Hrikaleg ógn við persónufrelsið

Fréttin segir sína sögu. Verði þessi lög að veruleika, munu öll samskipti á netinu verða hleruð og ritskoðuð. Sért þú með "óæskilegar" skoðanir, verðurðu settu(ur) undir smásjá. Yfirvöld munu engar heimildir þurfa, stórfyrirtæki í skemmtanabransanum geta rukkað þig fyrir að nota hluta úr dægurlagatextum. Vefsíður munu ekki geta fjallað um efni sem verndað er að höfundarétti. Wikipedia, youTube og Facebook gætu horfið, því enginn grundvöllur verður fyrir starfsemi þeirra.

Það sem mestu máli skiptir, er að netið verður eins og gamli sveitasíminn. Yfirvöld munu alltaf vita hvað þú ert að segja og gera.

Hér er myndband sem útskyrir í einföldu máli um hvað þetta snýr.

 

Og hér er hægt að setja sig á undirskriftalista gegn þessu skrímsli: http://www.avaaz.org/en/eu_save_the_internet/?tta 

Ég vona svo sannarlega að íslenskir þingmenn hafi rænu á að samþykkja þessi lög ekki. 


mbl.is ACTA verra en SOPA og PIPA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með ósk um gott gengi...

Ég get ekki sagt að ég sé ánægður með þessa ríkisstjórn. Hún hefur hingað til ekki staðið við stóru orðin. Gengdarlausar persónuárásir á þau fara þó hrikalega í taugarnar á mér. 

Kosningar nú yrðu stórslys. Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að grafa sínar skotgrafir og ynni sennilega stórsigur, þrátt fyrir að hafa siglt skútunni í strand fyrir þremur árum. Vonum að Jóhanna nái að klára sín mál svo að þjóðin geti átt möguleika á einhverskonar upprisu. Hægri stjórn nú væri ekkert annað en að fara aftur fyrir byrjunarreit.

Þó ég sé ekki stuðningsmaður þessarar stjórnar, óska ég þeim góðs gengis og vona að þau nái að klára sín mál. 


mbl.is Vill klára málin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver togar í strengi?

Eitt hefur ekki komið fram í þessu máli. Hver er á bak við tillöguna um að hætta við landsdómsmálið? Fékk Bjarni Ben þessa hugmynd sjálfur, eða var honum sagt að setja þetta mál fram? Sé svo, hver var það? Davíð? Geir sjálfur?

Ef einhver veit hvaðan hugmyndin að sleppa þessu kom, væri ég meira en til í að heyra hana. 


mbl.is Tillagan ekki afskipti af dómsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alræðisríkið Ísland?

Ögmundur er að missa sig í ruglinu. Eftirfarandi frétt birtist á Pressunni, Er CERT-ÍS nýr stóri bróðir? Fær heimildir til að skoða netsamskipti Íslendinga án dómsúrskurðar.

Í frumvarpinu er CERT-ÍS fengin heimild til að skoða samskipti á netinu án dómsúrskurðar. Hvað er næst? Húsleitir án dómsúrskurðar ef einhver hefur það á tilfinngunni að maður sé ekki að hlýða lögum? Ég sé engan mun á því að yfirvöld gramsi í tölvupóstinum og venjulega póstinum, án þess að fá til þess heimild.

Þór Saari sagði eftirfarandi í athugasemd á fésbókarsíðu Evu Hauksdóttur. "Það var reynt að keyra frumvarpið gegnum þingið með hraði og án skoðunar fyriri jól en var stoppað af nefndinni (umhverfis- og samgöngunenfd) einmitt vegna þessara heimilda." Innanríkisráðherrann virðist ekkert vilja láta hið svokallaða lýðræði flækjast fyrir sér.

Þetta er skref í alræðisátt og verður að stoppa. Big brother is watching you.

Spurning af hverju ekki einu orði er eytt í þetta á MBL... 

Af einhverjum ástæðum get ég ekki sett in hlekk, en hér er slóðin: http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/er-cert-is-nyr-stori-brodir-faer-heimildir-til-ad-skoda-netsamskipti-islendinga-an-domsurskurdar 


Dýr og Tré

Íslenskt samfélag er helsjúkt. Það er helsjúkt eins og barn í þriðjaheims ríki. Lækningin er til, en ekki til staðar.

