21.11.2006 | 16:52
Samferða...
Ég var að taka til á háaloftinu. Það þarf að búa til pláss svo að unginn komist fyrir þegar þar að kemur. Það er mikið að gera, tonnum af gömlum blöðum og tímaritum er hent og allt gamla draslið sem maður þurfti svo á að halda en gleymdi svo er fokið. Það er nefninlega alveg merkilegt hvað maður er góður að safna að sér rusli.
Það er samt annað sem situr eftir, eftir svona dag. Ég fann kassa með bréfum sem mér voru send í gegn um árin og hélt að væru löngu týnd. Elstu bréfin eru yfir tuttugu ára gömul. Þetta eru bréf frá skólafélögum á Skógum og Laugavatni. Seinni bréf voru send þegar ég var í London um miðjan síðasta áratug. Einhver eru yngri en það, en tölvupóstur fór að taka við um 1997.
Það er merkilegt hvað maður kynnist mörgum persónulega, verður vinur og býst við að þekkja viðkomandi það sem eftir er, en svo dettur þetta allt upp fyrir. Það hjálpar sennilega að hafa flakkað svona um því þetta er fólk frá Bretlandi, Þýskalandi, Ástralíu, Póllandi, Svíþjóð, Írlandi og fleiri löndum. Svo eru það bréfin frá íslendingum, fjölskyldunni sem er núna allt of langt í burtu. Þetta er eins og að ferðast aftur í tímann.
Stundum er ég ekki viss um að ég hafi tekið rétta ákvörðun með að flytjast úr landi. Af hverju var ég að yfirgefa allt og alla? Hitt er svo annað mál að hefði ég ekki farið, hefði ég ekki kynnst mörgum af bestu vinum mínum. Vinum sem ég hef ekki lengur samband við og sakna þegar ég er minntur á þá.
Af hverju hættum við að vera í sambandi við fólk sem okkur er kært um? Er einhver sem veit það?
-
PS! Endilega lesa þessa færslu og kjósa svo.