Summertime

It's summertime, and the living is easy...

Allavega hér í Hollandi. Ég held að opinber hiti hafi verið um 25 stig í dag, en mælirinn í garðinum fór í 33 stig. Mælirinn er í skugga. Þá er bara eitt að gera, grilla pulsurnar sem mamma kom með. Á laugardag var ég allan daginn á hestamannamóti að kvikmynda hross að hoppa yfir hindranir. Það er soldið fyndið fyrir íslending að gera þetta því hollendingarnir fara öðruvísi að. Hér eru engir pelar eða lopapeysur. Menn eru uppáklæddir í rauð föt og líta út eins og pínulitlir tindátar úr Napoleon stríðunum á risastórum hestunum.

Svo er ég að kynnast Mats betur og hann okkur eftir því sem hann eldist og þroskast. Ég hef tekið upp á því að vagga honum þegar hann er óvær. Ég set tónlist á og þá erum við bara tveir einir í heiminum. Það er ekki sama hvað spilað er, en Fade to Black með Dire Straits er vel þegið, lengri Pink Floyd lögin, Katie Meluha. Uppáhaldið er samt útgáfa Paul McCartney á Summertime. Þetta er skemmtilega hrá og blúsuð útgáfa og Mats róast um leið og hann heyrir upphafstónana. Hann er yfirleitt sofnaður þegar lagið endar. Merkilegt að hann skuli taka eitt lag fram yfir önnur, en svona er það samt.

Meira seinna. Nú þarf ég að fara að sofa. Löng vika framundan.


Aðfaraflokkurinn III

Fyrir um ári síðan skrifaði ég tvær færslur þar sem Aðfaraflokkurinn var kynntur. Því miður hef ég verið vant við látinn og kosningabarátta okkar ekki fengið þá athygli sem nauðsynleg er til að komast í Kastljós. Við munum því ekki komast á kjörseðla heldur. Hér til vinstri hef ég því sett upp skoðanakönnun þar sem fólki gefst kostur að kjósa þann flokk sem það vill. Þetta eru okkar mini-kosningar. Aðra flokka þekkja lesendur sennilega, svo ég læt mér nægja að kynna stefnuskrá Aðfaraflokksins

Áttir og Meðlimir:
Aðfaraflokkurinn sér sig hvorki sem vinstri eða hægri flokk. Það er kerfi er löngu úrelt. Dæmi hver fyrir sig hvar við erum. Athugasemdir eru vel þegnar svo við getum valið lit á lógóið. Meðlimir flokksins eru ekki á veggspjöldum hér og þar því við trúum því að stefnumál, ekki sæt fés og vinapólitík skipti máli.

Fjárlög og Skattar:
Skattar munu haldast óbreyttir. Ísland er ekki það ofurskattland sem það var. Við viljum sem minnst aðhafast beint á vinnumarkaði, en ríkið hefur sínar skyldur sem því ber að sinna og þar þarf fjármagn til. 

Almannaheill:
Spítalar, dagheimili, skólar og almenningssamgöngur skulu vera á vegum ríkisins. Einkavæðing banka og margra fyrirtækja er hið besta mál, en stofnanir sem fara með almannaheill skulu ekki einkavædd því það stríðir gegn þjónustuhlutverki þeirra. Þau eru best sett sem eign þjóðarinnar.
Landsvirkjun má undir engum kringumstæðum verða einkavædd.
Langvarandi atvinnulausir (3 mán.) skulu eyða þremur dögum í viku á þartilgerðum skrifstofum þar sem þeim er veittur aðgangur að blöðum, netinu og ráðgjöf. Eftir 12 mánaða atvinnuleysi er fólki sköffuð atvinna, sem getur verið allt frá gatnavinnu til hreingerninga og annars viðhalds á almannastöðum. Enginn á að þurfa að vera atvinnulaus á Íslandi.

Atvinnumál:
Atvinnuleysi er hverfandi á Íslandi. Flestir vinna hjá fyrirtækjum sem ekki eru rekin af ríkinu. Þetta er stefna sem Aðfaraflokkurinn mun fylgja og skerpa. Ríkið hefur það hlutverk að hlúa að fyrirtækjum, sérstaklega sprotafyrirtækjum, og skapa umhverfi sem hvetur einstaklinga og fyrirtæki til að skapa auðævi. Hátækni- og ferðamannaiðnaður munu fá sérstakan stuðning því fjölbreytni og menntun er lykillinn að bjartri og öruggri framtíð.

Stóriðja:
Stóriðja á rétt á sér upp að vissu marki. Því marki hefur verið náð og mun Aðfaraflokkurinn beita sér fyrir stoppi á frekari virkjun landsins. Ástæðurnar eru þrjár:
- Náttúra landsins er meira virði en það sem fæst fyrir rafmagn í stóriðju. Sé svo ekki nú, verður það svo í náinni framtíð og er því engin ástæða til að eyða þeim möguleika fyrir fullt og allt
- Menntaðir íslendingar vilja fjölbreytt atvinnulíf. Þó að vinna í álveri sé ekki endilega slæm eru sennilega flestir sammála því að fjölbreytt atvinnulíf er meira virði en einhæft.
- Þeir peningar sem ríkið annars hefði fjárfest í stíflum er betur varið í aðrar atvinnugreinar. Erlend lán og þensla er ekki að borga sig, vextir eru of háir, aðrar framkvæmdir eru látnar sitja á hakanum.

Innflytjendur:
Ísland er frjálst og opið land. Fólki er því frjálst að flytjast hingað ef það vill. Þó skal það vera skilyrðum háð:
- Allir innflytjendur skulu tala íslensku innan tveggja ára. Ríkið mun sjá til þess að allir geti sótt námskeið. Þótt það sé ekki skylda að sæjka námskeið, skulu innflytjendur þó þurfa að standast próf.
- Á Íslandi ríkir trúfrelsi. Fólki er ekki mismunað eftir trú, en trú gefur heldur engin auka réttindi.
- Sömu atvinnuleysisreglur skulu gilda um alla. Innflytjendur munu þurfa að vinna til að eignast rétt á bótum á Íslandi.

Alþjóðamál:
Ísland er friðsamt land og þjóðin skal gæta fyllsta hlutleysis á alþóðavettvangi. Þetta þýðir þá líka að Ísland mun ekki taka þátt í stríði, nema það sé bundið til þess, svo sem með NATO sáttmálanum. Ísland skal aldrei styðja innrás í annað land.

Þetta er fyrsta uppkast svo ég hef sennilega gleymt einhverju, en athugasemdir eru vel þegnar og ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu. 


Sjö að Morgni

VagnÉg komst heim í þrjá daga helgina fyrir páska. Það var yndislegt að komast heim, það var verra að stoppa svona stutt. Ég hefði viljað hitta fleira af fólkinu sem ég þekki, eyða meira tíma með þeim sem ég hitti og kannski hitta nýtt fólk, eins og kannski einn eða fimm bloggara. Svo vildi ég hitta fólkið sem hjálpaði mér með myndina, en komst ekki í það. Ég hitti Jóel því hann þurfti að lesa inn texta sem verður í myndinni. Ég hefði viljað hitta Önnu Brynju, Sonju og alla hina. Það þýðir samt ekkert að kvarta. Ég fékk þrjá yndislega daga og þeir munu duga mér þangað til ég kemst heim næst.

HrafnÞað er merkileg tilfinning að búa erlendis, að vera ekki innan um fólkið sitt. Ég er viss um að við vanmetum flest vini og fjölskyldu þegar við erum alltaf hangandi utan í hvoru öðru. Þetta er samt ekki svo slæmt. Að búa erlendis víkkar sjóndeildarhringinn og hjálpar manni sennilega að "finna" sjálfan sig. Mér finnst að flestir ættu að prófa það í ár eða svo. Þaður skilur sjálfan sig betur, þá sem eru manni kærir og landið sem maður er uppalinn í.

ÁlftirEitt það besta sem ég gerði meðan ég var heima var að fara í göngutúr. Klukkan var sex að morgni og Mats, sem var í heimsókn hjá íslensku fjölskyldunni, vaknaði. Hann þurfti sína næringu. Mamman gerði skyldu sína og reyndi svo að sofna aftur. Mats var ekki á því og vildi vaka. Ég ákvað að fara fram úr og leyfa henni að sofa, enda tekur það á að sjá um svona lítið barn. Mats fór í vagninn og við fórum út. Við gistum hjá systur minni í Keilufellinu svo við röltum upp að kirkju, svo niður fyrir hana og niður að Elliðaánum. Mats var sofnaður svo ég rölti bara út í óvissuna og naut þess að hafa landið mitt undir fótum mér og hafa það út af fyrir Álftirmig. Ég mætti einhverjum skokkurum en þar fyrir utan var enginn á ferð. Myndavélin kom að sjálfsögðu með, eins og myndirnar hér sýna. Ég rölti niður með ánni að stíflunni og svo upp brekkuna og upp í hóla . Ég gekk Vesturbergið á enda og svo til baka. Þegar við komum til baka voru tveir tímar liðnir og við báðir endurnærðir eftir hreina loftið og hreyfinguna.

Ég gerði þetta því ég hafði tækifæri til þess. Ég man ekki eftir að hafa farið í margar gönguferðir meðan ég bjó heima. Spurning hvað maður gerir ef maður flytur heim
 einhvern daginn, hvort maður kunni þá ennþá að njóta umhverfisins eins og nú.

ÁlftirÞið sem búið heima, njótið hvers annars, njótið umhverfisins og ef þið vaknið of snemma, farið fram úr og út að labba. Það er ekkert eins gott og að koma aftur heim eftir að hafa verið einn með sjálfum sér og landinu sínu snemma að morgni.

Og að lokum, takk fyrir athugasemdirnar sem ég hef lesið en ekki svarað á liðnum vikum. Ég les þær allar en svara ekki alltaf. Það á eftir að lagast.


Heimsborgarinn

Mats Kilian - 9 viknaMats Kilian er búinn að koma í heimsókn til Íslands. Langafi hans varð 78 á mánudag og það var ekkert annað að gera en að gefa honum bestu afmælisgjöfina sem ég gat ímyndað mér. Við flugum heim á föstudag og eyddum helginni í faðmi fjölskyldunnar sem sér allt of lítið af okkur.

Flugið gekk vel. Mats svaf allan tímann, nema smá á bakaleiðinni, en þá brosti hann bara út að eyrum. Spurning hvort hann verði flugmaður.

Nú verð ég að hætta því hann er svolítið viðhaldsfrekur. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband