7.1.2007 | 10:26
Sluppum...
Það er merkilegt hvað lífið getur verið brothætt. Ég fór að hugsa um þetta í gærkvöldi eftir að líf okkar breyttist næstum því.
Þannig var að við vorum í Haarlem að versla. Það var orðið dimmt þegar við keyrðum út á hraðbrautina á leið heim. Það byrjaði að rigna. Eins og gengur í Hollandi var töluverð umferð. Hámarkshraði þar sem við vorum er 120KM, en þar sem var dimmt og rigningin að versna keyrði fólk eitthvað hægar. Regnið versnaði enn og skyggni var orðið slæmt. Við vorum að nálgast slaufu og þar var röð af rauðum ljósum. Ég hægði á mér, var kominn niður í 90, held ég. Allt í einu var eins og öll umferð á hægri akreininni snarstoppaði. Ég var á vinstri akreininni, en sá sem var rétt á undan mér hægra megin lenti aftan á röðinni. Hann hentist yfir á vinstri akreinina. Við sluppum, en þetta var sentimetraspursmál. Hann fyllti upp í baksýnisspegilinn. Ég vona að sá sem var á eftir mér hafi náð að stoppa og ekki lent á honum. Við keyrðum áfram. Það ver engin ástæða til að stoppa. Það var umferðaröngþveiti þarna og nóg af fólki ef einhvern vantaði hjálp. Allir eru með síma, svo það er engin spurning að kallað hefur verið á hjálp. Við hefðum bara verið fyrir.
Ég fór að hugsa um það sem hafði gerst. Ég vona innilega að enginn hafi meiðst. Ég er líka feginn að við lentum ekki í þessu, að ég var ekki fimm metrum aftar en ég var. Þá hefðum við lent í hörkuárekstri, sennilega hraðbrautasúpu. Mér er nokkuð sama um mig, ég hefði verið í lagi með beltið og loftpúðann, en það er ekki hægt að segja það sama um konuna sem sat við hliðina á mér, komin rúma átta mánuði á leið. Hvað hefði gerst, hefði beltið hjálpað eða gert hlutina verri? Hvað gerir beltið þegar það þrýstir á bumbuna? Ég vildi ekki hugsa það til enda.
Það er svo merkilegt hvað hlutirnir geta breyst snögglega. Hvað ef... ?
Við erum í lagi. Ég vona að enginn hafi slasast, allavega ekki alvarlega.