Pönkstrætó

Rosalega er gamli strætó fallegur. Liturinn er hrikalegur, en það fer samt sæluhrollur um mig við að sjá hann. Ég man eftir grábrúna víniláklæðinu sem var kroppað í og plokkað þar til svampurinn kom í ljós og útkrotað og brennt. Ég held þessir vagnar hafi verið lengi í umferð, vel fram yfir 1980.

Pönkstrætó fylgir lúðri

Það var flottast að sitja aftast. Þeir sem sátu fremst voru kennarasleikjur og fífl sem lærðu heima. Alveg eins og í kennslustofunum. Gðmlu konurnar sátu í miðjunni. Stundum fremst þó.

Um svipað leyti og við fluttum upp í Breiðholt voru íslendingar loksins að fatta pönkið. Þetta kom sér illa fyrir mig, því ég þurfti oft að taka strætó. Ég fluttist neðar í fæðukeðjunni, því allir sem voru ekki pönkarar voru hræddir við pönkara og ég var allt of ungur til að vera pönkari. Pönkararnir sátu aftast og krotuðu á sætin og skáru það með vasahnífum. Stundum kveiktu þeir líka í sætunum. Þeir spýttu líka á gólfin. Aftasti þriðjungur vagnanna var þeirra svæði og enginn hætti sér þangað, vildi hann ekki enda með nælu í nefinu.

Svo man ég eftir að seinna vildi borgin kaupa einhverja Skódaútgáfu að strætó. Þeir voru kallaðir Ikarus. Hálf skondið, því Megas hafði gefið út pönkplötu undir nafninu Ikarus. Svona passar lífið yfirleitt við sjálft sig.

Nú eru komnir gulir vetnisstrætóar sem enginn tekur.

Hefur annars einhver spáð í hvað orðið lúður er fyndið? 


mbl.is Gamli og nýi strætó á rauðum dregli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Ég ók strætó 1986-88 og þá voru þessir vagnar ennþá notaðir sem varabílar þannig að þeir voru að minnsta kosti í notkun í tuttugu ár og líklega aðeins lengur.

Einar Steinsson, 19.9.2008 kl. 16:11

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það kemur mér ekkert á óvart. Mér fannst þeir vera eilífir. Komnir í umferð áður en ég fæddist og enn í notkun um það bil sem ég var að fikta við að velta fyrsta bílnum. Gott ef þeir voru ekki líka gulir undir lokin, þó ég muni það ekki.

Villi Asgeirsson, 19.9.2008 kl. 19:00

3 Smámynd: Einar Steinsson

Það voru einhverjir þeirra málaðir gulir.

Einar Steinsson, 19.9.2008 kl. 19:59

4 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

JÁ Villi ef maður er Reykvíkungur og yfir hvað? Hefur maður ferðast með strætó.Mamma, mín fædd 1922 ferðast með gráum strætó, ég  með gulum. Á tíma voru þeir svona grængulir en fyrir mér hafa þeir alltaf verið gulir

Jórunn Sigurbergsdóttir , 20.9.2008 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband