11.4.2008 | 21:19
Að fórna sér fyrir börnin
Þegar sú ákvörðun að eignast barn er tekin, veit maður að það þarf að fórna ýmislegu á meðan það er að vaxa úr grasi. Þetta á sennilega sérstaklega við um fyrstu árin. Það hefur margt farið öðruvísi en ætlað var á síðustu tveimur árum. Ég hef ætlað að gera margt en ekki farið í það vegna tímaskorts. Ég byrjaði til dæmis að skrifa handrit í fullri lengd fyrir um ári síðan, en ég hef aldrei komist í að klára það því alltaf er nóg að gera í kring um barnið. Þó hef ég reynt að vinna sem mest í kvikmyndagerðinni til að halda dæminu gangandi. Mest hafa þetta verið verkefni fyrir aðra. Hún hefur þó þurft að taka þriðja sætið, á eftir barnauppeldi og launaðri vinnu.
Í dag varð ég að gefa frá mér skemmtilegt verkefni. Mér var boðið að ferðast um Evrópu í þrjár vikur og kvikmynda merkilega staði. Þetta átti svo að nota í kynningarmyndbönd. Mér voru boðin góð laun með fullu uppihaldi. Hefði barnið ekki verið til staðar væri ég farinn.
Mats er auðvitað þess virði og ég hika ekki við að setja hann í fyrsta sæti, en þetta hefði verið skemmtilegt ævintýri. Við förum bara saman í Evrópuferð þegar hann hefur vit á því.