Draumaflokkurinn minn

Það er svo sem gott og blessað að Framfaraflokkurinn sé orðinn til, en ég hef það á tilfinningunni að hann njóti ekki almenns trausts. Þannig var það líka með Íslandshreyfinguna fyrir síðustu kosningar. Ég held að þa séu tvær aðalástæður fyrir því að fylgið hafi verið innan við 5%. Fólk var hrætt við að atkvæðið félli dautt vegna 5% reglunnar og stóriðjan átti marga fylgjendur og fólk var hrætt um að hreyfingin væri samtök græningja og fjallagrasatínslufólks. Hér að neðan er það sem ég vildi sjá í einum flokki. Efast um að hann sé til.
 
1. Sýna fram á að stóriðjan sé ekki sú töfralausn sem haldið var fram. Nú þegar álverð er komið niður fyrir viðmiðunarmörk eru Kárahnjúkar sennilega reknir með tapi. Það væri því betra að setja eggin í fleiri körfur í framtíðinni. Við erum ekki að tala um fjallagrös eða nýaldarfegurð. Það borgar sig í beinhörðum peningum að breyta áherslum.
 
2. Innganga í ESB getur ekki verið á dagskrá eins og er. Við erum í allt of veikri stöðu til að semja. Það er betra að koma okkur út úr þessari kreppu og tala svo, ef við teljum þörf á. Sumir tala um að með ESB aðild hefðum við meiri völd innan sambandsins. Með 2-3 evrópuþingmenn af 700, efast ég um það.
 
3. Það verður að fara fram skilyrðislaus og hlutlaus rannsókn á hruninu og aðdraganda þess. Ekki þetta yfirborðsklór sem nú er í gangi.
 
4. Við getum ekki sagt já og amen við kröfum breta og hollendinga í Icesave málinu. Vissulega brást íslenska kerfið, en þarlend yfirvöld vissu meira en íslenskur almenningur. Þar fyrir utan er notkun hryðjuverkalaga óásættanleg og ber okkur að gera athugasemd við það ferli.
 
5. Skoðuð verður einhliða upptaka erlends gjaldmiðils. Það getur verið evra, dollar, norsk króna eða hvað sem er. Það mál yrði að skoða vel áður en ákvörðun er tekin.
 
6. Stóreflt samstarf við Norðurlöndin.
 
7. Ísland verði tekið af lista hinna viljugu þjóða og lýsi sig spillingarlaust og sjálfstætt ríki.
 
8. Kosningalögum verði breytt. 5% reglan látin fara og kosið verði um fólk, ekki flokka.
 
9. Heilbrigðisþjónusta og menntakerfi fái þá fjárveitingu sem þörf er á, hugsanlega á kostnað utanríkisþjónustu og annarar yfirbyggingar ríkisins. Þessi þjónusta verði áfram í höndum ríkisins, ekki komi til greina að einkavæða hana.
 
10. Bankar og önnur ríkisfyrirtæki sem ekki fara beint með almannaheill verði einkavædd að nýju, en það gerist sjálfkrafa með útgáfu hlutabréfa á almennum markaði. Engum einum aðila verði gert kleyft að kaupa meirihluta, nema með því að kaupa bréfin á almennum markaði á þeim kjörum sem markaðurinn ákveður.
 
Svona u.þ.b. er mitt draumaframboð. Er þessi flokkur til? Er þetta hægri eða vinstri?

mbl.is Framfaraflokkurinn fær listabókstafinn A
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband