Hver vill vera húsbóndinn minn?

Ég hef búið í Hollandi í tíu ár, í hjarta Evrópusambandsins. Meðan Ísland hefur verið í bullandi uppsveiflu siðustu ár, hefur atvinnuleysi og (óopinber) verðbólga varað hér, sérstaklega eftir að evran var tekin upp. Það er ekki svo að Holland sé fátækt land eða að það gangi svo illa hér, heldur draga stóru löndin sem eru ekki að gera það svo gott restina á eftir sér. Þýskaland hefur verið að berjast í bökkum síðan það sameinaðist. Frakkland hefur alltaf verið eftir á fjárhagslega, Spánn og Ítalía líka. Þetta eru þó löndin sem munu ákveða hvað íslenska efnahagslífið er að gera. Það þarf að ausa peningum í austur-Evrópu svo að hún komist á sama plan og gamla vestur-Evrópa. Svo eru það miðin, sem verða ekki okkar lengur. Voru þorskastríðin tímasóun?

En svo maður setji þetta í form sem fólk skilur. Jón er ekki ríkur, en er í vinnu og á eitthvað eftir um hver mánaðamót. Hann safnar því saman og getur þannig keypt sér nýjan bíl á þriggja ára fresti og farið í utanlandsferð allavega einu sinni á ári. Hann er ekki ríkur, en honum líður vel.

Einhverjum datt í hug fyrir tíu árum að ef allir vinirnir keypu saman stórt hús og settu launin sín inn á sameiginlegan reikning myndi mikið sparast. Þetta hljómar vel, það er líklegt að Jón geti keypt sér jeppa næst. Hann slær því til og bætist í hópinn. Hann rekur sig þó fljótt á að um leið og launin eru komin inn á reikninginn þurfa allir að vera sammála um hvernig á að ráðstafa fénu. Það geta því liðið mánuðir áður en allir 25 vinirnir samþykkja að Jón geti keypt sér nýjan bíl. Hann þarf samþykki allra til að kaupa sér nýja tölvu. Hann þarf að hætta að reykja vegna þess að hópurinn er ekki samþykkur eyðslu í svoleiðis hluti.

Þetta var bara ákvarðanatakan. Þetta hafði verið hópur 15 þokkalega vel efnaðra vina, en á síðustu mánuðum hafa bæst við 10 vinir sem eiga lítið annað en gjaldfallin lán og gamlar druslur sem verður að endurnýja því þær kosta of mikið viðhald. Jón verður því að sætta sig við að það sem hann átti aflögu fer í að rétta nýju vinina af svo allir geti verið á svipuðu róli fjárhagslega. Þeir verða að ganga fyrir því annars verða verstæðisreikningarnir og gjaldföllnu lánin að stóru vandamáli fyrir alla 25 vinina.

Jón er fastur. Bíllinn er orðinn sex ára, hann hefur ekki komist í utanlandsferð í þrjú ár og húsið hans var sett í púkkið. En það þýðir ekkert að suða, hann tók sína ákvörðun.


mbl.is Stuðningur við ESB-aðild eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband