7.2.2012 | 15:43
Gefum vínsölu frjálsa!
Ég er eiginlega orðlaus, en ætla samt að pikka inn smá færslu.
Á Íslandi er áfengi litið hornauga. Þetta er bölvaldur, bakkus er harður húsbóndi, við drepumst öll úr alkóholisma ef þetta helvíti er ekki bannað!
Ef maður skoðar tölur, kemur eitthvað allt annað í ljós. Samkvæmt AA samtökunum eru hvergi fleiri hjálparhópar á haus en á Íslandi. 800 á milljón, á móti 0.6 í Portúgal, sem er með fæstu hópana. Portúgalar drekka 2 1/2 lítra á móti hverjum lítra okkar íslendinga. Þeir virðast kunna á áfengi, á meðan við gerum það ekki.
En svo ég tali bara af reynslunni. Ég bý í Hollandi. Hér er bjór og léttvín selt í matvöruverslunum. Kassi af bjór kostar u.þ.b. átta evrur. 24x30cl flöskur. Þetta er Heineken, ekki sá ódýrasti. Mig minnir að Lidl selji þýskan bjór, 24x33lc, á fimm evrur. Flaska af rauðvíni frá þremur evrum. Sterk vín eru seld í vínbúðum. Viskíflaskan kostar frá 12-13 evrum og upp. Samkvæmt heimspekilegum vangaveltum lífhræddra íslendinga ættu allir að vera ælandi í ræsinu hér, dauðadrukknir og lagstir í gröfina um fimmtugt. Það er auðvitað fjarstæða. Fólk drekkur meira magn hér en á Íslandi, en það dreyfist yfir vikuna. Bjór eftir vinnu og rauðvínsglas með matnum safnast saman. Íslendingar drekka örlítið minna, en demba öllu í sig á djamminu um helgar. Maður spyr sig, hvort ætli sé verra fyrir heilsuna?
Það er reyndar margsannað að 1-2 glös af rauðvíni á dag er gott fyrir skrokkinn. Það getur komið í veg fyrir hjartakvilla og skerpir hugsun.
Er ekki kominn tími á að íslendingar skríði upp úr holunum sem hræddir bindindismenn grófu fyrir 100 árum? Hættum að væla, hjálpum þeim sem ekki kunna að fara með áfengi og látum hina vera. Njótum þess að fá okkur ískaldan bjór eftir vinnu og gott rauðvinsglas með matnum. Leyfum matvöruverslunum að selja áfengi á eðlilegu verði og njótum lífsins.
![]() |
Áfengi hættulegasta eiturlyfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |