Kjósum með, ekki á móti.

Nú er að kjósa. Ef þú vilt ekki Ólaf áfram, er bara ein leið. Ef þú ert ekki með okkur, ertu á móti Nýja Íslandi. Þá styður þú hið gamla, með allri sinni spillingu.

Þetta er einföldun sem oft er slegið fram þegar þarf að hópa fólki um viss málefni. Virkar líka oft. En þetta er meingölluð hugmyndafræði sem elur á ótta. Ef við viljum nýtt Ísland, ef við viljum breytingar, verðum við að hætta að vera hrædd. Það er nefninlega svo auðvelt að stjórna þeim sem hræðast.

Það eru sex frambjóðendur á kjörseðlinum. Ekki tveir. Sex valkostir, með sínum kostum og göllum. Við höfum heyrt þau og séð, vitum nokkurn veginn hvað þau vilja gera verði þau kosin. Það er okkar að móðga ekki lýðræðið og kjósa þann frambjóðanda sem við viljum sjá á Bessastöðum. Ekki kjósa á móti þeim sem við viljum ekki, heldur velja þann sem við viljum. Segja já, ekki nei.

Það tók mig töluverðan tíma að ákveða mig, en ég hef ákveðið að Andrea er minn frambjóðandi. Hún er ekki hrædd við að nýta embættið til að hjálpa heimilunum í landinu. Hún er ekki hrædd við að slá á puttana á ráðherrum sem eru ekki að standa sig. Hún er ekki hrædd við að vera í beinu sambandi við stjórnvöld og setja fram tillögur ef þjóðin fer fram á það. Hún yrði virkur forseti, og það er nákvæmlega það sem við þurfum á komandi árum. Forseti sem er með fingurinn á púlsinum og veitir Alþingi aðhald. Forseti sem lætur sig afkomu og hamingju þjóðarinnar varða. Forseti sem tekur fólkið í landinu fram yfir fjármagnsöflin.

Ég er ekki að kjósa Ólaf með því að velja Andreu. Ég er heldur ekki að kjósa Þóru með því að kjósa ekki Ólaf. Ég er að kjósa jákvæðar breytingar.


mbl.is Tæp 30.000 atkvæði greidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með eða á Móti?

Ég var spenntur fyrir forsetakosningunum. Kominn tími á nýja manneskju og nýja tíma. Fékk þó fljótt leið á baráttunni. Valið stóð um núverandi forseta með sínum kostum og göllum og einhverskonar Vigdísi. Enginn minntist á alla hina frambjóðendurna. Enda áttu þeir aldrei séns. Eða hvað? Það munum við aldrei vita, því fjölmiðlar brugðust hlutverkinu.

Svo er þetta allt komið út í neikvæðni og us versus them. Við klúðruðum baráttunni.

Ég nota Apple tölvur. Hef gert síðan 2004. Ef einhver vill vita af hverju, get ég svarað já eða nei. Verið jákvæður eða neikvæður. Sagt að Makkinn sé frábær tölva, eða verið neikvæður og sagt að Windows sé drasl. Hvort virkar betur?

Reynum að láta þessa síðustu viku fyrir kosningar vara á jákvæðu nótunum. Það er svo miklu skemmtilegra og uppbyggilegra. Og kjósum þann sem okkur þykir bestur, ekki einhvern sem á séns á að koma höggi á þann sem okkur þykir verstur.


mbl.is Hvöttu Ara til að hætta við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband