18.10.2008 | 23:02
.
Ég vaknaði upp við vondan draum í London fyrir 15 árum. Mig dreymdi að þú værir farinn. Þú, af öllum. Ég var svo langt í burtu og ég ég átti þér svo margt að þakka. Sem betur fer var þetta draumur. Þegar ég hringdi í þig var allt í lagi. Þegar ég kom heim naut ég þess að vera nálægt þér. Ég vissi hvað ég var heppinn að þekkja þig.
Ég sagði þér aldrei frá því hvað mig dreymdi. Það skipti ekki máli.
Þegar ég byrjaði að blogga, fyrir rúmum tveimur árum, vissum við að eitthvað var að. Vissum ekki hvað það var, en þér leið illa. Þegar ég kom heim um sumarið, vildi ég fara með þig austur í Meðalland svo þú gætir séð æskuslóðirnar einu sinni enn, en þú varst of veikur. Sem betur fer náðir þú þér aftur. Þú gast notið lífsins, þótt óverðursskýin neituðu að hverfa. Ég minntist aldrei á þig á þessari síðu. Ekki vegna þess að ég vildi það ekki, ég vildi öskra til alheimsins að þarna færi fallegasta manneskja sem ég hef nokkru sinni kynnst. Ég vildi enda hverja færslu á kveðju til þín. En ég gerði það ekki því ég vildi láta þitt stríð í friði. Leyfa þér að berjast án þess að draga athygli að því.
Ég sagði þér aldrei að allt sem ég hef gert síðan, var fyrir þig. Ég tileinkaði þér ekki stuttmyndina því þú varst enn meðal okkar. Þú ert það enn, sem betur fer. En ég vil að þú vitir að ég gerði hana fyrir þig. Þegar ég geri kvikmyndina verður hún tileinkuð þér því ég hefði aldrei fengið hugmyndina án þín. Ég væri ekki sá sem ég er án þess að hafa kynnst þér og lært af þér.
Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að sýna þér Mats Kilian og sjá þig halda á honum. Ég mun aldrei gleyma litla augnablikinu áður en þið fóruð frá Skotlandi og þú komst inn í herbergi þar sem hann lá sofandi. Ég mun aldrei getað þakkað þér almennilega fyrir það, en þess þarf ekki.
Ég vildi að ég gæti verið hjá þér í nótt.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)