Tvær vikur á netinu

Stuttmyndin Svartur Sandur hefur nú verið tvær vikur á netinu. Eins og lesendur fyrri færsla vita var þetta tilraun til að sjá hvort það væri hægt að setja efni á netið og biðja fólk fallega um að greiða fyrir.

Við lifum í heimi kaupsýslu þar sem ekkert fæst fyrir ekkert og allt er til sölu. Þegar viss hagsmunasamtök lokuðu á vissa heimasíðu sem miðlaði skemmtiefni og forritum reis fólk upp og hrópaði óréttlæti. Það myndi greiða fyrir ef verðið væri ekki svona hátt og benti á, með réttu, að 2000 kr. og meira er ansi mikið fyrir kvikmynd á DVD diski.

Svartur Sandur hefur verið sóttur 799 sinnum síðan hann var settur á netið, 1. desember. Þetta er fínn árangur og meira en ég bjóst við. Mest var um niðurhal fyrstu dagana. Þess má geta að talan var 797 í gær, svo fokviðrið er farið hjá. Það má segja að myndin hafi fengið mikla dreifingu miðað við að flestir sem að henni komu eru óþekkt nöfn. Hins vegar er auðvelt að gera sér upp vinsældir þegar ekki þarf að greiða fyrir.

Af þessum 799 hafa tíu greitt fyrir myndina. Samkvæmt könnun hér til hliðar hefðu fleiri gert það ef birt hefði verið íslenskt bankareikningsnúmer. Ég er að reyna, en það er erfitt þar sem ég er í Hollandi. Getur einhver sagt mér hvað það kostað að millifæra til Hollands? Kannski að það sé lausnin.

Tíu greiðslur erum 1.2% sækjenda. Ef ég margfalda dæmið með fimm, samanber könnunina, yrðu það fimmtíu greiðslur fyrir 799 niðurhöl, um 6%. Gott eða slæmt? Dæmi hver sem vill.

Smá reikningsdæmi. Myndin kostaði um 350.000 kr. Sé þeirri upphæð skipt milli 799 manns, er útkoman 438 krónur. Það þarf ekki mikla kynningu til að koma niðurhölum í 3500. Þá þyrfti hver að greiða 100 krónur til að myndin stæði undir sér.  

Ég er óendanlega þakklátur öllum þeim sem hafa, og munu, leggja eitthvað til hliðar fyrir myndina. Þó er ég ekki viss um að þetta sé dreifingaraðferð framtíðarinnar. Er ekki iTunes dæmið það sniðugasta? Borga 200 kall og þú færð þáttinn eða stuttmyndina. Fá marga til að borga lítið? Þannig munar fólki ekki um greiðsluna, margir sjá myndina og hægt er að fjárfesta í næstu mynd.

Tvær vikur eru stuttur tími, jólaönnin og útlát að drekkja fólki, svo kannski er ekki alveg að marka dæmið enn sem komið er. Við sjáum til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Já tvær vikur er stuttur tími. Við skulum sjá hvað gerist. Til lukku með árangurinn þó að þú hafir nú ekki fengið peninga inn. Hver veit nema þetta eigi efitir að verða þér til góða samt.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 15.12.2007 kl. 16:33

2 identicon

Itunes eða svipað er ábyggilega mjög sniðugt, spurning samt hve mikið af 200 kallinum skilar sér til framleiðandans, en á móti er kanski meiri sala á svona áberandi stað eins og  itunes.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 14:49

3 identicon

Jæja, Víkingaflóinn hefur loksins opnað aftur eftir um 2 vikur af niðurtíma. Því miður tapaðist gamli gagnagrunnurinn, og með honum upplýsingarnar um hversu oft myndin hafði verið sótt, en síðast þegar ég leit á hana var það í eitthvað rúmlega 40. Myndina var ég hins vegar að senda aftur inn, og á þessari stundur eru 7 að sækja og 10 að deila myndinni

Þó hefur komið í ljós nýtt vandamál. Þetta Hollenska PayPal er ekki að taka við mínum (og annarra manna) PayPal aðgangi.. semsagt, við geutum ekki loggað okkur inn til að styrkja. Það er hins vegar hægt að gera þetta handvirkt í gegnum kerfið, þannig að spurningin er, hver er PayPal e-mail addressan þín ?

Ég held að þú ættir að gefa þessari tilraun aðeins meiri tíma, svona í ljósi þess að núna eru jólin og allir peningar uppteknir í annað, og jafnvel prófa þetta aftur síðar.

Það er annars alveg dagljóst að fólk situr og bíður eftir reikningsupplýsingum til að geta lagt inn á þig þá leiðina, þannig að endilega reyndu að redda því sem fyrst.

Varðandi iTunes málið hins vegar, þá langar mig að koma á framfæri sjónarmiði PC notanda sem á ekki iPod og mun aldrei eiga slíkt. iTunes er næst-verst hannaði hugbúnaður í heimi, og er hreint óþolandi í notkun. Ég tel víst að þú myndir sjá ennþá minni sölu af útgáfu á iTunes netinu, en þú ert að sjá í dag. Ég er alveg viss um það að ef A) greiðslumöguleikar eru fyrir hendi og B) efnið er þess virði að styrkja, þá muntu sjá slatta af styrkjum, þrátt fyrir að auðvitað er alltaf eitthvað fólk sem tekur bara allt sem frítt er og gefur aldrei neitt til baka.

Það VIRKILEGA vantar að geta lagt inn á þig beint :) 

BizNiz (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 00:16

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Jórunn, takk fyrir það. Ég vona að færslan hafi ekki virkað sem eitthvað raus, því ekki var hún ætluð sem slík. Ellefu hafa greitt nú, þ.a. eru tíu yfir 12 evrunum. Fólk vill því DVD diska, en dánlódið er þó sennilega framtíðin.

Gullvagn, mér skilst að iTunes taki 30% og skili restinni til útgefanda. Hvernig því er skipt fer svo eftir smningum milli hans og listamannsins. Það virðast vera blikur á lofti þar, því ég las um stuttmynd sem er seld gegn um iTunes, án milliliða. 70% fara því beint til framleiðanda/leikstjóra. Sú mynd er þó á ensku og hefur verið sýnd á hátíðum um allan heim. Man ekki hvað hún heitir.

BizNiz. Það væri gaman ef þú leyfðir okkur að fylgjast með hvað er að gerst í Víkingaflóa. Ég er að vinna í að koma reikningi í gagnið. Það er augljóst, ef skoðanakönnunin er skoðuð að flestir vilja borga þannig. Ég er auðvitað Mac-notandi og er því eitthvað sympatískari á iTunes og iPod, en maður verður að bjóða upp á það sem fólkið vill. AVI skrár, reikning, allt það. Ég er ekkert á leiðinni að loka á tilraununa alveg strax. Sjáum til. Hvað er verst hannaði hugbúnaðurinn? Nú er ég forvitinn.

Villi Asgeirsson, 18.12.2007 kl. 09:33

5 identicon

Það gæti þá kannski verið sniðugt að bjóða (svona framtíðar concept-hugsun hérna) upp á m4v útgáfu fyrir iPod spilarana, til sölu á iTunes til dæmis. iPod notendur eru hvorteðer iTunes notendur, og 70% af einhverju er alltaf betra en 0% af engu :D Svo væri boðið upp á AVI útgáfur með PC-notenda dreifingaraðferð (hver sem hún væri.... torrent eða annað). Svo gætirðu boðið upp á alvöru MKV eða annað HiDef format (veit ekki hvaða HD formöt þessir makkar eru að búa til) hreinlega gegn aðeins hærri greiðslu, til dæmis með því að þú myndir ekki dreifa því á netinu heldur bara senda diska eða eitthvað.

Af Víkinunum er það að frétta í augnablikinu að 24 hafa sótt myndina síðan nýji teljarinn kom upp, og amk. tveir segjast hafa styrkt þig. Kom einnig í ljós að hægt er að logga sig inn á Hollenska PayPal með því að setja upphæðina FYRST inn, og  fara svo í að skrá sig inn.. á eftir að sannreyna það sjálfur.

Hver er verst hannaði hugbúnaðurinn? Microsoft Windows Media Player, útgáfa 10 og eldra. Er nýbyrjaður að prufa útgáfu 11, og get því ekki sagt með vissu að hann sé sama draslið og hinar :D 

BizNiz (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 20:22

6 identicon

Haha ég er fræg ! x'D

Viðja ! (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband