4.9.2006 | 14:13
Saga Myndarinnar - IV - Eftirvinnsla
Það er komið að því. Tökum er lokið og ég er farinn aftur til Hollands. Það er ansi súrsæt tilfinning og nú segi ég af hverju.
Súr I: Ég er horfinn af landi brott. Ég hélt ég hefði svo mikinn tíma en hann flaug auðvitað út um gluggann eins og fis í norðanstrekking. Ég ætlaði að gera svo margt, hitta svo marga, fá mér bjór með gömlum vinum en það fór allt fyrir lítið. Það væri gaman að koma heim í hálfan mánuð og hafa nákvæmlega engin plön. Þá hittir maður kannski einhvern.
Súr II: Það var frábært að geta heimsótt fjölskylduna þegar ég vildi eða hafði tíma til. Það var gaman að hitta fólk fyrir tilviljun hjá öðrum, fólk sem ég hef ekki séð í 15-20 ár. Það sem ég sakna mest við að búa erlendis er fjölskyldan og íslenski óformleikinn. Þetta er eiginlega sætt en ég set það undir súrt því ég sakna þess núna.
Sæt I: Ég átti frábærar fjórar vikur heima. Kvikmyndatökurnar gengu vel, veðrið var gott, stundum of gott og aldrei slæmt. Allir sem snertu verkefnið gerðu það betra, það var ekkert rotið epli í hópnum. Það er gott að vita til þessa fólks næst þegar mér dettur í hug að taka eitthvað upp heima.
Sæt II: Ég kom til Hollands með 11 klst. af efni. Þetta þarf að klippa niður í hálftíma, laga liti, láta semja tónlist við og setja á DVD svo það sé tilbúið til sýningar. Ég er hálfnaður með að koma efninu inn í orkueplið (PowerMac) og geri ráð fyrir að geta farið að klippa seinna í vikunni. Ég ætla að byrja á að grófklippa myndina svo að sagan komist til skila. Ég er orðinn ansi spenntur að sjá hvað kemur út úr þessu.
Hvað um það, ég hef engan tíma til að blogga og það sést á þessari færslu, svo ég fer núna. Annars get ég sagt að ég vissi það fyrir en fékk það staðfest í þessari ferð að það er sama hvað maður býr lengi erlendis, maður er íslendingur og verður ekkert annað. Bless.