Einhverskonar heimsendir

Mannkynið er á tímamótum. Eftirstríðsárin eru að renna sitt skeið. Árin 1945-2012 verða sennilega dásömuð í framtíðinni. Þegar fólk átti nóg af öllu, nóg var til af olíu og vatni. Nýtt tímabil er að renna upp. Betra eða verra? Erfitt að segja til um það.

Það er svolítið spaugilegt að fylgjast með stjórnmálamönnum tala um lausnir. Núverandi kerfi virkar ekki og á meðan við búum við það, munu engar lausnir finnast. Flest lönd heimsins eru að sligast undan skuldaklafa, en þó virðist enginn eiga skuldirnar. Hvernig getum við öll skuldað? Einfalt. Tökum bandaríska kerfið sem dæmi. Flest peningakerfi heimsins eru byggð á sömu hugmynd.

Segjum að ríkinu vanti 100 krónur. Það fær krónurnar lánaðar hjá seðlabankanum. Þessar krónur fara í umferð, við fáum þær í laun, eyðum þeim í verslunum og borgum skatta. Eftir ár vill ríkið endurgreiða lánið sem það tók hjá seðlabankanum. 100 krónur og 3% vextir. 103 krónur. Hvaðan koma krónurnar þrjár? Þær eru ekki til, því ríkið gaf þær aldrei út. Ríkið þarf því að taka annað lán til að borga vextina. Nú eru 103 krónur í umferð, svo þær eru 3% minna virði en í fyrra og við skuldum vextina. Verðbólga. Leyfum þessu að gerjast í 100 ár og útkoman er sú að flest lönd jarðar eru að drukkna í skuldum. Það ætti að vera augljóst að við getum aldrei borgað niður skuldirnar, því við verðum að taka lán til að borga vextina.

Allt tal um að kreppunni sé að ljúka var því bull og gat aldrei staðist. Þetta vissu fjármála- og forsætisráðherrarnir sem nú tala hissa um að við séum að taka aðra dýfu. Annaðhvort vissu þeir að dýfan kæmi, eða þeir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Þrjú prósent virkar kannski ekki mikið, og stundum eru vextirnir lægri. Hvað er vandamálið? Málið er að vextirnir bætast ofan á vextina. Þrjú prósent í dag eru töluvert hærri tala en þau voru fyrir 10 árum.

Hér er lítil saga sem sýnir hvernig ríkisskuld hefur þróast. Segjum að þú sért með tvö glös og poka af salti. Þú setur eitt saltkorn í glasið á fyrsta degi. Tvö á öðrum degi, fjögur, svo átta. Eftir 27 daga er glasið kvartfullt. Á 28 degi er það hálft. Dagur 29 og glasið er fullt. Á þrítugasta degi eru glösin bæði full. Svo eru það fjögur glös, átta glös.

Skuld sem virðist lítil í upphafi endar sem risavandamál. Það kemur að því að kerfið ræður ekki við meiri skuld og þá hrynur það. Við erum komin að þeim punkti. Á meðan valdhafar setja plástur á beinbrotið og segja sjúklingnum að ganga, grær brotið ekki. Það er ekki nóg að auka við skuldum í formi styrkja, "bailout" eða hvað þetta heitir. Við erum að berjast við eld með eldi. Auka við skuldabirgðina.

Við verðum að hugsa dæmið upp á nýtt. Draga djúpt andann. Við getum ekki borgað okkur út úr þessum vanda. Við verðum að finna upp nýtt kerfi. Við erum á tímamótum, erum að upplifa einhverskonar heimsendi. Komandi mánuðir verða erfiðir, en það er undir okkur sjálfum komið hvað bíður okkar handan við þrengingarnar.


mbl.is Heimurinn á barmi nýrrar kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband