meints skorts á raunverulegum rannsóknarniðurstöðum til staðfestingar þeim kenningum sem lagðar eru fram sem þar að auki nálgast viðfangsefnið oft á þann hátt að nánast ógjörningur er að sannreyna þær. Fyrir vikið hafa þróast ýmsar stefnur eða mismunandi hugmyndafræði sem menn leggja til grundvallar og byggja á enn fleiri kenningar, sem þróast svo jafnvel út í hálfgerð trúarbrögð eins og nýfrjálshyggjan er gott dæmi um. Gagnrýni af þessu tagi gengur jafnt yfir flest félagsvísindi sem standa oft frammi fyrir þeim vanda að kenningar þeirra séu á vissan hátt eftiráskýringar og þar með líklegar til að verða umdeilanlegar.

Raunvísindin ganga hinsvegar út á það að greina áhrifaþætti í tilteknu samhengi og lýsa virkni þeirra síðan almennt á sem nákvæmastan hátt með kenningu eða tilgátu, sem svo sé hægt að staðfesta eða kollvarpa á nokkuð óyggjandi hátt með því að framkvæma tilraun þar sem niðurstaðan reynir á forspárgildi tilgátunnar. Feitletruðu orðin eru þannig gerð til að leggja áherslu á hversu mikilvægt það er skv. hinni vísindalegu aðferð að því sem kenningarnar segja á pappír beri saman við raunveruleikann. Ef ekki er hægt að smíða tilraun sem leiðir í ljós hvort kenning sé röng er hið gagnstæða oft illmögulegt þ.e. að smíða tilraun sem sannar á tæmandi hátt að kenningin sé rétt. Nokkur dæmi um slíkar tilgátur sem hvorki er hægt að sanna né afsanna á tæmandi hátt:

  • Guð er til en þegar hann skapaði heiminn gætti hann þess vel að skilja ekki eftir nein ummerki um tilvist sína.
  • Guð (ef hann er til) er í raun veru góður, þær þjáningar sem hann lætur okkur jarðarbúa þola eru einungis prófraun á trúfestu okkar við hann.
  • Við lifum öll (eða sum okkar) í sýndarveruleika.

Á Íslandi búum við hinsvegar yfir þeim einstöku aðstæðum að sökum smæðar þjóðfélagsins og víðtækrar opinberrar skráningar á öllum viðskiptum er raunverulega sá möguleiki fyrir hendi að rannsaka allar þessar upplýsingar og vinna úr þeim. Niðurstöðurnar gætu t.d. leitt í ljós helstu áhrifaþættina sem leiddu íslenska bankakerfið út í ógöngur sem og aðrar áður óþekktar hliðar þjóðhagsmála. Það sem gerir þennan möguleika sérlega aðlaðandi er hversu útbreidd og langt á veg þróun sjálfvirkra upplýsingakerfa er komin hér á landi. Við erum netvæddasta þjóð í heimi og notkun greiðslukerfa, heimabanka o.þ.h. er óvíða meiri en hér. Upplýsingarnar eru því allar fyrir hendi, það eina sem þarf að gera er að safna þeim saman og greina þær. (Og kannski vona að ekki verði búið að eyða eða breyta neinum lykilstaðreyndum áður en til þeirra næst.)

Það má vel vera að við séum bara rottur í einhverri tilraun. Íslenska hagkerfið, jafnvel þegar það var upp á sitt "besta", var t.d. ekki hálfkvistingur á við marga stóra alþjóðlega fjárfestingarbanka og slíka aðila. Ef einhver væri svo sjúkur í hugsun að ætla sér að sviðsetja meiriháttar efnahagshrun vestræns hagkerfis í tilraunaskyni með "lifandi" tilraunadýrum, dramatík ög öllu, þá gat Ísland örugglega talist mjög hagkvæm staðsetning fyrir slíka aðgerð. Svo hefur líka verið sagt einhversstaðar að svona atburðir gerist aldrei fyrir tilviljun þó svo að á yfirborðinu sé það ekki alltaf augljóst. Ef rétt reyndist þá væri það svo semekki í fyrsta skipti sem íslenska þjóðin er höfð að tilraunadýrum, minnumst fyrirtækis sem heitir DeCode og fékk á sínum tíma afar umdeilda himinháa ríkisábyrgð sem talið var að mætti rekja til persónulegrar góðvildar milli Kára Stefánssonar og Davíðs Oddssonar. Var það ekki á vissan hátt ákveðið fordæmi sem markaði upphafið að spillingunni í kjölfar einkavæðingarinnar?

 Góðar stundir, og lengi lifi Ísland!

Guðmundur Ásgeirsson, 9.11.2008 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband