22.11.2006 | 11:52
Maður án nafns II - The Möppudýr Strikes Again
Eins og hægt var að lesa hér, áttum við í smá veseni við möppudýr hér í Hollandi þegar við vildum votta að hinn óborni ungi sé minn og að ég muni koma til með að sjá um hann. Möppudýrið á skrifstofunni vildi meina að ég héti ekkert og án nafns gæti ég ekki átt barn. Ekki að ég væri alveg nafnlaus, heldur að ég bæri ekkert eftirnafn. Ég skal fúslega viðurkenna fyrir hverjum sem er að ég ber ekki ættarnafn, en að ég hafi ekki eftirnafn er auðvitað bara della.
Það var sem sagt engin leið að fá "manninn" til að skilja að eftirnafn mitt væri eftirnafn. Ég hafði samband við Þjóðskrá (takk mamma) og þau sendu mér bréf á ensku sem vottar að Ásgeirsson sé eftirnafn mitt. Glæsilegt, hugsa ég með sjálfum mér og panta tíma hjá Sýslumanni. Við þurfum bæði að mæta, svo hún tók sér frí í vinnunni í tilefni dagsins. Við mætum á sýslumannsskrifstofu klukkan níu með vegabréfin og hið gullna bréf merkt Þjóðskrá.
Til að gera stutta sögu langa get ég sagt að þetta gekk ekki upp. Við sáum sama möppudýrið standandi þarna. Hann sagði góðan morgunn án þess að meina það. Tók vegabréfin og pappírana og ljósritaði og spurði svo hvenær við vildum koma til að votta faðernið. Núna, segi ég og velti fyrir mér hvaða bull sé nú í gangi. Nei, það er ekki hægt. Ef ég leiðrétti eftirnafnið þitt í kerfinu verðum við að bíða þangað til á morgun. Ókei, slepptu þá að leiðrétta nafnið og vottum faðernið. Ég get komið seinna án hinnar óléttu móður til að leiðrétta kerfið. Nei, það er ekki hægt. Það verður að leiðrétta kerfið fyrst og það tekur dag. Af hverju sagður þú það ekki fyrr? Hún tók sér frí til að koma hingað. Af hverju spurðir þú ekki, svaraði hann og snéri við í átt að tölvunni. Hann pikkaði eitthvað og sagði svo að við gætum komið afur á morgun til að votta faðernið.
Við létum hann heyra að við værum ekki sátt og snérum við til að fara. Viljið þið bóka tíma til að ganga frá faðerninu, heyrði ég rödd hans segja fyrir aftan okkur. Nei, sagði ég, fyrst verður hún að sjá hvenær hún getur tekið sér frí aftur. Verður sennilega í desember, bætti hún við. Gleðileg jól.
Nú er bara að sjá hvenær hún kemst úr vinnu til að redda þessu. Ég hefði getað farið í gær til að ganga frá nafninu svo að allt væri klárt í dag. Máli er bara að þessi mannfýla virðist hafa gaman að því að gera fólki lífið leitt. Skiptir ekki máli, við göngum frá faðerninu og kvörtum svo í sýslumann. Þessi maður er ekki starfi sínu vaxinn.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Maðurinn er leiðindapúki og fífl.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 23.11.2006 kl. 21:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.