25.6.2008 | 12:07
1000 heimili undir hamarinn og ofsahræðsla við hryðjuverk
Ég var að vinna á Schiphol í morgun. Tvennt sló mig og hafði það hvort tvegga með Bandaríkin að gera.
1. Þúsund heimili undir hamarinn.
CNN var að tala um að íbúðamarkaðurinn í Bandaríkjunum væri svo veikur að ein milljón heimila væru að fara undir hamarinn. Svo maður setji þetta í íslenskt samhengi, eru það 1000 fjölskyldur sem væru að fara á hausinn. Það væri athyglisvert ef einhver veit hver staðan er heima. Hvað eru margir að missa heimili sín? Mun þetta hrun í USA hafa áhrif á Íslandi og viðar? Mun þetta verða til að ríkir verði enn ríkari með því að sópa til sín ódýrum fasteignum?
2. Ofsahræðsla við hryðjuverk.
Ég var beðinn um að hjálpa til við hlið þar sem Royal Air Maroc var að fara til Nador í Marokkó. Það var eitthvað vesen og það þurfti "karlmann" til að tala einhverja farþega til. Málið var leyst þegar ég mætti á svæðið, en fyrst ég var þarna, hjálpaði ég til við að koma barnakerrunum út í vél.
Þetta var full Boeing 747 með 457 farþega innanborðs, svo það var nóg af kerrum. Thermos brúsi datt úr einni kerrunni og þar sem búið var að loka vélinni og enginn vasi var á kerrunni, tók ég brúsann með mér inn í flugstöð og henti honum í ruslið.
Við sátum við tölvurnar og ræddum málin þangað til vélinni var ýtt frá flugstöðinni. Klukkan var rúmlega ellefu og mitt næsta verk var að tengja brúna við El Al vél sem átti að koma að næsta hliði um 11:40. Delta átti svo að koma að hliðinu sem við vorum við og fljúga þaðan til New York.
Öryggisverðirnir mættu á svæðið til að undirbúa komu Delta farþeganna. Þeir kíktu allsstaðar og skoðuðu allt. Einn skoðaði ruslafötuna með brúsanum. Hann kallaði á félaga sinn og sagðist hafa fundið grunsamlegan hlut, Thermos brúsa. Ég sagði þeim að hafa ekki áhyggjur, brúsinn hafi komið úr kerru sem hafði farið gegn um öryggisskoðun klukkutíma fyrr. "Já", sagði öryggisvörðurinn, "en þetta er áhættuflug (high-risk flight) og við getum ekki tekið neina áhættu". Hann hringdi svo í yfirmann sinn sem sendi sérstakt fólk á vettvang.
Ég þurfti að fara og sinna mínu El Al verkefni, svo ég gat ekki fygst með eftirmálum, en ég gat ekki annað en brosað. Við erum orðin svo hrædd við hryðjuverk að það jaðrar við móðursýki. Reyndar held ég að ef einstaklingur myndi haga sér eins og Bandaríkin, yrði sá hinn sami sendur til sála.
![]() |
Glitnir spáir 7% lækkun fasteignaverðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |