Færsluflokkur: Mannréttindi

Fyrirmyndarlandið?

Hvernig getur þetta staðist? Það er nógu hrikalegt að fá krabbamein, þótt það þýði ekki gjaldþrot í leiðinni. Hvar er mannúðin í þeim sem semja fjárlögin? Hvað mun krabbameinsmeðferð kosta þegar sjúkrahús eru farin að láta eins og hótel?

Er þetta fyrirmyndarlandið? Er þetta Íslandið sem við viljum búa í? Erum við stolt af þessu?

En þetta er allt í lagi, því það er frítt að fara í kirkju. Spurning með að taka up gamla kerfið og biðja bara guð um hjálp ef maður veikist.


mbl.is Milljón úr eigin vasa í meðferðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta virkilega eitthvað sem við viljum ganga í?

Evrópa er ríkasta svæði í heimi. Þó leggjumst við svo lágt að heimsækja þriðjaheimsríki og biðja um peninga? Kína er á barmi hruns og við mjálmum í þeim að styðja Evrópu í krísunni?

Er ESB gengið af göflunum? Er ekki snefill eftir af sjálfsvirðingui hjá þessu fólki? Skilja þessir "háu herrar" ekki að ef Kína fer að fjármagna einhverskonar gervibata - því án uppstokkunar kerfisins erum við ekki að leysa neitt - vilja þeir hafa eitthvað um evrópumál að segja? Trúum við virkilega að kínverjar muni hjálpa okkur af því þeir eru svo góðir í sér? Viljum við að ríki sem drepur þegnana án dóms og laga*, leyfir barnaþrælkun og gefur skít í mannréttindi yfirleitt hafi eitthvað með okkur að gera? Viljum við gefa Kína höggstað á okkur?

Svo er þetta skemmtilegt. "Barroso gerði lítið úr mótmælum og verkföllum í einstökum evruríkjum vegna efnahagsástandsins og sagði að það væri réttur fólks að mótmæla í opnum samfélögum." Auðvitað gerir hann lítið úr þessu, því Brussel elítunni er skítsama um hvað fólki finnst. Evrópustórnarskráin er gott dæmi. Þegar fólk í nokkrum evrópulöndum hafnaði henni, var nafninu breytt í Lissabonsáttmála og sett í lög. Það þarf nefninlega ekki að kjósa um einhvern sáttmála. Og þegar ekki er hjá kosningum komist, er kosið aftur og aftur þar til rétt niðurstaða fæst. Svo aldrei meir.

Ísland hefur ekkert í þetta samband að sækja. Ekki í bili allavega. Fyrst verðum við að taka til heima hjá okkar, koma efnahaginum í þokkalegt horf. Það getur ekki verið gott að setjast að samningaborðinu með allt niður um sig. Hvernig eigum við að geta samið um nokkurn skapaðan hlut í þeirri stöðu sem við erum nú? Svo er ágætt að bíða átekta þar til róast um evruna og ástandið almennt innan ESB áður en við ákveðum að ganga í sambandið.

ESB er ólýðræðislegt og smáríki hafa sama og engin völd. ESB málið hefur orðið til þess að núverandi stjórn hefur klofnað og ekki komið brýnari málum í verk.

Tökum þessu rólega. Vinnum í okkar málum og fylgjumst með ESB úr fjarlægð. Okkur liggur ekkert á. 

* Sjá þessa frétt. Vara við myndum sem geta komið fólki úr jafnvægi. http://barbadosfreepress.wordpress.com/2008/10/03/would-bussa-have-accompanied-barbados-chief-justice-and-prime-minister-to-chinese-embassy-celebration/


mbl.is ESB þróast áfram þrátt fyrir krísuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk?

Arion Banki ber fyrir sig hryðjuverkum. Að fái hann ekki að njósna um landsmenn, geti þeir stutt við bakið á hryðjuverkastarfsemi.

Mér hefur sýnst á undanförnum árum að bankarnir, ekki síst þessi, séu að fremja stærsta hryðjuverk sem íslendingar hafa orðið fyrir. Bankarnir tóku stöðu gegn krónunni. Þeir spiluðu fjárhættuspil með fé landsmanna. Þeir settu þjóðina á hausinn og græða nú á tá og fingri.

Maður þarf ekki að sprengja eitthvað í loft upp til að eyðileggja samfélag. 

Hafi ég rangt fyrir mér, vil ég endilega heyra það. 


mbl.is Setur dagsektir á Arion banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fari IMF og spillingarpakkið fjandans til!

Það mátti loka Þjóðleikhúsinu og öðrum menningarstofnunum, en bankarnir skyldu fá sitt? Ef þetta sýnir ekki geðveikina, að peningamafían er á annarri plánetu en við hin, þá veit ég ekki hvað ætti að gera það. Íslendingar byggðu upp menningarlíf sem fáar þjóðir geta státað af. Íslenskar bókmenntir, leiklist, myndlist, tónlist. Er þetta minna virði en peningar?

Pabbastrákarnir fóru í útrás í boði spillingarhunda í embættismannakerfinu. Þeir spiluðu af sér og töpuðu öllu, eins og þeir væru dauðadrukknir unglingar á sóðabar i rauðu hverfi í einhverri hafnarborginni. Svo koma dólgarnir sem notfærðu sér heimsku pabbastrákanna og vaða um allt á skítugum skónum.

Svo heyrum við endalausar fréttir af því hvað IMF (ég segi enn IMF, neita að íslenska nafnið á þessum glæpasamtökum) finnst þjóðir heims eigi að gera. Herða sultarólina. Borga meiri skatta. Skera niður þjónustu. Drepa gamalmenni með því að leyfa því að frjósa í hel, afskiptalaust. Segja okkur að kyngja því að nú er kreppa og að hún er pínulítið okkur að kenna en að feitu grísirnir með bindin séu nú alveg að reyna að bjarga okkur. En taka þeir sjálfir nokkurn tíma ábyrgð? Nei, auðvitað ekki. Þeir setja allt á hausinn, koma svo og sópa allt til sín.

Er ekki komið nóg af arðráni og spillingu. Eins og einhver ímynduð tala á einhverjum bankareikningi, sem eiginlega er ekki til ef maður spáir í það, sé mikilvægari en leikhús, söfn, listir og menning? Þvílík sturlun!

Ég þakka núverandi stjórnvöldum fyrir að hafa þó haldið skítugum IMF krumlunum frá menningarstofnununum sem þjóðin hefur byggt upp á áratugum. Hún má þó eiga það.


mbl.is AGS vildi loka Þjóðleikhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk pyntar fólk.

Stundum les maður fréttir sem fær blóðið til að sjóða. Pyntingar á börnum er það ógeðslegasta sem hægt er að hugsa sér. Ég vona að Assad og aðrir með jafn viðbjóðslegt innræti mæti þeim örlögum sem þeir eiga skilið.

Því miður er það þó svo að maður er farinn að taka öllum svona fréttum með fyrirvara. Ekki að ég efist um að þetta sé að gerast, að sýrlensk börn séu tekin, brennd með sígarettum, gefið raflost og fleira. Að æsku þeirra sé rænt. Ég efast ekki um að svipaðir hlutir gerist í mörgum löndum, um allan heim. Svona fréttir koma bara svo oft upp vegna þess að vesturlönd vilja fara í stríð við viðkomandi land. Vonum að það sé ekki málið hér.

Þegar yfirvöld standa fyrir morðum og pyntingum, þurfa þau hjálp einstaklinga sem eru tilbúnir til að framkvæma voðaverk sem venjulegt fólk getur ekki ímyndað sér. Þetta gerist yfirleitt í nafni einhvers guðs sem fólk telur gefa sér einhvern rétt til að homa fram við aðra af algerri vanvirðingu því þeir aðhyllast ekki sömu hjátrú. Þetta gerist líka vegna óttans við einhvern leiðtoga. Maður er hlekkur í keðju og þorir ekki að fylgja samviskunni vegna þess að þá eru einhverjir bitlingar teknir af manni, eða að refsingin við að óhlýðnast er samviskunni yfirsterkari. Það er betra að pynta börn, en að eiga það á hættu að lenda á svarta lista yfirvalda. Stundum er það geðveiki sem fær fólk til að pynta og drepa, stundum meðvirkni og stundum ótti.

Bradley Manning á að hafa lekið skjölum sem voru svo birt af Wikileaks. Skjölum sem sýndu að hermenn bandamanna voru ekki alltaf að berjast við vondu kallana fyrir hin góðu öfl. Þau sýndu að hermennirnir okkar, sem við sendum til Íraks, Afganistan og Lýbíu með samþykki okkar, voru kerfisbundið að myrða og pynta óbreytta borgara. Skjölin sýndu að við erum ekki góði kallinn. Við erum nasistarnir sem stilltu fólki upp við vegg og skutum það fyrir minnstu sakir, rómverjarnir sem útrýmdu heilu þorpunum ef þau voru ekki til friðs. Við vorum innrásarherinn og við höguðum okkur þannig. Allt gerðist þetta í okkar nafni, því íslendingar samþykktu þessi stríð.

Hann á að hafa lekið þessum skjölum og var því hnepptur í gæsluvarðhald. Honum var haldið vakandi í 23 tíma á dag, hann fékk ekki að tala við neinn nema lögfræðing, hann fékk enga ábreiðu í pínulitla klefanum. Hann var pyntaður, niðurlægður og brotinn niður andlega. Haldið í þessu ástandi í hálft annað ár án þess að vera ákærður. Pyntaður án dóms og laga.

Bandaríkjamenn hafa reynt að þaga tilvist hans í hel síðan málið kom upp. Fæstir sem ég tala við hafa nokkra hugmynd um hver Bradley Manning er, þaðan af síður af hverju þau ættu að vita af honum. Þegar minnst er á hann í fjölmiðlum, er oft tekið fram að hann sé hommi, eins og til að gera minna úr málinu. Snúa því upp í hálfgert grín, beina umræðunni annað.

Af og til koma svo fréttir sem fá mann til að brosa og trúa á mannkynið. 

Í dag tók Hreyfingin stórt skref þegar hún tilnefndi Bradley Manning til friðarverðlauna Nóbels. Hvort hann fái verðlaunin er erfitt að segja, en þetta mun auka umfjöllun um hann í heimspressunni. Fólk mun hugsanlega heyra af honum í fyrsta sinn, skilja af hverju hann hefur verið í haldi án dóms og laga og sjá að heimurinn er ekki endilega eins og okkur er talin trú um. Að við séum ekki endilega góðu kallarnir, að það sé ekki hægt að fara í stríð til að halda friðinn, að ástæðan er ekki að viðhalda mannréttindum og bjarga þjóðum heimsins frá illum einræðisherrum. Að það hangi alltaf eitthvað á spítunni þegar ríki fara í stríð. Kannski að fólk fari að skilja að fyrsta fórnarlamb hverrar styrjaldar er sannleikurinn. Almennir borgara fylgja svo fast á eftir.

Almenningsálitið endaði Víetnam stríðið. Það getur líka endað stíðið við hryðjuverkin ef fólk veit um hvað það snýst. Án þegjandi samkomulags þegnanna, geta ríki ekki farið í stríð. Án hermanna sem tilbúnir eru til að drepa, yrði ansi fámennt á vígvöllunum.

Hreyfingin er lítill flokkur á Íslandi, en í dag hafði hún mikil áhrif á heimsvísu. Hún sýndi að örfáir einstaklingar geta haft mikil áhrif. Að við skiptum öll máli. Ég óska þeim innilega til hamingju. 


mbl.is Börn pyntuð á skelfilegan hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr og Tré

Íslenskt samfélag er helsjúkt. Það er helsjúkt eins og barn í þriðjaheims ríki. Lækningin er til, en ekki til staðar.

Við lifum í réttarríki. Öll dýrin eru jöfn. Það á þó til að vera ekki alveg svona einfalt í raunveruleikanum. Stundum eru dýrin sem setja reglurnar jafnari en önnur. Þau geta brotið af sér, en enginn getur snert þau. Þau geta sópað til sín auðlindir og fjármagn, löglega og ólöglega, en þau eru yfir lögin hafin. Ekki formlega. Öll dýr eru jöfn. Það getur bara verið svo erfitt fyrir embættismenn innan dómsvaldsins að slá á höndina sem réttir þeim bitlinga í formi utanlandsferða, fjárframlaga og fleira. Það er kannski ekki við stjórnmálamenn og aðra embættismenn að sakast. Kannski er þetta bara mannlegt eðli. Við erum alltaf hrædd við að eiga ekki nóg, að verða blönk á einhverjum tímapunkti. Best að safna í sarpinn. Svo er svo erfitt að pirrast út í þá sem fjármagna kosningabaráttuna og annað sem nauðsynlegt er. Eins og hundurinn, passa þeir upp á þann sem gefur þeim að éta.

Kjósendur verða bara að sjá um sig sjálfir. Redda sér. Enda hafa þeir ekkert fjármagn til að kaupa sér velvild þeirra sem setja lögin. Verðtryggingin er að sliga þjóðina. 40.000 heimili skulda meira en þau eiga. Yfir hundrað þúsund manneskjur, þriðjungur þjóðarinnar eða meira, er í svo til vonlausri stöðu. Sum þeirra geta sjálfum sér um kennt. Þau eyddu um efni fram. En flestir sem ég þekki lifðu lífinu eins og hvert annað meðaldýr. Unnu allan daginn og vonuðu að þetta slyppi um mánaðamótin. Þau keyptu sér hús og bíl og fóru til útlanda á 2-3 ára festi. Lifðu ósköp venjulegu lífi. Þau eru ekki fórnarlömb eigin mistaka, heldur voru þau í röngu landi á röngum tíma. Kerfið hrundi og ákvað að heimilin skyldu bæta það sem miður fór.

Hið svokallaða hrun, eins og sumir eru farnir að kalla það, er langt í frá orðinn fjarlægur kafli í íslandssögunni. Það er enn í fullum gangi. Á meðan verðtryggingin er við lýði, á meðan bankamennirnir sem spiluðu með þjóðina, viðskiptaséníin sem keyptu og seldu stórfyrirtæki og bjuggu til falskt góðæri og stjórnmálamennirnir sem sáu hvert stefndi en gerðu ekkert... á meðan þetta fólk er ekki látið svara fyrir sig, á meðan hrunið er ekki gert upp, á meðan fólk er borið út af heimilum í nafni bankanna, mun þetta svöðusár á þjóðarsálinni ekki gróa. Á meðan löggjafavaldið tekur fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu, getum við ekki sagt að við búum við réttarríki. Á meðan stjórnmálamenn leyfa kaupsýslumönnum að segja sér fyrir verkum, búum við ekki við lýðræði.

Af hverju gerist ekkert ef þriðjungur þjóðarinnar er á hausnum og þúsundir flytja ár hvert af landi? Af hverju mætir einn þúsundasti þjóðarinnar á fund um verðtrygginguna? 0.3% þeirra sem eru í vanda vegna hennar. Sömu hræðurnar og voru þarna síðast? Hvernig getur fámennur hópur haldið heilli þjóð í gíslingu? Svarið er einfalt. Við sjáum ekki trén fyrir skóginum. Vandamálin eru svo stór að við skiljum þau ekki eða gefumst upp á þeim. Við tuðum yfir stráka- og stelpuís. Við rífumst um það hvort konur eigi að raka sig eða ekki. Við missum okkur í smámálum sem skipta engu máli því við skiljum þau. Á meðan erum við heilaþvegin af öflum sem vilja halda í völdin, sama hvernig farið er að því. Við flytjum úr landi, dragandi skuldahalann á eftir okkur, eða rífumst um ís, trúandi því að þetta hrun hafi kannski aldrei orðið.

Við munum kjósa fólk á þing innan árs. Eigum við ekki að vanda okkur svolítið?


mbl.is Unga fólkið flytur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einhver áhugi á uppgjöri?

Það er þá komið á hreint. Meirihluti þingheims hefur ekki áhuga á að gera upp hrunið. Það er rausað um að ljótt sé að kenna einum manni um það sem miður fór. Ég get ekki séð að nokkur maður sé að gera það. Málið snýst alls ekki um Geir H. Haarde.

Fleiri tóku þátt í fylleríinu. Auðmenn, bankamenn, útrásarvíkingar, stjórnmálamenn. Hrunið byrjaði um svipað leyti og uppsveiflan. Bankar voru seldir vinum fyrir lánsfé úr hinum bönkunum. Viðskiptalífið sveik, svindlaði og stakk undan á meðan embættismenn horfðu í hina áttina, fullir á freyðivíni í boði útrásarinnar. Geir var ekki einn um að gera ekkert. Allt kerfið var sjúkt.

Kosið var um hvort lögsækja ætti fjóra þingmenn. Á endanum var einn valinn, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005 og forsætisráðherra til 2009. Það var fullkomið pólitískt klúður að sleppa hinum þremur, en það gerir Geir ekki stikkfrí. Ekki frekar en maður sleppti einum af því hinir þrír sem tóku þátt í ráninu (nauðguninni eða hvaða glæp sem framinn hefði verið) komust undan á hlaupum. Geir var í hringiðunni sem fjármála- og forsætisráðherra og hlýtur að bera einhverja ábyrgð. Hversu mikil hún er, veit maður ekki og það kemur ekki í ljós ef málið verður látið niður falla.

Hlutverk Landsdóms er ekki að hengja Geir. Ég hef engan sérstakan áhuga á að sjá hann í litlum klefa á Litla Hrauni. Efast um að margir hafi áhuga á því. Það sem ég vil sjá er uppgjör á áratugnum fyrir fall bankanna. Opið, hreinskilið og ýtarlegt. Það varð alsherjarhrun og við sjáum ekki fyrir endann á afleiðingunum. Ef við ræðum ekki málin, veltum steinum og skoðum ormana sem leynast undir þeim, komumst við aldrei upp úr þessu kviksyndi. Þjóðin á það skilið að vita hvað gekk á. Vita hvaða reikninga hún er að borga og af hverju.

Það er gott að halda til haga hvaða þingmenn kusu um málið og hvernig. Gæti hjálpað í næstu kosningum. Ég veit að enginn í "nei" hópnum fær mitt atkvæði.

já:

Arna Lára Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús M. Norðdahl, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman

nei:

Atli Gíslason, Árni Páll Árnason, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Kristján L. Möller, Lilja Mósesdóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson

fjarvist:

Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson

fjarverandi:

Björgvin G. Sigurðsson 


mbl.is Frávísun felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær kemur Íslenska vorið?

Ég var að skoða bloggfærslur sem ég skrifaði fyrir þremur árum. Búsáhaldabyltingin var þá í fullum gangi. Ég skrifaði um táragasið sem lögreglan beitti gegn mótmælendum og þögnina úr forsætisráðuneytinu. Ísland var að upplifa eitt hrikalegasta efnahagshrun sögunnar og forsætisráðherrann sá enga ástæðu til að tala við þjóðina. Hann beitti lögreglunni þó óspart.

Er það þetta sem við vijum? Sjálfstæðisflokkinn í stjórn aftur? Flokkinn sem keyrði okkur upp í skerjagarðinn og kennir núverandi stjórn um hrunið? Flokkinn sem hikar ekki við að siga löggunni á mótmælendur?

Bjarni Ben vill að alþingi kjósi aftur um það hvort Geir eigi að fara fyrir Landsdóm. Það verður að vera þingmeirihluti fyrir því, segir hann. Var ekki þingmeirihluti til staðar? Var fyrri kosningin ómerk að einhverjum ástæðum? Ef svo er, væri þá ekki hugmynd að kjósa um ráðherrana fjóra sem rannsóknarnefndin mælti með að færu fyrir Landsdóm?

Bjarni er að leika sama leik og ESB, að kjósa um mál þar til rétt niðurstaða fæst og svo ekki meir.

En hvað um það, þetta mál er móðgun við þjóðina. Það er móðgun við fólkið sem missti allt, sem sá sér ekkert annað fært en að flýja land. Það er móðgun við þá sem stóðu á Austurvelli í janúarkuldanum, börðu á potta og pönnur í von um sanngjarnara þjóðfélag og lét sig hafa það að vera spreyjað með piparúða.

Það er sannarlega móðgun við níumenningana sem Ögmundur gat ekki skipt sér af vegna stöðu sinnar sem ráðherra. 

Ég vona sannarlega að þingmenn hafi rænu á að fella þessa tillögu. Ekki af því ég vilji sjá Geir H. Haarde dæmdan og lokaðan inni. Alls ekki. Hann má sýkna ef Landsdómi finnst ekki ástæða til annars. Ég vil einfaldlega að allar upplýsingar sem þjóðin á skilið að fá, komi upp á yfirborðið svo hægt verði að gera hrunið upp. Án uppgjörs munum við halda áfram að sleikja sárin og vantreysta hvoru öðru. Við getum ekki byggt upp mannsæmandi samfélag ef við þorum ekki að horfast í augu við fortíðina.

Þjóðin á það inni hjá þingmönnum að þeir geri það eina rétta í stöðunni og láti dómsmál hafa sinn gang afskiptalaus.

 


mbl.is Næstversta niðurstaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Götusalt?

Er Ölgerðin orðin snarklikkuð? Þeir flytja inn iðnaðarsalt og selja sem matarsalt. Þegar einhver vogar sér að segja að iðnaðarsalt sé mestmegnis notað á götur þegar frystir, hóta þeir að senda lögræðinga á viðkomandi.

Þess má geta að hér í Hollandi var ein fyrirsögnin, Íslendingar strá götusalti yfir eggin sín. Ætlar Ölgerðin að eltast við alla þá sem réttilega sýna að þetta salt er ekki ætlað til matargerðar? 

Kunna þeir ekkert að skammast sín? Er einhver í stjórnsýslunni sem ætlar að taka á þessu máli?

Ef ekki, þá er það þjóðarinnar að sneiða hjá vörum fyrirtækisins.

http://smugan.is/2012/01/logfraedingar-olgerdarinnar-hota-thoru-arnorsdottur-eftir-vidtal-a-bbc/ 


Allt í sóma...

Hvað fóru miklir skattpeningar í að redda Kaupþingi? Hvað borgaði Nýja Kaupþing fyrir lánið hennar? Hvað stór hluti höfuðstólsins er vegna verðtryggingar?

Hvernig gengur annars að fella niður skuldir auðmanna? 


mbl.is Útburður í Breiðagerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband