Vegna umsóknar um pláss...

Velkomin inn í hinn staðlaða heim ESB þar sem allir sitja prúðir í sínum staðlaða kassa, kaupa staðlað grænmeti*, lesa staðlaðar leiðbeiningar og keyra á stöðluðum hámarkshraða. Inngönguferlið er líka staðlað. Ekki útgönguferlið þó. Okkur hefur ekki komið saman um hvernig best er að segja sig úr ESB og höfum því enga staðla þar að lútandi. Þar til svo verður, er ekki hægt að segja sig úr sambandinu. Við biðjumst afsökunar á öllu ónæði sem kann að verða að þessu, en erum viss um að fulllur skilningur ríki meðal þegna vors.

Við í ESB skiljum að þið séuð öðruvísi en aðrar þjóðir, en allar þjóðir eru örlítið öðruvísi en aðrar. Þar af leiðandi höfum við þurft að staðla háttarlag, umbúðir og allt sem fólk gerir, kaupir og segir svo að okkur komi saman. Það er ekki einfalt mál að láta 27 þjóðir með mismunandi menningu og sögu syngja sama sönginn, en það hefur þó tekist með því að staðla allt. Enginn er fyllilega ánægður með lífið í ESB, en enginn er neitt sérstaklega óánægður heldur. Lífið er bara eins og það er og ef þú ert ósammála, getur þú fyllt út eyðublað og málið verður tekið fyrir við fyrsta tækifæri.

Ég veit að þið viljið sér meðferð, þið viljið halda fiskinum og orkunni og öllu því. Við skiljum þetta allt saman og munum reyna allt sem við getum til að hjálpa ykkur, svo framarlega sem það snertir ekki við stöðlunum okkar.

Það hjálpar ykkur auðvitað ekki að koma svona skríðandi á hnjánum. Þið hefðuð átta að koma þegar allt var í gúddí (orði eytt, stenst ekki staðlaða málfræði, vinsamlega breyta). Þið hefðuð ekki átt að setja ykkur svona upp á móti okkur. Og regla númer 1 2 og 3, ekki pirra Þýskaland, Bretland eða Frakkland. Í þessari röð.

Annars óskum við ykkur til hamingju og hlökkum til að ræða málin á þar til gerðum eyðublöðum sem fást á skrifstofum Alsherjarnefndar ESB í Brussel. Þau kosta 20.000 evrur og óskast fyllt inn í þríriti. Tekið er fram að fylla þarf inn eitt eyðublað fyrir hvern íbúa Íslands, tvö ef um börn innan 12 ára aldurs er að ræða, eða fólk komið á eftirlaun. Ekki er nauðsynlegt að fylla inn eyðublöð fyrir fólk á aldrinum 25-35 ára með lán sem nema 2.5 sinnum árstekjum, því það mun flytja frá Íslandi innan fimm ára.

Bestu kveðjur frá ESB 

*Athugið að nýlega var ESB reglum um grænmeti breytt. Agúrkur þurfa ekki lengur að vera teinréttar. Æskilegt er þó að þær séu ekki bognari en sem svarar 27° og séu jafn sverar frá einum enda til annars, nema endarnir sjálfir, sem teljast vera 7.5% heildarlengdar gúrkunnar. Tómatar í einni pakkningu mega nú vera misstórir, þó má ekki muna meira en 12% í þyngd á léttasta og þyngsta. Þeir skulu allir hafa sama pantone gildi (lit).


mbl.is Umsókn metin á staðlaðan hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband