25.7.2006 | 09:40
John Lennon
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað John Lennon væri að gera ef hann væri á lífi. Hvað hefði hann gert hefði Mark Chapman ekki myrt hann í desember 1980?
Við vitum að hann var nýbúinn að gefa út plötuna Double Fantasy. Það er ekki eins vel þekkt að hann var á leiðinni til Englands til að hjálpa bæði George og Ringo með sóloplötur sem þeir voru að vinna að. Þar að auki var hann langt kominn með næstu sólóplötu, Milk and Honey. Hún var kláruð eftir andlát hans og gefin út árið 1984.
Þá er það fantasían. Vorið 1981 er hann búinn að hjálpa ex-Bítlunum tveimur. Hann fer aftur til NY að klára sína eigin plötu. Hún kemur út á haustmánuðun 1981 og selst nokkuð vel. Hann spilar á örfáum hljómleikum í kring um jólin en tekur ekki í mál að fara í alvöru hljómleikaferð.
Um vorið fer Lennon aftur í hljóðver. Upptökur eru kláraðar síðla sumars og platan kemur út fyrir jólin 1982. Hún selst minna en fyrri plötur og Lennon dregur sig í hlé. Sean er átta ára og John finnst hann ekki hafa sinnt honum nógu mikið síðustu þrjú árin. Haustið 1983 bankar gamall kunningi, Elton John, upp á hjá honum. Hann vill ólmur fá Lennon til að syngja inn á nýjustu plötuna en John er ekki svo viss. Elton tekur nei ekki í mál og John lætur til leiðast. Lagið er gefið út á smáskífu í byrjun árs 1984 og selst vel. Þeir spila saman á einum hljómleikum. 1984 fer í að ferðast um Bandaríkin og reyna að fá fólk til að kjósa Reagan út úr Hvíta Húsinu. Hann semur lag og tekur það upp með George Harrison og Eric Claption. Herferðin er mikið í fréttum, Lennon er maður ársins að mörgu leyti, en Reagan nær þó endurkjöri. John hjálpar líka syninum Julian með fyrstu plötuna.
Í ársbyrjun 1985 hittast þeir John, George og Eric aftur. Ætlunin er að fylgja eftir smáskífunni frá árinu áður. Þetta átti að vera 2-3 lög en vatt fljótt upp á sig og í apríl voru 14 lög komin á band. 10 laga platan kemur út í byrjun júní 1985, gengur vel, og er fylgt eftir með lítilli hljómleikaferð um Bretlandseyjar. Þeir koma meðal annars fram á Live Aid. George og Eric vilja halda áfram og fara um Evrópu og Bandaríkin, en John hefur ekki áhuga á því. Það eru háværar raddir um að Bítlarnir skuli koma saman á árinu til að halda upp á 45 ára afmæli Johns, 25 ára afmæli Hamborgar ævintýrsins og 15 ára afmæli Let it Be, en enginn Bítlanna segist hafa áhuga.
"Lennon in the Movies!". Í lok 1985 tekur Lennon að sér að framleiða mynd um afleiðingar Víetnam stríðsins. Hann leggur til fjármagn og nafn sitt. Hann ferðast til suð-austur Asíu á vormánuðum 1986 og talar við Bandaríska hermenn um sumarið. Klipping fer fram um haustið og er myndin frumsýnd samtímis í London og Washington í byrjun desember 1986. Í kjölfar myndarinnar ferðast Lennon um heiminn, fer á eins konar fyrirlestratúr. Í mars fer hann með fjölskylduna til Bahama eyja og nýtur sumarsins við Karabíska hafið.
Haustið 1987 hringir síminn. Það er svarthærður íri sem vill ólmur fá goðið til að koma fram með hljómsveit sinni. John er ekkert á því að koma fram á sviði og segir nei. Eftir margar símhringingar ákveður hann þó að skoða málið, þar sem þessi ungi maður virðist hafa eitthvað til málanna að leggja. Eftir að hafa séð U2 á hljómleikum slær Lennon til og kemur fram með þeim í Madison Square Garden í lok september 1987.
Hann smitast af ákafa þeirra, sér að baráttan fyrir friði lifir enn og ákveður að taka til hendinni á ný. Hann tekur upp tvö lög með U2 í Sun Studios, sem eru seinna útgefin á Rattle & Hum. Lennon lokar sig af í íbúðinni í NY í tvo mánuði og gerir ekkert annað en að semja lög. Nýja platan er tekin upp á sex vikum í byrjun 1988. Hvert lag er fullkominn áróðurssöngur fyrir betri heimi. Lennon leitar uppi tólf leikstjóra og lætur gera stuttmynd (frekar en myndband) við hvert lag af plötunni. Nýjasta afurðin kemur svo út í júlí 1988 á vínyl, geisladisk og myndbandi. Viku fyrir útgáfuna er myndin sýnd í 30 kvikmyndahúsum um allan heim. Aldrei þessu vant ákveður Lennon að fara í hljómleikaferð. Hann ferðast um allan heiminn frá júlí 1988 til mars 1989. Lagavalið er 45% nýtt efni, 35% sólo og 20% Bítlalög. Ferðin er mjög vel heppnuð, þó sumir kvarti yfir að hafa ekki fengið að heyra meira Bítlaefni.
Árið 1989 eru blikur á lofti í austur Evrópu. Lennon ferðast um álfuna og predikar ást og jafnrétti. Þegar múrinn fellur um haustið er hann í Berlín.
Framhald seinna...?
Þessi færsla var innspíreruð af þessu.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)