Við lifum í réttarríki. Öll dýrin eru jöfn. Það á þó til að vera ekki alveg svona einfalt í raunveruleikanum. Stundum eru dýrin sem setja reglurnar jafnari en önnur. Þau geta brotið af sér, en enginn getur snert þau. Þau geta sópað til sín auðlindir og fjármagn, löglega og ólöglega, en þau eru yfir lögin hafin. Ekki formlega. Öll dýr eru jöfn. Það getur bara verið svo erfitt fyrir embættismenn innan dómsvaldsins að slá á höndina sem réttir þeim bitlinga í formi utanlandsferða, fjárframlaga og fleira. Það er kannski ekki við stjórnmálamenn og aðra embættismenn að sakast. Kannski er þetta bara mannlegt eðli. Við erum alltaf hrædd við að eiga ekki nóg, að verða blönk á einhverjum tímapunkti. Best að safna í sarpinn. Svo er svo erfitt að pirrast út í þá sem fjármagna kosningabaráttuna og annað sem nauðsynlegt er. Eins og hundurinn, passa þeir upp á þann sem gefur þeim að éta.

Kjósendur verða bara að sjá um sig sjálfir. Redda sér. Enda hafa þeir ekkert fjármagn til að kaupa sér velvild þeirra sem setja lögin. Verðtryggingin er að sliga þjóðina. 40.000 heimili skulda meira en þau eiga. Yfir hundrað þúsund manneskjur, þriðjungur þjóðarinnar eða meira, er í svo til vonlausri stöðu. Sum þeirra geta sjálfum sér um kennt. Þau eyddu um efni fram. En flestir sem ég þekki lifðu lífinu eins og hvert annað meðaldýr. Unnu allan daginn og vonuðu að þetta slyppi um mánaðamótin. Þau keyptu sér hús og bíl og fóru til útlanda á 2-3 ára festi. Lifðu ósköp venjulegu lífi. Þau eru ekki fórnarlömb eigin mistaka, heldur voru þau í röngu landi á röngum tíma. Kerfið hrundi og ákvað að heimilin skyldu bæta það sem miður fór.

Hið svokallaða hrun, eins og sumir eru farnir að kalla það, er langt í frá orðinn fjarlægur kafli í íslandssögunni. Það er enn í fullum gangi. Á meðan verðtryggingin er við lýði, á meðan bankamennirnir sem spiluðu með þjóðina, viðskiptaséníin sem keyptu og seldu stórfyrirtæki og bjuggu til falskt góðæri og stjórnmálamennirnir sem sáu hvert stefndi en gerðu ekkert... á meðan þetta fólk er ekki látið svara fyrir sig, á meðan hrunið er ekki gert upp, á meðan fólk er borið út af heimilum í nafni bankanna, mun þetta svöðusár á þjóðarsálinni ekki gróa. Á meðan löggjafavaldið tekur fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu, getum við ekki sagt að við búum við réttarríki. Á meðan stjórnmálamenn leyfa kaupsýslumönnum að segja sér fyrir verkum, búum við ekki við lýðræði.

Af hverju gerist ekkert ef þriðjungur þjóðarinnar er á hausnum og þúsundir flytja ár hvert af landi? Af hverju mætir einn þúsundasti þjóðarinnar á fund um verðtrygginguna? 0.3% þeirra sem eru í vanda vegna hennar. Sömu hræðurnar og voru þarna síðast? Hvernig getur fámennur hópur haldið heilli þjóð í gíslingu? Svarið er einfalt. Við sjáum ekki trén fyrir skóginum. Vandamálin eru svo stór að við skiljum þau ekki eða gefumst upp á þeim. Við tuðum yfir stráka- og stelpuís. Við rífumst um það hvort konur eigi að raka sig eða ekki. Við missum okkur í smámálum sem skipta engu máli því við skiljum þau. Á meðan erum við heilaþvegin af öflum sem vilja halda í völdin, sama hvernig farið er að því. Við flytjum úr landi, dragandi skuldahalann á eftir okkur, eða rífumst um ís, trúandi því að þetta hrun hafi kannski aldrei orðið.

Við munum kjósa fólk á þing innan árs. Eigum við ekki að vanda okkur svolítið?


mbl.is Unga fólkið flytur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af lífi og dauða...

Ekki veit ég hvað varð til þess að ráðherrafrúin gafst upp. Hvers vegna fólk tekur eigið líf. Við höfum sennilega öll íhugað þetta á einhverjum tímapunkti, en hvað fær manneskju til að fara alla leið? Er þetta ekki eigingjarnasta ákvörðun sem nokkur manneskja getur tekið? Lífið kann að vera erfitt og þetta getur virkað sem einföld lausn, en hvað um þá sem eftir lifa? Hvað um börnin manns sem fara að velta því fyrir sér, hvað gerði ég eða hvað hefði ég átt að gera? Foreldrar eiga að vera til staðar fyrir börnin sín, en það er erfitt ef þeir eru farnir. Börnin eiga að lifa foreldra sína, því það hlýtur að vera versta tilfinning sem til er að jarða barnið sitt. Dauða fylgir sorg, en sé um sjálfsmorð að ræða, fyldir reiðin með. Og hún fer ekki.

Líf og dauði voru ofarlega í huga mínum þegar ég vaknaði.

Við erum alltaf að flýta okkur. Troða morgunmatnum ofan í krakkann, henda honum út í nóttina því skólinn er að byrja og við að verða of sein í vinnuna. Við gefum svo næstu klukkutímana vinnu okkar. Seljum þá reyndar, misdýru verði. Við eigum það til að selja tíma okkar of ódýrt, því hvað sem við gerum, kemur hann ekki aftur.

Fyrrverandi vinnufélagi minn, Vanuza Ramos Semedo, var falleg stelpa. Ljúf og það var ómögulegt að líka ekki við hana. Rétt tæplega þrítug. Hún fór í barneignarfrí og ég sá hana aldrei aftur. Við heyrðum að hún hefði eignast heilbrigt barn. Hún var svo stolt af dótturinni. Hún hafði átt strák en hana langaði svo í stelpu, og hér var hún komin! Við fylgdumst með á Facebook, sáum myndir af mæðgunum. Lífið gat ekki orðið betra.

Dag einn fékk hún blóðtappa. Eitthvað sem hafði myndast kring um fæðinguna og enginn vissi af. Heilinn fékk ekkert blóð og hún vaknaði aldrei aftur. Tæpri viku síðar var hún farin. Tekin frá nýfæddu dótturinni.

Vanuza var yndisleg og Þeir sem þekktu hana sakna hennar. Tala enn um hana. Við syrgjum hana og segjum stundum að lífið sé óréttlátt. Við minnum okkur á að hver dagur sé sérstakur, að við eigum að nýta hann eins og hann væri sá síðasti. Því það kemur að því að dagurinn í dag er sá síðasti og morgundagurinn kemur ekki. Njótum lífsins, verum góð hvert við annað og gerum það sem við viljum gera. Ekki sóa lífinu í meðalmennsku, pirring og hluti sem skipta ekki máli.

Til hamingju með afmælið og hvíl í friði, mín kæra... 


mbl.is Ráðherrafrú tók eigið líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatur er sjálfsmark.

Þeir sem hata, eru mest fyrir sjálfum sér og valda sér meiri skaða en þeim sem hataður er. Það hefur því lítið upp á sig að hata. Hatur er sjálfsmark.

Ég hef fylgst með málflutningi þingmanna eftir atkvæðagreiðsluna á föstudag. Ég hef ekki séð neitt hatur. Ég hef séð vonbrigði, pirring, jafnvel reiði, en ekkert hatur. Já-sinnar vilja flestir Geir fyrir Landsdóm til að fá upplýsingar frá vitnunum sem boðuð hafa verið. Mér sýnist fólk ekkert vera neitt sérstaklega upptekið af því að henda Geir í steininn. Væri hann svona voðalega hataður, væri málflutningurinn allt annar.

Nei-sinnar virðast nota veikari rök, eru meira á tilfinniganótunum. Það skal ekki ákæra einn, ef hin þrjú komust undan. Á við hér en hvergi annars staðar í réttarkerfinu, en hvað um það. Þetta er mannréttindabrot gegn forsætisráðherranum fyrrverandi. Aðrir mega lifa við að þurfa að svara fyrir sig séu þeir grunaðir um að hafa gerst brotlegir við lög, en hvað um það. Stundum er bara skellt á þetta samsæris stimpli og sagt að Samfó sé að ná sér niðri á Sjöllunum. Kannski eitthvað til í því að það hafi verið pólitískt að sleppa hinum þremur, en gerir það Geir sjálfvirkt stikkfrí?

Hvað um það, lítið eða ekkert hatur í gangi. Annað hvort er Einar K. að plata okkur og þeyta ryki í fólk, eða hann hefur litla tilfinningu fyrir hugarástandi fólks sem hann þekkir og vinnur með. Hvoru tveggja er afar slæmt þegar viðkomandi er í ábyrgðarstöðu.

Mér sýnist hann allavega vera að lesa kolvitlaust í stöðuna.

Ég vona að Sjálfstæðismenn hætti þessu væli, taki til heima hjá sér og fari að læra að vera málefnalegir. Eða eru það ekki málefnin sem þeir hafa áhuga á?


Sleppum Geir og komum Sjálfstæðisflokknum í stjórn.

Þetta mun taka vikur, kannski fram á vor. Kannski vona Bjarni, Ögmundur (hvað er hann að gera í þessum hópi?), Össur og félagar að stjórnin falli fyrir þann tíma. Kosningar. Koma þessu 40% fylgi sjálstæðismanna inn á þing. Þá er hægt að afgreiða málið í eitt skipti fyrir öll. Vísa því frá. Gleyma svo þessu meinta hruni sem fólk er alltaf að tuða yfir.

Nei, Össur vill stjórnina ekki feiga. Hann vill bara ekki fara í vitnastúkuna.

Bjarni vill þessi 40% inn á þing.

Ögmundur? Vill hann ekki bara formannssætið í VG og gott sæti í hægri-vinstri stjórn?

Svo kemur sér ágætlega að þetta mál tekur tíma sem annars hefði farið í að ræða tillögur stjórnlagaráðs.

Þessir þingmenn eru ekki að vinna fyrir þjóðina. Þeir eru i fléttuleik, klækjapólitík. Þeir eiga ekki heima á þingi. 

Eða hvað veit ég? Kannski vilja þeir allir vel.


mbl.is „Við munum vanda okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB = Skýjaborg?

Ég er tiltölulega hlutlaus þegar kemur að ESB. Bý þar og hef það ágætt. Ekkert rosalega ríkur eða þannig, en skrölti. Stundum duga launin, stundum ekki. Er á rétt meðallaunum og borga hátt í 50% skatt. En...

Evrópa er með ónýtan gjaldeyri sem riðar til falls. Evran hefur haldið sér sæmilega undanfarið, en hún er undir gífurlegum þrýstingi.

Bankarnir hér í Hollandi eru svo sterkir að þeir þurftu beilát. Ég borgaði 1700 evrur af skattpeningunum til ABN Amro og enn meira til ING. Ég hef sennilega borgað meira, því þetta er meðaltal sem ég reiknaði út einhverntíma. Tók þar með hvert mannsbarn, líka börn og gamalmenni. Fyrrverandi fjármálaráðherra er bankastjóri ABN Amro. Sér einhver tengslin?

Ríkisfyrirtæki hér hafa verið seld með þeim afleiðingum að þjónusta versnar og verð hækkar. Þess má geta að ESB hefur þvingað Grikkland til að selja ríkiseigur eins og hafnir og aðrar nauðsynjar. Yrði þetta öðruvísi á Íslandi? Fengjum við "góðan díl" í fiskimálinu? Ég stórefast um það.

Þegar þær þjóðir sem fengu tækifæri til að tjá sig höfnuðu evrópsku stjórnarskráni, var nafninu breytt í Lissabonsáttmála og þar með þurfti ekki að ræða það meir. ESB er gott í að komast undan atkvæðagreiðslum og kjósa þar til rétt niðurstaða fæst og svo ekki meir.

Það er fínt að búa í ESB, en ekki halda að hlutirnir hér séu eitthvað betri eða bjartari en heima. Það er allt í lagi að skoða inngöngu, en ekki búa til skýjaborgir sem gufa svo upp í kastljósi raunveruleikans.
 

mbl.is „Gegndarlaus áróður ESB"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5%

Ekkert nema gott um það að segja að fólk stofni stjórmnálaflokka. Ekki eru þeir gömlu að virka. En það er hængur á. Því fleiri smáframboð sem koma fram, því tvístraðri verða atkvæðin. Allt sem nær ekki fimm prósentum er dæmt úr leik og það er gott fyrir fjórflokkinn.

Ég óska aðstandendum Öldu til hamingju og vona að þau nái allavega fimm prósenta fylgi.


mbl.is Kynna tillögur um stofnun stjórnmálaflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband