26.1.2007 | 09:06
Níu dagar í heimsendi
Heimsendir er útreiknaður þann 4. Febrúar 2007, á sunnudaginn eftir viku. Það er allavega heimsendir hvað mitt gamla líf varðar. Það er dagurinn sem unginn ætti að láta sjá sig. Allt mun breytast, ekki spurning. Það er kannski hægt að segja að síðustu mánuðirnir hafi verið æfing, þar sem við höfðum allt of mikið að gera við að lappa upp á hluti, lagfæra og endurnýja eldhúsið.
Alla vega, þetta er komið á tíma. Ef allt fer eins og ætlast er til, verður húsið orðið hávaðasamt og lyktandi innan örfárra daga. En hvað tekur við? Barnið veit það ekki ennþá, en það er auðvitað hálfur íslendingur. Það þýðir tvær fjölskyldur með ólíkan bakgrunn og tungumál. Ættingi minn á Íslandi varaði okkur við tungumáladæminu. Málið er að börn fædd erlendis tala oft ekki tungumál fjarfjölskyldunnar og ef þetta er ekki enskumælandi land, eru miklar líkur á að það geti alls ekki talað við ættingja sína.
Ég hef verið að lesa greinar um þetta og þær mæla með því að foreldrarnir tali eigin tungumál við barnið. Hún hollensku og ég íslensku. Við verðum að vanda okkur því að barnið notar okkur til að skilja tungumálin að. Ef ég tala hrærigrautinn sem ég tala núna, sambland þriggja tungumála, mun barnið ruglast, ekki skilja hvaða tungumál er hvað, og lenda í erfiðleikum seinna. Þá stend ég frammi fyrir tveimur vandamálum. Ef ég tala bara íslensku, hvernig tjái ég mig við fólk hér? Það sem verra er, það er ótrúlega erfitt að tala íslensku eftir að hafa verið erlends í 14 ár. Þegar ég kem heim stama ég og hika í nokkrar múnútur áður en móðurmálið kemst í gang. Það er ekki erfitt, því það eru allir að tala þetta í kringum mann. Að rausa þetta einn útí heimi er allt önnur gella. Spurning með að kenna beibinu ensku og fá ættingjana til að senda barnaefni með íslensku tali, svo það sé bara formsatriði að komast inn í málið seinna. Veit ekki.
Annars er baðið komið í hús. Ójá, þetta verður fæðing í vatni. Betra svona, því hollendingar eru strangir á því að fólk fæði heima hjá sér.
PS. Myndirnar tók ég hér í Halfweg í desember.
Seinna!!!