Paul McCartney segir sóðabrandara

Góður þessi. Paul gerir grín þrátt fyrir erfiða tíma. Kannski þess vegna sem þetta er svona ljótur brandari.

Annars hef ég verið að hlusta á nýju plötuna, Memory Almost Full, og verð að segja að hún er virkilega góð. Þegar maður setur einn besta lagahöfund allra tíma í klípu er ekki að því að spyrja. George er dáinn, John er dáinn, Linda dó eftir þrjátíu ára hjónaband. Hann giftist aftur en það fór á versta veg. Sennilega með það í huga samdi hann eitt besta lag sitt frá upphafi, House of Wax (hlustið í spilaranum hér til hliðar). Hann er að eldast og veit af því, eins og kemur fram í The End of the End. Tíminn hefur hlaupið frá honum og allt sem eftir er eru myndir (That Was Me). Svo er auðvitað sama hvað hann gerir, allt er borið saman við Bítlana (My Ever Present Past).

Ég hef lítið fylgst með honum undanfarin ár. Að vísu fór ég á hljómleika með honum fyrir 3-4 árum og kom hann virkilega á óvart. Ég hafði búist við hálf hallærislegum og jafnvel væmnum hljómleikum, en það var alls ekki. Hann gerði betur en flestir, ef ekki allir, sem ég hef séð og ég hef séð marga. Þar á meðal flesta gömlu rokkarana sem enn eru að.

Af 13 lögum á diskinum líkar mér ekkert sérstaklega við tvö. Þá eru 11 góð lög eftir, 4-5 sem eru meðal þess besta sem hann hefur gert. Þessi diskur er hverrar krónu virði.

Ég legg það ekki í vana minn að skrifa plötudóma og ég hef aldrei sett lag í spilarann á Moggablogginu, en þessi diskur kom mér svo á óvart að ég varð að segja frá því. Svo varð ég að koma brandaranum að. 


Bloggfærslur 30. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband