Gleðileg Jól

Jólin voru einn af þessum föstu hlutum í lífinu. Þau voru alltaf á sama tíma og þau voru alltaf eins. Við fórum í kirkjugarðinn til að heilsa upp á liðna ættingja og fórum svo í bíltúr að smala pökkum. Stundum kom fólk með pakkana sjálft. Það var horft á teiknimyndir, því það virðist sem tíminn hafi liðið hægar í þá daga. Aðfangadagur var auðvitað sá dagur sem lengst var að líða. Klukkan sló svo sex og allir settust við borðið og átu lambahrygg. Svo voru það pakkarnir, konfekt, smákökur. Á jóladagsmorgun var svo fengið sér heitt súkkulaði með smákökum í morgunverð.

Jólin voru alltaf eins. Einu sinni borðuðum við svín og það komu engin jól. Ekki af því að svínið hafi verið slæmt, það var bara ekki jólamaturinn.

Ég flutti erlendis 1993 en ég sá til þess að ég kæmist heim um jólin. Það breyttist þegar ég flutti til Hollands. Nú var maður farinn að búa og þurfti að útskýra, rökræða og hliðra til. Jólin komu ekki lengur á aðfangadag, heldur á jóladag. Pakkarnir voru opnaðir þegar allir sáu sér fært að vera á einum stað í einu, stundum þremur dögum eftir jól. Það var erfitt að útskýra fyrir íslendingunum heima hvers vegna maður væri ekki búinn að opna gjafirnar sem þau höfðu sent.

Nú er komin einhver regla á þetta. Jólin koma ennþá á jóladag. Þau fatta aðfangadag ekki. Þau fara alltaf í kirkju á aðfangadagskvöld, svo að þau eru í allt annari pælingu. Á jóladag hittumst við svo, étum og opnum pakka. Ég verð að gefa konunni það að hún gerir sitt besta á hverju ári til að koma einhverjum hátíðarbrag á jólin, en það vantar bara eitthvað hér í Hollandi. Kannski er það af því að fólk skreytir voða lítið. Kannski þriðja hvert hús hér í götunni er skreytt ljósum, þau eru öll hvít og slökkt á þeim á daginn. Sum blikka. Kannski er þetta ekki þeim að kenna. Það er lítil hefð fyrir jólum í Hollandi. Er þetta kannki einhver fortíðarþrá í mér. Kannski eru það ekki ljósin og lambið sem maður saknar á jólum.

Jólin eru eins falleg eða eins óspennandi og við gerum þau. Jólin eru ekki hátíðleg að sjálfu sér. Jólin, eins og lífið, eru það sem við gerum úr þeim. Verum góð við hvort annað um jólin og á nýju ári.

Gleðileg Jól! 


Bloggfærslur 23. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband