Mugison kvikmyndaður í Hollandi

Það er um að gera að skrifa svolítið um Mugison hljómleikana á föstudag. Ég ætlaði að bæta við síðustu færslu með athugasemd, en það hefði orðið langloka og þær geta verið svo sóðalegar.

MugisonStageÉg og Hans Ris, aðstoðarmaður minn þegar ég er ekki aðstoðarmaður hans, mættum á svæðið um átta leytið. Við gengum inn í salinn. Ég hafði búist við tveimur kassagítörum, svipuðu dæmi og Murr Murr í Gargandi Snilld. Það sem blasti við var eitthvað allt annað. Salurinn var enn tómur, þar sem hljómleikarnir áttu ekki að byrja fyrr en um 22:30, en sviðið var fullt af hljóðfærum sem ég hafði ekki átt von á. Þarna stóð trommusettið og fimm rafmagnsgítarar, auk magnara og annars dóts sem á auðvelt með að bræða hvaða kamerumæk sem er. Barþjóninn leit á okkur með lævíslegu brosi. Ætlið þið að taka þá upp með þessu, spurði hann og benti á hljóðneman á vélinni. Já. Gangi ykkur vel. Þeir eru háværir.

Við hittum hljómsveitina og viti menn, þeir voru fjórir, ekki tveir. Ég hentist heim og náði í sumarfrísvélina, litlu Canon vélina sem ég nota aldrei nú til dags. Jú, það var hleðsla á henni. Við hentumst til baka og náðum að setja hana á þrífót fyrir ofan sviðið. Svo var bara að vona það besta.

Hljóðið úr báðum dýru vélunum var vonlaust. Þetta hefði verið flott á þjóðlagatónleikum, en ekki hér. Til að koma í veg fyrir truflanir og prump höfðum við báðir lækkað í þeim, en við fengum lítið hljóð með prumpi. Gamla Canon vélin stóð sig best, kannski af því hún var ekki í beinni línu við hátalarana og það er hljóðið sem við notuðum.

Hans tók teipin með sér heim og klippti eins og óð fluga. Hann hringdi í mig á mánudagsmorgni og sagðist vera búinn að klippa alla hljómleikana. Ég fór í heimsókn og við dáðumst af þessum rosalega tónlistarmanni.

Þetta var hverrar mínútu og bensíndropa og kasettu virði. Það er vonandi að við náum að vinna saman aftur í framtíðinni og þá við eitthvað meira en youTube rugl, eins og Mugi kallaði þetta verkefni.

Læt svo hitt myndbandið, Mugiboogie, fylgja með þessari færslu. Ef þið viljið kíkja á þetta í betri gæðum, farið hingað og veljið lag. Potið svo í "watch in high quality" undir myndbandinu.


Íslendingar Erlendis

Ég keypti Heima fyrir nokkrum vikum síðan og gerðist Sigur Rós aðdáandi með það sama. Myndin er gullfalleg, tónlistin og myndir af Íslandi passa saman. Ég er viss um að flestir íslenskir tónlistarmenn séu pínulítið öfundsjúkir út í hljómsveitina og kvikmyndagerðarmenn út í leikstjórann. Ég veit að þetta er mynd sem ég hefði viljað gera.

En það eru fleiri íslendingar að leggja undir sig heiminn. Björk er auðvitað löngu búin af því, en Mugison er líka að gera góða hluti. Ég tók upp hljómleika í Haarlem, Hollandi á föstudag. Tvö lög eru komin á netið, Mugiboogie og Jesus is a Good Name to Moan. Kíkið á hið síðarnefnda hér að neðan. Klikkið svo hér til að fara inn á youTube rásina mína svo þið getið séð bæði myndböndin og valið betri gæði.

 



Það má svo taka fram að Sigur Rós mun spila í Amsterdam í haust. Ég býð hér með fram þjónustu mína.
mbl.is Sigur Rós langsamlega best á Latitude
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband