15.8.2006 | 00:23
Sagan um Myndina - fyrsti bútur
Tökur eru hafnar. Myndin er farin af stað. Þetta er mikil vinna og mikið að gera en þetta er rosalega gaman. Það get ég þakkað fólkinu sem er að gera þetta með mér.
Ég kom til landsins fyrir rúmri viku og hitti hópinn. Ég efast um að ég hefði fengið betra fólk til að vinna með þó ég hefði haft fjárlög á við Dirty Harry himself.
Við vorum með æfingar á föstudag og ég vissi strax að ég var heppinn með hópinn. Anna Brynja og Jóel lifðu sig inn í hlutverkin og það var ekki hægt að heyra að þau voru að fara með línur sem höfðu verið skrifaðar einhverjum mánuðum fyrr. Kiddi var líka með tæknimálin á hreinu og það léttir mitt verk mikið. Ég vil þakka Erlingi Gíslasyni og Brynju konu hans fyrir aðstöðuna.
Tökur hófust á laugardag við Eiríksstaði í Haukadal. Eiríkur Rauði byggði bæinn upphaflega en hann var endurbyggður á aldamótaárinu 2000. Hann er mjög vel gerður og kemur mjög vel út á mynd. Það eina sem ég sé eftir er að lyktin í bænum kemst ekki til skila til áhorfenda.
Laugardagurinn var flóknasti dagurinn að mörgu leyti. Anna Brynja og Jóel þurftu að vera ung og gömul. Það fór því mikill tími í förðun, en Sonja sannaði að hún getur gert kraftaverk. Við vorum líka með tvo aukaleikara, Oddný sem lék ömmuna og Kristín Viðja var yngri útgáfa af Önnu Brynju. Þær stóðu sig báðar frábærlega. Hver veit, kannski sjáum við meira af Viðju. Hæfileikarnir eru fyrir hendi. Kiddi var ómissandi, eins og ég hafði búist við. Ef hann var ekki að aðstoða við tökur, var hann hlaupandi um allt takandi myndir. Þetta var líka löng keyrsla. Þetta var því langur og erfiður dagur en það var ekki að sjá á fólkinu. Ég veit að þessi hópur á eftir að skila af sér góðri mynd.
Meira seinna... þetta er bara rétt farið af stað.