Hvíl í friði, Nýja Ísland.

Atburðarrásin fyrir ári síðan var eins og í bíómynd. Leynifundir að næturlagi, heilt þjóðfélag ryðar til falls en enginn James Bond eða Jack Ryan til að bjarga því. Það sem tók við voru svo hrikalegar hamfarir að enginn gat ímyndað sér að svoleiðis gæti gerst. Stjórnmálamenn horfðu í kringum sig, klóruðu sér í hausnum og reyndu að sparsla í þetta.

Þjóðin sameinaðist í sundrunginni, allir reyndu að gera sitt. Nú myndum við standa saman og búa til þjóðfélag sem við virkilega vildum lifa í. Gamla Ísland var hrunið. Kominn tími til að byggja Nýja Ísland. Það sem gerðist var þó að það var settur plástur á báttið og allt átti að verða eins og fyrir hrun. Við búum enn á Gamla Íslandi, en hripleku. Við bíðum eftir að kafbáturinn sem sökkti okkur komi og bjargi okkur. Velkomin í ESB.

Ég var og er erlendis, svo ég gat ekki veifað fána og barið á pott. Ég setti upp síðuna Nýja Ísland. Hugmyndin var að safna upplýsingum um hrunið og ástæður þess, búa til samfélag þar sem fólk gæti talað um landið sem það vildi byggja upp og safna nógu mörgum meðlimum til að geta haft áhrif. Ástæða þess að síðan varð til varð henni að falli. Ég var ekki á Íslandi og gat ekki kynnt hana almennilega. Hún lifði í einhvern tíma, en var farin að safna kóngulóarvefjum upp úr áramótum. Lítið sem ekkert hefur gerst á spjallinu síðan þá.

Ísland fékk nýja stjórn sem er jafnvel verri en sú fyrri. Við fengum nýjan stjórnmálaflokk sem sprakk svo í loft upp nokkrum vikum eftir kosningar. Bankamennirnir og útrásarvíkingarnir eru enn að fjárfesta meðan þeir eru ekki sötrandi kokkteila á snekkjunum. Þjóðin er sokkin í skuldafen og hefur hvorki áhuga né þrek til að synda. Hún bíður eftir að einhver hendi í hana kút, einhverjum stóra sannleik sem mun leysa öll okkar vandamál. Jóhanna virðist trúa því að hún hafi fundið kútinn, en skilur ekki að hún er að strjúka tundurduflinu.

Síðan Nýja Ísland verður ársgömul um miðjan október. Þá þarf að endurnýja lénið og það kostar pening sem er ekki til. Hrunið er spennusaga sem endaði illa. Nýja Ísland mun engu um það breyta. Við komumst út úr þessu einhvern daginn, með eða án einhverrar heimasíðu.

Nýja Ísland, hvíl í friði. 


mbl.is Rauðri málningu slett á hús Hreiðars Más
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband