4.8.2006 | 10:44
Að smíða kvikmynd
Þá er komið að því. Síðasti dagurinn í vinnunni í dag og flugið í fyrramálið. Ferðin byrjar með langþráðum endurfundum en vinnan byrjar fljótlega eftir það.
Ég var að klára að setja saman endanlegt plan fyrir tökur. Fundir með leikurum og tökuliði strax eftir helgi og svo hefjast tökur fyrir næstu helgi. Síðustu atriðin verða svo tekin upp þriðjudaginn 22 ágúst. Þetta eru sem sagt um tvær vikur sem fara í þetta. Þess á milli get ég bara verið í mínu eigin landi innan um fjölskylduna.
Hugmyndin er að blogga eitthvað hérna á komandi vikum, en ég hef sennilega minni tíma til þess en hingað til. Það væri þó gaman að koma einhverjum myndum og sögum á netið. Spurning með að uppfæra heimasíðuna líka. Kominn tími á það. Kannski ég vinni í því í flugvélinni á morgun.
Að gera kvikmynd er mikið verk og það getur svo margt farið úrskeiðis. Þá á ég ekki bara við fótbrot og aðra hluti sem koma í veg fyrir að verkið verði klárað, heldur litla hluti sem gera myndina ekki eins góða og ætlunin var. Þetta var vandamálið í fyrra. Ég skrifaði handrit og leikstýrði mynd, The Small Hours. Sagan var ekki svo slæm, en það var enginn tími til neins. Ég gubbaði út handritinu, sem var svo endalaust í vinnslu, þar á meðal eftir að tökur hófust. Þær hófust reyndar um viku eftir að ég gubbaði upp hugmyndinni. Það var því enginn tími til að gera neitt, plana neitt. Myndin var gerð og margir segja að hún sé góð, en ég var aldrei sáttur. Sagan eins og ég sá hana komst ekki nógu vel til skila og leikurinn rétt náði að vera þokkalegur. Þetta var auðvitað allt mitt, allir sem að myndinni komu stóðu sig sem hetjur. Það var bara enginn tími til að vanda til verks.
Það verður svo sannarlega annað uppá peningnum í þetta skiptið. Við tökum okkur nægan tíma í að ná hverju atriði eins og það á að vera. Ég hef valið leikara með reynslu og tökustaði sem krydda söguna. Þar fyrir utan hefur þessi saga verið skrifuð, endurskrifuð, legið í tunnu og svo tekin upp aftur, yfirfarin og endurskrifuð aftur. Ég hef sem sagt gert allt sem ég get til að þessi mynd heppnist sem best. Nú er bara að nota tökudagana og gera sitt allra besta og vona að svona óvenjuleg saga höfði til einhverra.
Allavega, hlakka til að komast heim. Meira seinna.