31.12.2007 | 11:41
Nýársvarp
Góðir íslendingar og aðrir,
Nú árið er liðið, að mestu. Þetta hefur sennilega verið hraðskreyðasta ár í mínu lífi. Ég man hvernig ég drakk mig ekki fullan í síðustu viku til að halda upp á hið nýja ár, 2007. Ég man hvernig ég pikkaði færslu þar sem ég sagði frá öllu því sem ég ætlaði að gera á árinu. Það varð auðvitað ekkert af neinu, nema að ég man eftir að hafa farið á klósettið einu sinni. Restin er eitt stórt blör, svört hola sem gleypti allt. Þannig lagað.
Á árinu 2007 var ég með svipað í tekjur og fyrstu tvo mánuði 2006. Ég sagði nebbla upp vinnunni og ákvað að gerast kvikyndagerðarmaður. Það hefur ekkert með pening að gera, virðist vera, því ég fór í hlutastarf og það er ennþá að borga reikningana... þannig lagað. En var 2007 gott ár? Sjáum til.
Í janúar fæddist unginn. Ég var varaður við að hann myndi umturna öllu og að áætlanir mínar myndu breytast hraðar en. Það var rétt. Hann er sætur og góður, en étur upp allan minn tíma, fyrir utan það þegar ég er að rembast við að nappa pening á Schiphol flugvelli. Kvikmyndagerð? Þetta er að breytast í tómstundagaman án tómstunda. Við komum í heimsókn til Íslands í apríl til að halda upp á afmæli afa. Sambúð vor var vígð í Skotlandi í júní. Kisan dó í haust og við fengum okkur nýja.
Ekki gerði ég heimildamynd um Rúmeníu. Stuttmyndin var ekki tilbúin fyrr en í ágúst. Kvikmyndin í fullu lengdinni er ekkert annað en hálfklárað handrit. Ég hjálpaði þó við gerð tveggja hljómleikamynda þar sem gamlir raggíguðir frá Jamæku komu fram í Hollandi, þeir Winston Francis og Alton Ellis. Einnig gerði ég tólf myndbönd fyrir hollendinginn Rick Treffers, sem eru sýnd meðan hann spilar lög af nýútkomnum diski sem enginn hefur heyrt. Við erum svo að fara út í að gera alvöru myndband við lag af diskinum fyrrnefnda.
2008? Veit ekki. Ég er hættur að rembast, í bili. Handritið er enn í vinnslu og ég er með slatta af hugmyndum, svo einn daginn verður myndin gerð. Svo hitti ég stelpu um daginn. Við fórum að tala og það fæddist hugmynd. Gæti verið stórskemmtilegt. Hvað gerir geimvera á jörðinni ef hún kemst ekki til baka? Þessi hugmynd varð til eftir að Svarti Sandurinn fór á netið. Við vildum sjá hvort hægt væri að taka það dæmi, dreifingu á netinu, lengra. Meira um það seinna, en ef þú veist hvað strönduð geimvera myndi gera meðal oss, láttu endilega vita.
Sem sagt, 2007 skilur eftir blendnar tilfinningar og 2008 er óvissan ein. Sjáum til.
Vér óskum öllum óbrenndra áramóta og gleðilegs árs.
![]() |
Ráðleggur hvernig efna megi nýársheitin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)