Er ekki 2008?

Þegar fregnir berast af mannréttindabrotum, kvenréttindabaráttu sem á undir högg að sækja og umburðarleysi yfirvalda yfirleitt, er oft sagt "en er ekki komið árið 2008?".  Þetta hefur reyndar verið sagt svo lengi sem ég man eftir mér, en þá auðvitað með viðkomandi ár í setningunni. Er ekki komið 1976, 1983, 1995, 2000, 1532? Það er eins og fólk trúi að við lifum á tímum frelsi og upplýsingar. Sennilega lifum við á öld einhverskonar upplýsingar á vesturlöndum, þótt mikið þeirra upplýsinga sem við fáum frá stjórnvöldum séu villandi og oft hreinlega rangar. Við eru oft dregin á asnaeyrunum. Stundum kemst þetta upp og þá er talað um skandal og spillingu, en oftast vitum við ekkert fyrr en einhverjum áratugum seinna þegar einhver skjöl eru opinberuð. Þá er svo langt um liðið að við trúum að nú sé öldin önnur og að allt sé í betra horfi en þá.

Mannréttindi hafa til skamms tíma verið virt, að mestu, á vesturlöndum. Við erum að tala um örfáa ártugi í örfáum löndum. Skoði maður mannkynssöguna er lýðræði og málfrelsi sjaldgæft. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut, því við þekkjum ekkert annað. Málið er að við erum bara svo heppin að hafa fæðst í einu fárra lýðræðislanda á sjaldgæfu tímabili í mannkynssögunni. Vitum á hvernig tímabili við munum deyja? Það fer sennilega eftir því hvernig við förum með þau réttindi sem við höfum.

Þetta breyttist auðvitað allt 11. september 2001. Nú eru vesturlönd að vinna við að takmarka málfrelsi og mannréttindi. Fólki er haldið í fangelsi án dóms og laga. Fangar eru pyntaðir. Það er ekkert nýtt, en nú er ekki lengur verið að fela það. Við erum beðin um að hafa auga með náunganum og láta yfirvöld vita ef eitthvað grunsamlegt er í gangi. Framtíðin sést kannski skýrast á flugvöllum, þar sem mannréttindi eru mikið til horfin, í nafni öryggis. Ég var að reyna að fá hurð opnaða á Schiphol um daginn. Hurð sem átti að vera opin. Öryggisverðirnir voru ekki með lykla. Ég var ekki með lykla (búinn að redda mér setti núna). Þar sem við stóðum ráðalausir, veltandi fyrir okkur hvernig stæði á þessu, hvaða öryggisreglur við gætum hugsanlega verið að brjóta með því að opna hurðina og hvernig við ættum að koma farþegunum frá borði, sagði hann svolítið sem er auðvitað alveg satt. Hann sagði, verði gerð árás með einhverju sem einhver tók með sér í handfarangri, eða verði það reynt og það mistekst, verður lokað á handfarangur. Enginn mun geta tekið neitt með sér um borð.

Hann hefur sennilega rétt fyrir sér. Samfélag okkar á það til að fara yfir um þegar kemur að öryggismalum og þau eru oft notuð til að vernda okkur fyrir sjálfum okkur, á kostnað frelsis okkar.

Það er árið 2008, en það er síður en svo sjálfvirk ávísun á frelsi og réttlæti. Það er okkar að vernda frelsi okkar, því það er alls ekki sjálfgefið. 

Gleðilegan þjóðhátíðardag! 


mbl.is Æ fleiri bloggarar handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júní 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband