8.10.2008 | 22:07
Sjónhverfing
Allt er að fara í hundana því við erum hætt að trúa. Krónan, þessi ofursterki gjaldmiðill, er verðlaus. Þegar ég var að taka upp Svarta Sandinn á Íslandi sumarið 2006, kostaði þúsund kallinn mig 12 evrur. Kannski 13. Hann kostar mig núna fimm og hálfa á opinbera genginu, sem enginn veit hvort haldi. Það voru fréttir af því að evran hafi kostað 250 kr í dag. Það er þreföld lækkun. 3 fyrir 1. Hver veit hversu djúpt þetta sýki er.
Íslendingar í útlöndum eru alltaf á leiðinni heim, sagði einhver. Ég kíki stundum á fasteignasíðu Moggans til að sjá hvað er í gangi. Þetta hefur verið óskemmtilegt síðustu ár. Íbúðaverð hefur rokið upp og krónan líka. Ég hefði getað keypt mér pínulitla, ósamþykkta, kjallaraíbúð fyrir húsið mitt. Nú er skollin á kreppa og húsnæðisverð hefur fallið eitthvað. Ég fór að skoða og sá að ef ég sel húsið mitt og borga lánið, get ég núna keypt fallega 80 fermetra íbúð hvar sem er í borginni fyrir mismuninn. Ég get flutt heim og verið skuldlaus.
Hvernig stendur á þessu? Jú, við máluðum alla gluggakarma í sumar, en ekki breytir það miklu. Íbúðin í Reykjavík var tekin í gegn 2003. Hún er ennþá falleg og á góðum stað. Hún er ennþá 80 fermetrar, þriggja herbergja og tiltölulega nýlega endurnýjuð. Svo er það fallega einbýlishúsið í miðbænum sem ég gæti keypt á mínum lúsarlaunum. Hvað gerðist?
Síðustu orð Bubba bitu mig svolítið. Þetta var kannski bara djók og ég svona fúll að fatta ekki, en ég sé einhvern veginn ekkert fyndið við þessa krísu. Hefði hann séð þetta fyrir væri hann ríkur maður. Hann hefur því ekkert lært, veðjaði bara á vitlausan hest?
Eina leiðin til að koma í veg fyrir kreppur eins og þá sem er að fara af stað núna er að venja sig af græðginni. Það voru 85000 hluthafar í íslenska bankakerfinu. Allir vildu þeir sennilega verða ríkir. En hvað er að vera ríkur? Að eiga hús? Bíl? Stærra hús en einhver annar? Jeppa? Fyrirtæki? Fyrirtæki sem er svo stórt að þú skilur það ekki sjálfur en vilt samt meira? Lífið er ekki peningar. Peningar eru tæki sem við notum, því það er svo fjandi erfitt að skipta lambalæri fyrir kassa af kók eða kind fyrir iPod.
Munum svo að þegar við græðum, tapar einhver annar. Núna er einhver að græða. Húsin eru ennþá á sínum stað. Ekkert er horfið, nema einhverjir tölustafir á heimasíðu einhvers heimabanka.
Harmleikur allrar þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Já, hann segir að peningarnir af ævistarfi hans sé horfið og það eru margir sem eiga sárt um að binda.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 8.10.2008 kl. 22:49
Hann tapaði þeim í fjárhættuspilum. Hann var að reyna að græða á hlutabréfaviðskiptum, lagði of mikið undir og tapaði. Þeir sem ég hef áhyggjur af er fólkið í landinu sem tók ekki þátt í fylleríinu en þarf að taka þátt í þynnkunni.
Villi Asgeirsson, 9.10.2008 kl. 08:13
Kondu heim og farðu í stjórnmálin, ég styð þig. Við þurfum alveg nýtt fólk á þing, fólk sem hefur samvisku og ást á þjóðinni, ekki bilderburg hræ og náhirð.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 09:04
Stjórnmálin? Hef ég eitthvað vit á svoleiðis? Ekki fór ég í læknisfræði uppí Víðidal.
Hmmm........ ég væri svo sem alveg til í það. Kannski. Veit ekki. Hmmmm..... Æi, vertekki að planta svona veseni í hausinn á manni. Ég er enginn stjórnmálamaður í mér. Kannski er það nákvæmlaga það sem þú ert að segja. Hugsa málið.
Villi Asgeirsson, 9.10.2008 kl. 09:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.