Sjö að Morgni

VagnÉg komst heim í þrjá daga helgina fyrir páska. Það var yndislegt að komast heim, það var verra að stoppa svona stutt. Ég hefði viljað hitta fleira af fólkinu sem ég þekki, eyða meira tíma með þeim sem ég hitti og kannski hitta nýtt fólk, eins og kannski einn eða fimm bloggara. Svo vildi ég hitta fólkið sem hjálpaði mér með myndina, en komst ekki í það. Ég hitti Jóel því hann þurfti að lesa inn texta sem verður í myndinni. Ég hefði viljað hitta Önnu Brynju, Sonju og alla hina. Það þýðir samt ekkert að kvarta. Ég fékk þrjá yndislega daga og þeir munu duga mér þangað til ég kemst heim næst.

HrafnÞað er merkileg tilfinning að búa erlendis, að vera ekki innan um fólkið sitt. Ég er viss um að við vanmetum flest vini og fjölskyldu þegar við erum alltaf hangandi utan í hvoru öðru. Þetta er samt ekki svo slæmt. Að búa erlendis víkkar sjóndeildarhringinn og hjálpar manni sennilega að "finna" sjálfan sig. Mér finnst að flestir ættu að prófa það í ár eða svo. Þaður skilur sjálfan sig betur, þá sem eru manni kærir og landið sem maður er uppalinn í.

ÁlftirEitt það besta sem ég gerði meðan ég var heima var að fara í göngutúr. Klukkan var sex að morgni og Mats, sem var í heimsókn hjá íslensku fjölskyldunni, vaknaði. Hann þurfti sína næringu. Mamman gerði skyldu sína og reyndi svo að sofna aftur. Mats var ekki á því og vildi vaka. Ég ákvað að fara fram úr og leyfa henni að sofa, enda tekur það á að sjá um svona lítið barn. Mats fór í vagninn og við fórum út. Við gistum hjá systur minni í Keilufellinu svo við röltum upp að kirkju, svo niður fyrir hana og niður að Elliðaánum. Mats var sofnaður svo ég rölti bara út í óvissuna og naut þess að hafa landið mitt undir fótum mér og hafa það út af fyrir Álftirmig. Ég mætti einhverjum skokkurum en þar fyrir utan var enginn á ferð. Myndavélin kom að sjálfsögðu með, eins og myndirnar hér sýna. Ég rölti niður með ánni að stíflunni og svo upp brekkuna og upp í hóla . Ég gekk Vesturbergið á enda og svo til baka. Þegar við komum til baka voru tveir tímar liðnir og við báðir endurnærðir eftir hreina loftið og hreyfinguna.

Ég gerði þetta því ég hafði tækifæri til þess. Ég man ekki eftir að hafa farið í margar gönguferðir meðan ég bjó heima. Spurning hvað maður gerir ef maður flytur heim
 einhvern daginn, hvort maður kunni þá ennþá að njóta umhverfisins eins og nú.

ÁlftirÞið sem búið heima, njótið hvers annars, njótið umhverfisins og ef þið vaknið of snemma, farið fram úr og út að labba. Það er ekkert eins gott og að koma aftur heim eftir að hafa verið einn með sjálfum sér og landinu sínu snemma að morgni.

Og að lokum, takk fyrir athugasemdirnar sem ég hef lesið en ekki svarað á liðnum vikum. Ég les þær allar en svara ekki alltaf. Það á eftir að lagast.


Bloggfærslur 10. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband