Færsluflokkur: Mannréttindi

Lygar

Arabíska vorið er að breytast í vetur. Túnis má kjósa og það er í sjálfu sér gott. Kosningaþáttaka er um 80% sem er framar vonum. En... og það er stórt en. Sá flokkur sem flest atkvæði virðist fá er íhaldssamur trúarflokkur sem vill innleiða sharia lög. Það er talað um nýja stjórnarskrá. Á hverju verður hún byggð? Og hvað gerum við, vesturveldin, ef túnisar kjósa yfir sig hóp öfgamanna? Nú eru "frelsarar" Líbýu að tala um sharía. Til hamingju, NATÓ.

Í vikunni var því lýst yfir að Líbýa væri frelsuð undan oki Gaddafi. Harðstjórinn er dauður. Gott mál, því það hefði verið ansi erfitt fyrir NATÓ að svara fyrir þá stríðsglæpi sem við höfum orðið sek um. Að svara því hvernig stjórn sem innleiddi heilbrigðis- og skólakerfi sem Bandaríkin geta ekki státað sig af og Evrópa er að skera niður gat verið verri en þeir öfgamenn sem nú munu komast til valda.

Málið er að óþekkir "harðstjórar" gátu verið pirrandi því þeir hlustuðu ekki alltaf á okkur. Þeir gerðu það sem þeir vildu, oft það sem þeim fannst vera betra fyrir sína þjóð. Þeir voru ekki algóðir, langt í frá. Gaddafi og Saddam voru báðir morðingjar. En það eru fleiri. Við og vinir okkar í öðrum löndum meðtalin.

Ástæðan fyrir innrásunum í Írak og Líbýu hafa ekkert með mannúðarmál að gera. Þau hafa allt með olíu, gull og deyjandi heimsveldi að gera. Við virðumst vera að steypa okkur út í alheimsstríð til að verja peningakerfi vesturlanda, sem er úr sér gengið.

Við höfum alltaf trúað að ef alheimsstríð brytist út, yrðu það vondir kallar frá öðrum löndum sem við þyrftum að verjast gegn. Við yrðum alltaf góðu bandamennirnir. En við erum að setja stríðið af stað. Við erum að gera innrásir í önnur lönd. Við erum nasistaþýskaland 21. aldarinnar. Og alveg eins og þýska þjóðin á sínum tíma, erum við að falla fyrir lyginni.

Ég læt tvö myndbönd fylgja með. Annað útlistar ástæðurnar fyrir innrásinni í Írak. Hitt er vitnisburður sjónarvotts, fréttakonu sem sá eyðilegginguna og drápin sem við, vesturveldin, NATÓ stóðum fyrir. Þetta stríð var háð í okkar nafni. Okkur ber skylda til að skilja hvað er í gangi. Gerðu þér þann greiða að horfa á þessi myndbönd. Mundu að Ísland studdi bæði stríðin í Írak og Líbýu.

 

 


mbl.is Líbíumenn taki upp sjaríalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Telst það morð ef ríkið fremur?

Bandarikin hljóta að vera hrokafyllsti hræsnarinn í samfélagi þjóðanna. Þau þykjast vera lýðræðislegr réttarríki og ráðast á önnur ríki ef þau erru ekki nógu lýðræðisleg. Sérstaklega ef þau drepa eigin þegna. Ríki sem gera svoleiðis er stjórnað af vondum einræðisherrum sem verður að koma frá. Sérstaklega ef olíu er að finna og einræðisherrarnir eru ekki til í að gefa Ameríku forgang í svarta gullið. Annars eru þau látin í friði.

Í nótt sýndu Bandaríkin að þau eru sjálf þriðja heims ríki sem drepur eigin þegna. Sjö af níu vitnum hafa dregið framburð sinn til baka. Eitt þeirra tveggja sem halda fast við söguna er maður sem hefur sjálfur játað á sig morðið. Það eru engar sannanir fyrir því að sá sakfelldi hafi framið glæpinn. Hann hefur neitað sakargiftum í 22 ár. En hann varð að deyja. Myrtur af ríkinu sem vill ekki viðurkenna herfileg mistök í meðferð málsins.

Hverjum er ekki sama. Hann er svartur og vitnið var hvítt. Þetta eru suðurríkin. Þar hafa þeir sína hentisemi í svona málum.

Það er alveg stórmerkilegt að vestrænt ríki skuli enn stunda morð á eigin þegnum. En þetta er svo sem ekkert venjulegt vestrænt ríki. Þetta er Ameríka hin stórfenglega, sem hikar ekki við að gera innrás í önnur lönd, ræna fólki og senda það í fangabúðir án dóms og laga. Þetta er Ameríka sem tekur það ekki í mál að Palestína verði sjálfstætt ríki. Þetta er hrekkjusvínið, hrottinn sem eignar sér skólalóðina, stelur namminu okkar og allir eru hræddir við.

Er ekki kominn tími til að við stöndum upp og látum taka nafn Íslands af lista hinna undirgefnu sem studdu stríðið í Írak og morðið á Saddam Hussain? Er ekki hugmynd að draga stuðning okkar við olíu/gull stríðið í Líbýu og hið óumflýjanlega morð á Gaddafi til baka? Hvernig datt okkur í hug að styðja þann gjörning eftir allt sem á undan er gengið?

Segjum hingað og ekki lengra. Stöndum upp í hárinu á hrekkjusvíninu. Morð eru glæpur og ættu aldrei að vera framin af ríkjum.


mbl.is Troy Davis tekinn af lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er ekki sama?

Það er næstum sama hvar í heimi er, stjórnvöld eru spillt og bera enga virðingu fyrir plebbunum. Sagan af fréttamönnunum er ekkert leyndarmál. Ef dauði þeirra var slys, er Hallgrímskirkjan súkkulaðibúðingur með piparsósu.

Stuttu fyrir innrás Indónesíu var bandaríkjaforseti í heimsókn. Áður en hann kom í heimsókn, voru indónesísk yfirvöld beðin um að bíða með innrásina þangað til forsetinn væri farinn. Annars liti þetta svo illa út fyrir Bandaríkin. Góða Heimsveldinu var skítsama um íbúa Austur-Tímor. Þau vildu bara koma í veg fyrir "bad PR".

Fréttamennirnir sem fréttin fjallar um voru teknir höndum af indónesum. Þeir voru stimplaðir njósnarar og pyntaðir til dauða. (viðkvæmir geta hætt að lesa hér) Þeir voru hengdir upp á fótunum. Limirnir voru skornir af þeim og troðið upp í kok svo að þeir köfnuðu. Síðan voru líkin brennd.

Þetta heyrði ég fyrir 15 árum. Þetta er enginn nýr sannleikur. Þetta er saga sem hefur verið þekkt í tæp 35 ár. En pólitíkin er þannig að sumt er ekki nógu spennandi. Sumt tölum við ekki um. Sigurvegarinn skrifar söguna og við trúum því sem okkur er sagt.

Þetta er spilltur heimur og yfirleitt er okkur skítsama um það. Þetta er óréttlátur heimur, en við höfum ekki tíma til að láta það koma okkur við nema óréttlætið beinist að okkur sjálfum.


mbl.is Blaðamenn voru pyntaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænmetisæta?

Svo er fólk ennþá hissa þegar ég segist vera grænmetisæta.

Ég hætti að éta két fyrir mörgum árum þegar kom í ljós að kýr eru látnar éta kýr í mjöli því það er eitthvað ódýrara en að gefa þeim kýrvænt fóður. Hér á meginlandi Evrópu lifa dýr við hroðalegar aðstæður. Milljón kjúklingar sitja saman með nefið í annars rassi því það er ekkert pláss til að hreyfa sig. 

pig-in-livestock-truck

Svín eyða sínu lífi í stýjum og sjá aldrei dagsljósið, nema kannski síðustu 24 tímana sem það tekur að keyra þau í sláturhúsið. Þau eru nefninlega oft flutt þúsundir kílómetra til slátrunar svo það megi setja á þau Made in... miða þess lands sem best er að eiga við skattalega séð, eða gefur möguleika á nafni eins og Parmaham eða eitthvað álíka. Oft lifa þau ferðina ekki af vegna þorsta eða hnjasks. Það er í raun sama hvar drepið er niður, alls staðar er framkoman við skepnurnar til háborinnar skammar. Um daginn heyrði ég af kjúklingabúi sem var að byggja nokkurra hæða hænsnahús fyrir 10 milljónir kjúklinga. Það kom víst betur út peningalega séð. Svo hef ég ekki einu sinni minnst á andalifrarkæfuna sem ekki er hægt að framleiða nema pynta dýrin til dauða.

Þessi frétt gerir ekkert nema styrkja mig í þeirri trú að ég hafi tekið rétta ákvörðun fyrir öllum þessum árum. Ég er ekki á leiðinni í fleskið á næstunni. Ætli ég eigi nokkurn tíma eftir að styðja þennan atvinnuveg aftur? 


mbl.is Grísir soðnir lifandi í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þökk sé Bob og Bono? - Nýlendustefna okkar tíma.

Í Afríku er nóg af gulli og demöntum, olíu og ræktarlandi. Þetta ætti því að vera ein ríkasta heimsálfa á jörðinni. Þó er hún sú fátækasta. Fáir búa við verri kjör en þeir sem vinna við það sem best gefur af sér, demantagröft og olíuvinnslu. Vesturlönd sjá til þess að Afríka haldist fátæk. Við viljum auðlindirnar á okkar kjörum og okkar skilmálum.

Fallegt

Þegar hinn almenni vesturlandabúi fær nóg og fer að rífa kjaft, er farið af stað með söfnun svo byggja megi trúboð sem útbýta hrísgrjónum og fiskimjöli svo fólkið þurfi ekki að drepast alveg. Í staðinn er því kennt hvernig Guð skapaði heiminn á viku og hvernig sonur hasn kom til að bjarga oss frá illu. Þeim líka.

Þetta virkar ekki. Afríka er jafn fátæk og hún var fyrir LiveAid hljómleikana í júlí 1985. Það er sama hversu mikið við gefum, það dugar ekki til. Ég get gefið fátækum manni að borða daglega, en ef ég gef honum ekki tækifæri til að bjarga sér sjálfum, mun hann koma á hverjum degi og biðja um meira.

Drop the Debt virtist vera falleg hugmynd. Loksins átti að fella niður skuldir svo afríkuríkin gætu byrjað upp á nýtt og komið sér upp úr skuldafeninu. Live8 var sett upp 2005, Bob Geldof barðist af krafti og Bono lét auðvitað sjá sig, enda sér hann sig sem einhvern mannúðarmessías (í boði BlackBerry). Pólitíkusar töluðu um bjartari framtíð og jafnrétti ríkjanna. En hvað gerist? Pólitíkusar og stjórnendur stórfyrirtækja geta ekki verið góðir, þeir geta ekki fellt niður skuldir og látið það duga. Nei, hugsunarhátturinn "what's in it for me" verður seindrepinn.

Til að skuldir verði felldar niður, verður viðkomandi land að taka upp vestræna viðskiptahætti. Fella niður innflutningstolla, því það er svo gott fyrir frjáls viðskipti. Eftir áratuga fátækt er kannski um 70% landsmanna kotbændur. Þeir framleiða korn og hrísgrjón og selja á mörkuðum nálægt heimilinu. Þegar öll innflutningshöft eru fjarlægð, fyllist markaðurinn af niðurgreiddum landbúnaðarvörum frá Evrópu og Bandaríkjunum. Okkar vörur eru ódýrari því ríkið er þegar búið að greiða hluta framleiðsluverðsins. Kotbændurnir geta ekki keppt, bregða búi og flytjast í fátækrahverfi í útjaðri stórborganna. Hefur líf þeirra batnað við að ríkið losnaði við skuldirnar? Nei, þvert á móti.

Þegar megnið af fátækum kotbændunum eru farnir á hausinn og fluttir burt, er það einfalt og ódýrt fyrir stórfyrirtæki á vesturlöndum og í Kína að kaupa upp heilu löndin í Afríku. Það kemur sér vel eftir 10-20 ár að eiga mikið ræktarland, því við horfum fram á gríðarlega fjölgun mannkyns, fólks sem þarf að éta. Ofan á það bætist græna hreyfingin sem heimtar græna orku. Biofuel verður að framleiða og þá þarf mikið flæmi lands.

Það er því engin tilviljun að stórfyrirtæki, og jafnvel erlend ríki, séu að kaupa upp land í Afríku akkúrat núna. Þetta er fjárfesting til framtíðar.


mbl.is Kínverjar kaupa upp Afríku í kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband