22.1.2012 | 21:10
Hatur er sjálfsmark.
Þeir sem hata, eru mest fyrir sjálfum sér og valda sér meiri skaða en þeim sem hataður er. Það hefur því lítið upp á sig að hata. Hatur er sjálfsmark.
Ég hef fylgst með málflutningi þingmanna eftir atkvæðagreiðsluna á föstudag. Ég hef ekki séð neitt hatur. Ég hef séð vonbrigði, pirring, jafnvel reiði, en ekkert hatur. Já-sinnar vilja flestir Geir fyrir Landsdóm til að fá upplýsingar frá vitnunum sem boðuð hafa verið. Mér sýnist fólk ekkert vera neitt sérstaklega upptekið af því að henda Geir í steininn. Væri hann svona voðalega hataður, væri málflutningurinn allt annar.
Nei-sinnar virðast nota veikari rök, eru meira á tilfinniganótunum. Það skal ekki ákæra einn, ef hin þrjú komust undan. Á við hér en hvergi annars staðar í réttarkerfinu, en hvað um það. Þetta er mannréttindabrot gegn forsætisráðherranum fyrrverandi. Aðrir mega lifa við að þurfa að svara fyrir sig séu þeir grunaðir um að hafa gerst brotlegir við lög, en hvað um það. Stundum er bara skellt á þetta samsæris stimpli og sagt að Samfó sé að ná sér niðri á Sjöllunum. Kannski eitthvað til í því að það hafi verið pólitískt að sleppa hinum þremur, en gerir það Geir sjálfvirkt stikkfrí?
Hvað um það, lítið eða ekkert hatur í gangi. Annað hvort er Einar K. að plata okkur og þeyta ryki í fólk, eða hann hefur litla tilfinningu fyrir hugarástandi fólks sem hann þekkir og vinnur með. Hvoru tveggja er afar slæmt þegar viðkomandi er í ábyrgðarstöðu.
Mér sýnist hann allavega vera að lesa kolvitlaust í stöðuna.
Ég vona að Sjálfstæðismenn hætti þessu væli, taki til heima hjá sér og fari að læra að vera málefnalegir. Eða eru það ekki málefnin sem þeir hafa áhuga á?
22.1.2012 | 14:25
Sleppum Geir og komum Sjálfstæðisflokknum í stjórn.
Þetta mun taka vikur, kannski fram á vor. Kannski vona Bjarni, Ögmundur (hvað er hann að gera í þessum hópi?), Össur og félagar að stjórnin falli fyrir þann tíma. Kosningar. Koma þessu 40% fylgi sjálstæðismanna inn á þing. Þá er hægt að afgreiða málið í eitt skipti fyrir öll. Vísa því frá. Gleyma svo þessu meinta hruni sem fólk er alltaf að tuða yfir.
Nei, Össur vill stjórnina ekki feiga. Hann vill bara ekki fara í vitnastúkuna.
Bjarni vill þessi 40% inn á þing.
Ögmundur? Vill hann ekki bara formannssætið í VG og gott sæti í hægri-vinstri stjórn?
Svo kemur sér ágætlega að þetta mál tekur tíma sem annars hefði farið í að ræða tillögur stjórnlagaráðs.
Þessir þingmenn eru ekki að vinna fyrir þjóðina. Þeir eru i fléttuleik, klækjapólitík. Þeir eiga ekki heima á þingi.
Eða hvað veit ég? Kannski vilja þeir allir vel.
![]() |
Við munum vanda okkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |