20.1.2012 | 22:26
Er einhver áhugi á uppgjöri?
Það er þá komið á hreint. Meirihluti þingheims hefur ekki áhuga á að gera upp hrunið. Það er rausað um að ljótt sé að kenna einum manni um það sem miður fór. Ég get ekki séð að nokkur maður sé að gera það. Málið snýst alls ekki um Geir H. Haarde.
Fleiri tóku þátt í fylleríinu. Auðmenn, bankamenn, útrásarvíkingar, stjórnmálamenn. Hrunið byrjaði um svipað leyti og uppsveiflan. Bankar voru seldir vinum fyrir lánsfé úr hinum bönkunum. Viðskiptalífið sveik, svindlaði og stakk undan á meðan embættismenn horfðu í hina áttina, fullir á freyðivíni í boði útrásarinnar. Geir var ekki einn um að gera ekkert. Allt kerfið var sjúkt.
Kosið var um hvort lögsækja ætti fjóra þingmenn. Á endanum var einn valinn, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005 og forsætisráðherra til 2009. Það var fullkomið pólitískt klúður að sleppa hinum þremur, en það gerir Geir ekki stikkfrí. Ekki frekar en maður sleppti einum af því hinir þrír sem tóku þátt í ráninu (nauðguninni eða hvaða glæp sem framinn hefði verið) komust undan á hlaupum. Geir var í hringiðunni sem fjármála- og forsætisráðherra og hlýtur að bera einhverja ábyrgð. Hversu mikil hún er, veit maður ekki og það kemur ekki í ljós ef málið verður látið niður falla.
Hlutverk Landsdóms er ekki að hengja Geir. Ég hef engan sérstakan áhuga á að sjá hann í litlum klefa á Litla Hrauni. Efast um að margir hafi áhuga á því. Það sem ég vil sjá er uppgjör á áratugnum fyrir fall bankanna. Opið, hreinskilið og ýtarlegt. Það varð alsherjarhrun og við sjáum ekki fyrir endann á afleiðingunum. Ef við ræðum ekki málin, veltum steinum og skoðum ormana sem leynast undir þeim, komumst við aldrei upp úr þessu kviksyndi. Þjóðin á það skilið að vita hvað gekk á. Vita hvaða reikninga hún er að borga og af hverju.
Það er gott að halda til haga hvaða þingmenn kusu um málið og hvernig. Gæti hjálpað í næstu kosningum. Ég veit að enginn í "nei" hópnum fær mitt atkvæði.
já:
Arna Lára Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús M. Norðdahl, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman
nei:
Atli Gíslason, Árni Páll Árnason, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Kristján L. Möller, Lilja Mósesdóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson
fjarvist:
Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson
fjarverandi:
Björgvin G. Sigurðsson
![]() |
Frávísun felld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2012 | 16:11
Hvenær kemur Íslenska vorið?
Ég var að skoða bloggfærslur sem ég skrifaði fyrir þremur árum. Búsáhaldabyltingin var þá í fullum gangi. Ég skrifaði um táragasið sem lögreglan beitti gegn mótmælendum og þögnina úr forsætisráðuneytinu. Ísland var að upplifa eitt hrikalegasta efnahagshrun sögunnar og forsætisráðherrann sá enga ástæðu til að tala við þjóðina. Hann beitti lögreglunni þó óspart.
Er það þetta sem við vijum? Sjálfstæðisflokkinn í stjórn aftur? Flokkinn sem keyrði okkur upp í skerjagarðinn og kennir núverandi stjórn um hrunið? Flokkinn sem hikar ekki við að siga löggunni á mótmælendur?
Bjarni Ben vill að alþingi kjósi aftur um það hvort Geir eigi að fara fyrir Landsdóm. Það verður að vera þingmeirihluti fyrir því, segir hann. Var ekki þingmeirihluti til staðar? Var fyrri kosningin ómerk að einhverjum ástæðum? Ef svo er, væri þá ekki hugmynd að kjósa um ráðherrana fjóra sem rannsóknarnefndin mælti með að færu fyrir Landsdóm?
Bjarni er að leika sama leik og ESB, að kjósa um mál þar til rétt niðurstaða fæst og svo ekki meir.
En hvað um það, þetta mál er móðgun við þjóðina. Það er móðgun við fólkið sem missti allt, sem sá sér ekkert annað fært en að flýja land. Það er móðgun við þá sem stóðu á Austurvelli í janúarkuldanum, börðu á potta og pönnur í von um sanngjarnara þjóðfélag og lét sig hafa það að vera spreyjað með piparúða.
Það er sannarlega móðgun við níumenningana sem Ögmundur gat ekki skipt sér af vegna stöðu sinnar sem ráðherra.
Ég vona sannarlega að þingmenn hafi rænu á að fella þessa tillögu. Ekki af því ég vilji sjá Geir H. Haarde dæmdan og lokaðan inni. Alls ekki. Hann má sýkna ef Landsdómi finnst ekki ástæða til annars. Ég vil einfaldlega að allar upplýsingar sem þjóðin á skilið að fá, komi upp á yfirborðið svo hægt verði að gera hrunið upp. Án uppgjörs munum við halda áfram að sleikja sárin og vantreysta hvoru öðru. Við getum ekki byggt upp mannsæmandi samfélag ef við þorum ekki að horfast í augu við fortíðina.
Þjóðin á það inni hjá þingmönnum að þeir geri það eina rétta í stöðunni og láti dómsmál hafa sinn gang afskiptalaus.
![]() |
Næstversta niðurstaðan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |