Færsluflokkur: Spil og leikir
11.4.2007 | 12:28
Aðfaraflokkurinn III
Fyrir um ári síðan skrifaði ég tvær færslur þar sem Aðfaraflokkurinn var kynntur. Því miður hef ég verið vant við látinn og kosningabarátta okkar ekki fengið þá athygli sem nauðsynleg er til að komast í Kastljós. Við munum því ekki komast á kjörseðla heldur. Hér til vinstri hef ég því sett upp skoðanakönnun þar sem fólki gefst kostur að kjósa þann flokk sem það vill. Þetta eru okkar mini-kosningar. Aðra flokka þekkja lesendur sennilega, svo ég læt mér nægja að kynna stefnuskrá Aðfaraflokksins
Áttir og Meðlimir:
Aðfaraflokkurinn sér sig hvorki sem vinstri eða hægri flokk. Það er kerfi er löngu úrelt. Dæmi hver fyrir sig hvar við erum. Athugasemdir eru vel þegnar svo við getum valið lit á lógóið. Meðlimir flokksins eru ekki á veggspjöldum hér og þar því við trúum því að stefnumál, ekki sæt fés og vinapólitík skipti máli.
Fjárlög og Skattar:
Skattar munu haldast óbreyttir. Ísland er ekki það ofurskattland sem það var. Við viljum sem minnst aðhafast beint á vinnumarkaði, en ríkið hefur sínar skyldur sem því ber að sinna og þar þarf fjármagn til.
Almannaheill:
Spítalar, dagheimili, skólar og almenningssamgöngur skulu vera á vegum ríkisins. Einkavæðing banka og margra fyrirtækja er hið besta mál, en stofnanir sem fara með almannaheill skulu ekki einkavædd því það stríðir gegn þjónustuhlutverki þeirra. Þau eru best sett sem eign þjóðarinnar.
Landsvirkjun má undir engum kringumstæðum verða einkavædd.
Langvarandi atvinnulausir (3 mán.) skulu eyða þremur dögum í viku á þartilgerðum skrifstofum þar sem þeim er veittur aðgangur að blöðum, netinu og ráðgjöf. Eftir 12 mánaða atvinnuleysi er fólki sköffuð atvinna, sem getur verið allt frá gatnavinnu til hreingerninga og annars viðhalds á almannastöðum. Enginn á að þurfa að vera atvinnulaus á Íslandi.
Atvinnumál:
Atvinnuleysi er hverfandi á Íslandi. Flestir vinna hjá fyrirtækjum sem ekki eru rekin af ríkinu. Þetta er stefna sem Aðfaraflokkurinn mun fylgja og skerpa. Ríkið hefur það hlutverk að hlúa að fyrirtækjum, sérstaklega sprotafyrirtækjum, og skapa umhverfi sem hvetur einstaklinga og fyrirtæki til að skapa auðævi. Hátækni- og ferðamannaiðnaður munu fá sérstakan stuðning því fjölbreytni og menntun er lykillinn að bjartri og öruggri framtíð.
Stóriðja:
Stóriðja á rétt á sér upp að vissu marki. Því marki hefur verið náð og mun Aðfaraflokkurinn beita sér fyrir stoppi á frekari virkjun landsins. Ástæðurnar eru þrjár:
- Náttúra landsins er meira virði en það sem fæst fyrir rafmagn í stóriðju. Sé svo ekki nú, verður það svo í náinni framtíð og er því engin ástæða til að eyða þeim möguleika fyrir fullt og allt
- Menntaðir íslendingar vilja fjölbreytt atvinnulíf. Þó að vinna í álveri sé ekki endilega slæm eru sennilega flestir sammála því að fjölbreytt atvinnulíf er meira virði en einhæft.
- Þeir peningar sem ríkið annars hefði fjárfest í stíflum er betur varið í aðrar atvinnugreinar. Erlend lán og þensla er ekki að borga sig, vextir eru of háir, aðrar framkvæmdir eru látnar sitja á hakanum.
Innflytjendur:
Ísland er frjálst og opið land. Fólki er því frjálst að flytjast hingað ef það vill. Þó skal það vera skilyrðum háð:
- Allir innflytjendur skulu tala íslensku innan tveggja ára. Ríkið mun sjá til þess að allir geti sótt námskeið. Þótt það sé ekki skylda að sæjka námskeið, skulu innflytjendur þó þurfa að standast próf.
- Á Íslandi ríkir trúfrelsi. Fólki er ekki mismunað eftir trú, en trú gefur heldur engin auka réttindi.
- Sömu atvinnuleysisreglur skulu gilda um alla. Innflytjendur munu þurfa að vinna til að eignast rétt á bótum á Íslandi.
Alþjóðamál:
Ísland er friðsamt land og þjóðin skal gæta fyllsta hlutleysis á alþóðavettvangi. Þetta þýðir þá líka að Ísland mun ekki taka þátt í stríði, nema það sé bundið til þess, svo sem með NATO sáttmálanum. Ísland skal aldrei styðja innrás í annað land.
Þetta er fyrsta uppkast svo ég hef sennilega gleymt einhverju, en athugasemdir eru vel þegnar og ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.11.2006 | 12:03
Fyndnasti bloggarinn er...
Niðurstöðurnar eru komnar inn. Þetta var mjög spennandi. Allir þrír bloggararnir náðu að vera með flest stig einhverja dagana. Stundum voru þau öll þrjú hnífjöfn. Þetta byrjaði þannig að Kamilla var efst og bar af. Engin samkeppni. Svo náði Gunnar henni. Fljótlega náði Gerður Rósa honum. Kamilla tók þá forskot en Gerður náði henni aftur.
Alls voru greidd 61 atkvæði. Staðan þegar kosningu lauk, á hádegi föstudaginn 24 nóvember 2006 var...
Gunnar Helgi Eysteinsson er sigurvegari! TIL HAMINGJU! Hann vann með 39.3% atkvæða.
-
Gerður Rósa var oft og lengi með flest atkvæði en sprakk á lokasprettinum. Hún náði að krækja sér í 36.1% atkvæða. Spurning hvort það hafi verið grískir slefberar eða aðrir asnar sem töfðu fyrir henni.
-
Kamilla er einn skemmtilegasti bloggari sem sögur fara af. Og þvílíkar sögur! Hún fékk 24.6% greiddra atkvæða. Ég veit ekki hvað gerðist hér, því hún var yfir 30 prósentunum í gær. Það er allavega gott að vita til þess að hún lét ekki svna keppni á sig fá og gaf sig all í það um síðustu helgi að klára ritgerðina sem mun opna henni dyr um ókomna framtíð.
-
Þetta er sem sagt búið. Enginn kom með tillögur að vinningum svo það er ekkert í boði. Ég myndi góðlátlega bjóða Gunnari að gerast Bloggvinur en hann er það nú þegar svo það er kannski spurning að henda stelpunum út bara rétt á meðan hann er í sigurvímunni.
Takk allir og allar sem sáuð ykkur fært að kjósa! Farið nú og skoðið öll þrjú bloggin hér að ofan. Þau eru öll bráðskemmtileg.
20.11.2006 | 08:51
Fyndnasti bloggarinn er...
Fyrir einhverjum mánuðum síðan bað ég fólk að tilnefna fyndnasta bloggarann á Blog.is. Það er augljóst að það eru ekki margir fyndnir pennar hér, þar sem aðeins var stungið upp á þremur. Nema að bloggið mitt sé bara ekki vinsælla en svo að enginn hafi séð þessa færslu og þar af leiðandi ekki vitað af þessari samkeppni. Verum ekkert ap velta okkur upp úr því. Sannleikurinn getur verið pínlegur.
Það komust sem sagt þrír bloggarar í úrslit. Hægt er að kjósa hér til hliðar. Endilega potið í hlekkina hér að neðan og kynnið ykkur málið
Beitt og skemmtilegt sjálfsháð sem fáir leika eftir. (Galdrmeistarinn)
-
Gunnar Helgi Eysteinsson er nátturlega bara algjör snilld... (Petra)
-
...hún hefur sérlega skemmtilega sýn á hversdagsleikann. (Vala)
Svo má koma með athugasemdir þar sem stungið er upp á hvað skal vera í vinning. Ég náði ekki að hugsa dæmið svo langt.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.11.2006 | 21:59
SAMKEPPNI!!! - Fyndnasti bloggari á blog.is
Innflytjendur. Rasismi. Það er orðið svo þungt yfir öllu, eins og svart ský eftir pælingar liðinna daga. Það er eins og þjóðin sé komin í heilagt borgarastríð. Spurning með að koma með létta keppni til að létta lund í hinu meinta skammdegi sem virðist vera að leggjast yfir.
Spurningin er, hver er fyndnasti bloggarinn á blog.is?
Reglurnar eru einfaldar. Setjið inn athugasemdir hér fyrir neðan þar sem þið útnefnið þann bloggara sem fær ykkur til að hlægja. Það má útnefna fleiri en einn, þið getið jafnvel útnefnt ykkur sjálf. Eftir viku set ég svo upp skoðanakönnun hér til vinstri þar sem kosið verður.
Nú er bara að vona að undirtektirnar verði nógu góðar til að keppnin verði spennandi.