hugMYNDAsamKEPPNI

Kæri lesandi. Viltu sjá nafn þitt í bíómynd?

Athygli mín hefur verið vakin á því að skrifstofuhúsnæði í grennd við mig, sem staðið hefur autt í 15 ár, mun verða rifið fljótlega. Staðsetningin er skemmtileg. Lítill vegur liggur að þessu húsi. Tvær vöruskemmur sem eru í notkun standa við hliðina á því, en þar fyrir utan er ekkert nema tré að sjá. Þetta er ástæðan fyrir fyrirhuguðu rifi. Staðsetningin er afskaplega óhentug fyrir skrifstofur, en það gerir þetta auðvitað að frábærum tökustað fyrir kvikmynd.

Þetta er tækifæri sem kemur ekki oft. Ef mér tekst að hósta upp nógu góðri sögu, vil ég taka upp kvikmynd í þessu húsnæði áður en það er rifið.

Mig vantar hugmynd að kvikmynd. Ekki endlega handrit eða úthugsaða sögu. Bara hugmynd sem hefur eitthvað sérstakt. Eitthvað til að koma mér af stað.

Sá eða sú sem kemur með hugmynd sem ég get notað mun að sjálfsögðu verða minnst í kvikmyndinni. Kannski meira.

Endilega gerið athugasemdir hér að neðan og látið hugmyndirnar koma. Skiptir ekki máli hversu bjánalegar þær virðast, láttu það flakka. Hún gæti verið neistinn sem kemur skriðunni af stað. Eða þannig.


Veljum íslenskt? You too!

Það er gott að lesa um að fólk sé að versla heima og velja íslenskt. Sumir segja mér kannski að þegja, að þeir hefðu frekar viljað fara erlendis og að einhver hafi haft utanlandsferðina af þeim. Það er þónokkuð til í því. En úr því sem komið er, er gott að fólk tekur sig saman um að minnka innflutning eins og hægt er og styðja innlenda framleiðslu. Undanfarin ár voru blekking og því varla hægt að bera framtíðina saman við þau. En ef við tökum rétt á nútímanum, getur framtíðin orðið björt.

Ég hef talað um að sparka spillingarliðinu, svo ég held mig nú við annað. Sprotana. Það er ýmislegt hægt að gera. Menningin kemur í huga, því þar er ég að rembast. Ég var að klára kvikmyndarhandrit og get farið að undirbúa tökur. Þetta strandar auðvitað á peningum, eins og flest. Kvikmyndagerð er dýrasta listform sem hægt er að fara út í. Ég hef minnst á það áður, en ég fór að skoða vefsíðu Kvikmyndamiðstöðvarinnar. Sú stofnun getur séð framleiðanda fyrir 50% framleiðslukostnaðar. Allt í lagi með það, en það sem stendur í mér er að lágmarks kostnaður við myndina verður að vera 50 milljónir. Einhvers staðar las ég að Börn hafi verið gerð fyrir 200.000 dali, um 23 milljónir á núverandi gengi. Það þarf því engar stórar upphæðir ef handritið er þannig skrifað að framleiðslukostnaði sé haldið í skefjum. Kvikmynd sem kostar um 20 milljónir, er vel skrifuð og leikin á auðvitað mikið meiri möguleika á að skila hagnaði en dýrari mynd. Hún ætti líka að hafa meiri möguleika á að verða framleidd, því áhætta fjárfesta er minni.

Stærsti kostnaðariður í kvikmyndagerð eru laun. Sá kostnaður skilar sér því beint út í þjóðfélagið, a.m.k. þegar um íslenska leikara er að ræða. Filmukostnaður er einnig stór hluti, en stafræn tækni er nú komin á það plan að hægt er að sleppa filmum alfarið án þess að það komi niður á gæðum. Ég myndi því vilja sjá fleiri kvikmyndir fyrir þann pening sem til er. 4-6 kvikmyndir á ári er gott fyrir okkar litla þjóðfélag, en hvað ef við gætum þrefaldað þá tölu? Þar með værum við komin með þrefalt meiri möguleika á tekjum, hérlendis og erlendis, fyrir sama tilkostnað. Ég tala ekki um þau menningarverðmæti sem myndu skapast.

Gott kvikmyndahandrit er ekki bara grunnurinn að kvikmynd. Það er góð saga, og sem slík ætti hún að geta virkað sem bók. Þetta sést oft erlendis, þar sem bækur eru skrifaðar upp úr handritum og gefnar út um það bil sem myndin er frumsýnd. Íslendingar eru duglegir við að skrifa, og það sem meira máli skiptir, gæði íslenskra bókmennta eru með því besta sem gerist. Eins og sést hefur á útgáfum erlendis undanfarið eru íslenskar bækur vinsælar í Evrópu. Er ekki spurning með að stórefla þýðingar og markaðssetningu á íslensku menningarefni, bókum, kvikmyndum og tónlist, erlendis? Eins og kerfið er nú, eru allir að vinna í sínu horni. Hvað er væri til stofnun eða fyrirtæki sem hjálpaði íslendingum að koma sínu efni að heima og heiman? Málið er ekki bara að við veljum íslenskt, heldur er um að gera að fá útlendinga til þess líka.


mbl.is Jólaverslunin færist heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband