Maður án nafns

Hollendingar eru klikk og ef ég væri ekki fastur hér kæmi ég heim hið fyrsta. Spurning með að búa til eitthverja áætlun, plan sem miðar að því að koma manni heim. Spurningin er svo hvort Ísland sé eitthvað betra. Veit ekki, því þar sem möppudyrin skjóta rótum er voðinn vís.

Þannig er mál með vexti að það er ungi á leiðinni. Hann eða hún á að koma í heiminn í byrjun febrúar. Þetta er þó komið það langt að ef unginn kemur í heiminn núna, eru góðir möguleikar á að hann spjari sig bara fínt og vaxi úr grasi. Það var því kominn tími á að "viðurkenna" faðernið. Ef maður er ógiftur á maður ekkert tilkall til barnsins. Komi eitthvað fyrir mömmuna er pabbinn réttlaus og foreldrar hennar fá forræði. Móðurbróðirinn á meira tilkall til barnsins. Fjarskyld frænka mömmunnar á meira tilkall. Það þarf því að "viðurkenna" faðernið áður en unginn kemur í heiminn.

Við fórum til sýslumanns í gær til að ganga frá þessu formsatriði. Ætti ekki að vera stórt mál, nema skriffinnska setji strik í reikninginn. Í þessu landi er lítil hætta á öðru. Við vorum spurð hvað barnið ætti að heita. Furðu lostin sögðumst við ekki vita það. Nei, ættarnafnið. Ó, ég skil. Ættarnafn dömunnar er ekki yfir drifið fallegt, svo við völdum föðurnafn mitt. Í Hollandi getum við ekki fylgt íslenskum reglum, svo ég get ekki kennt barnið við mig. Við erum send inn í einhverja kompu, þar sem við bíðum í góðan hálftíma. Þá kemur sleggjan.

Möppudýr kemur inn í kompuna og segir að það sé vandamál. Allt í lagi, hugsa ég. Eitthvað formsatriði sem hægt er að leysa. Onei. Málið er að föðurnafn mitt er ekki ættarnafn. Ég má ekki búa til ættarnafn úr því, samkvæmt íslenskum lögum. Þar fyrir utan er einn reitur fyrir nafn á íslensku fæðingarvottorði og þar stendur mitt fullt nafn. Það er því ekki sagt skýrum stöfum hvað eftirnafnið er. Ég heiti því þremur eigin nöfnum og er á eftirnafns. Ef ég streytist á móti og krefst þess að mitt nafn verði notað, mun unginn fá eigið nafn og svo mitt fullt nafn sem eftirnafn. Nema að það eru eigin nöfn og ekki ættarnöfn og því má það ekki. Möppudýrið snérist því í hringi en lét okkur vita að hann gæti ekki hjálpað okkur. Ekki nema barnið fengi ættarnafn móðurinnar. Á þessu stigi vorum við orðin harðákveðin að það myndi ekki gerast.

Þetta er sem sagt möppudýravandamál á versta stigi og eins og hollendingum er lagið er svarið, því miður getum við ekkert gert. Bless. Það besta var að hann fór að líkja þessu við það hvernig múslímar blanda saman nöfnum pabbans, afans og langafans. Þannig átti ég að skilja að það sé ekki hægt að þjóna endalausum sérhagsmunum minnihlutahópa. Ég sagði honum að þetta hefði ekkert með múslíma að gera, ég væri ekki að blanda neinu saman og hvort hann vildi ekki bara skella eftirnafi mínu á barnið. Nei, það var ekki hægt.

Það er vonandi að svör og lausn fáist á Íslandi, því hér er enga lausn að fá. Frekar en fyrri daginn. 


Bloggfærslur 2. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband