17.3.2009 | 14:19
Grænmetisæta?
Svo er fólk ennþá hissa þegar ég segist vera grænmetisæta.
Ég hætti að éta két fyrir mörgum árum þegar kom í ljós að kýr eru látnar éta kýr í mjöli því það er eitthvað ódýrara en að gefa þeim kýrvænt fóður. Hér á meginlandi Evrópu lifa dýr við hroðalegar aðstæður. Milljón kjúklingar sitja saman með nefið í annars rassi því það er ekkert pláss til að hreyfa sig.

Svín eyða sínu lífi í stýjum og sjá aldrei dagsljósið, nema kannski síðustu 24 tímana sem það tekur að keyra þau í sláturhúsið. Þau eru nefninlega oft flutt þúsundir kílómetra til slátrunar svo það megi setja á þau Made in... miða þess lands sem best er að eiga við skattalega séð, eða gefur möguleika á nafni eins og Parmaham eða eitthvað álíka. Oft lifa þau ferðina ekki af vegna þorsta eða hnjasks. Það er í raun sama hvar drepið er niður, alls staðar er framkoman við skepnurnar til háborinnar skammar. Um daginn heyrði ég af kjúklingabúi sem var að byggja nokkurra hæða hænsnahús fyrir 10 milljónir kjúklinga. Það kom víst betur út peningalega séð. Svo hef ég ekki einu sinni minnst á andalifrarkæfuna sem ekki er hægt að framleiða nema pynta dýrin til dauða.
Þessi frétt gerir ekkert nema styrkja mig í þeirri trú að ég hafi tekið rétta ákvörðun fyrir öllum þessum árum. Ég er ekki á leiðinni í fleskið á næstunni. Ætli ég eigi nokkurn tíma eftir að styðja þennan atvinnuveg aftur?
![]() |
Grísir soðnir lifandi í Svíþjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2009 | 08:38
Þökk sé Bob og Bono? - Nýlendustefna okkar tíma.
Í Afríku er nóg af gulli og demöntum, olíu og ræktarlandi. Þetta ætti því að vera ein ríkasta heimsálfa á jörðinni. Þó er hún sú fátækasta. Fáir búa við verri kjör en þeir sem vinna við það sem best gefur af sér, demantagröft og olíuvinnslu. Vesturlönd sjá til þess að Afríka haldist fátæk. Við viljum auðlindirnar á okkar kjörum og okkar skilmálum.

Þegar hinn almenni vesturlandabúi fær nóg og fer að rífa kjaft, er farið af stað með söfnun svo byggja megi trúboð sem útbýta hrísgrjónum og fiskimjöli svo fólkið þurfi ekki að drepast alveg. Í staðinn er því kennt hvernig Guð skapaði heiminn á viku og hvernig sonur hasn kom til að bjarga oss frá illu. Þeim líka.
Þetta virkar ekki. Afríka er jafn fátæk og hún var fyrir LiveAid hljómleikana í júlí 1985. Það er sama hversu mikið við gefum, það dugar ekki til. Ég get gefið fátækum manni að borða daglega, en ef ég gef honum ekki tækifæri til að bjarga sér sjálfum, mun hann koma á hverjum degi og biðja um meira.
Drop the Debt virtist vera falleg hugmynd. Loksins átti að fella niður skuldir svo afríkuríkin gætu byrjað upp á nýtt og komið sér upp úr skuldafeninu. Live8 var sett upp 2005, Bob Geldof barðist af krafti og Bono lét auðvitað sjá sig, enda sér hann sig sem einhvern mannúðarmessías (í boði BlackBerry). Pólitíkusar töluðu um bjartari framtíð og jafnrétti ríkjanna. En hvað gerist? Pólitíkusar og stjórnendur stórfyrirtækja geta ekki verið góðir, þeir geta ekki fellt niður skuldir og látið það duga. Nei, hugsunarhátturinn "what's in it for me" verður seindrepinn.
Til að skuldir verði felldar niður, verður viðkomandi land að taka upp vestræna viðskiptahætti. Fella niður innflutningstolla, því það er svo gott fyrir frjáls viðskipti. Eftir áratuga fátækt er kannski um 70% landsmanna kotbændur. Þeir framleiða korn og hrísgrjón og selja á mörkuðum nálægt heimilinu. Þegar öll innflutningshöft eru fjarlægð, fyllist markaðurinn af niðurgreiddum landbúnaðarvörum frá Evrópu og Bandaríkjunum. Okkar vörur eru ódýrari því ríkið er þegar búið að greiða hluta framleiðsluverðsins. Kotbændurnir geta ekki keppt, bregða búi og flytjast í fátækrahverfi í útjaðri stórborganna. Hefur líf þeirra batnað við að ríkið losnaði við skuldirnar? Nei, þvert á móti.
Þegar megnið af fátækum kotbændunum eru farnir á hausinn og fluttir burt, er það einfalt og ódýrt fyrir stórfyrirtæki á vesturlöndum og í Kína að kaupa upp heilu löndin í Afríku. Það kemur sér vel eftir 10-20 ár að eiga mikið ræktarland, því við horfum fram á gríðarlega fjölgun mannkyns, fólks sem þarf að éta. Ofan á það bætist græna hreyfingin sem heimtar græna orku. Biofuel verður að framleiða og þá þarf mikið flæmi lands.
Það er því engin tilviljun að stórfyrirtæki, og jafnvel erlend ríki, séu að kaupa upp land í Afríku akkúrat núna. Þetta er fjárfesting til framtíðar.
![]() |
Kínverjar kaupa upp Afríku í kreppunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |